Strč prst skrz krk

2011-02-23

Ruglað textavarp

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:16

hjá okkur í bústað um síðustu helgi.

Kyrilískt textavarp

Einhvern veginn höfðu stillingar raskast þannig að textavarpið birtist með kyrilísku letri. Meðal dagskrárliða sem þarna má sjá eru:

20:11 Útsvar. Akranes – Reykjanesbær
22:53 Taggart – Hnífabrellan
og að síðustu
01:16 Útvarpsfréttir í dagskrárlok

Neðst er svo auglýsing frá Hreyfli.

2010-12-7

Embættismenn fara á kostum

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:58

Ein fyndnasta frétt, sem ég hef séð í langan tíma birtist á bls. 2 í Fbl. í morgun. Fyrirsögnin var: Tollstjóri í stríði við fljúgandi furðuhlut! Og fjallaði um baráttu tollstjóraembættisins við að koma í veg fyrir að almenningsklósett verði staðsett fyrir utan Tollhúsið. Tollstjóraembættið fann þessu allt til foráttu og var ýmislegt tínt til. Með greininni var svo mynd af sjálfum tollstjóra, uppstríluðum með kaskeiti à la ríkislögreglustjóri. Ég vissi ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta eftir lesturinn.

2010-12-5

Býr Sigríður hérna?

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:44

Fyrir nokkru, ætli það séu ekki komnar næstum tvær vikur síðan, kom sérkennilegur atburður fyrir hérna hjá okkur. Hildigunnur var á æfingu, gott ef Freyja var ekki með henni og Fífa hafði farið eitthvað út með Valda. Semsagt bara við Finnur heima. Það var komið að háttatíma hjá honum. Ég sagði honum að fara niður og klára kvöldverkin og fara að sofa. Fór svo á eftir honum, hvort ég ætlaði að sækja bók. Allavega ég verð var við eitthvað þrusk frammi á gangi. Hélt að Fífa og Valdi væru komin aftur en kíkti samt fram til öryggis. Þá stendur þar einhver maður, sem ég þekkti ekki neitt. Varð náttúrlega afar undrandi en áður en ég næ að koma upp orði þá spyr hann Njálsgata 6, er Sigríður hérna? Ég næ nú að svara því til að í þessu húsi sé engin Sigríður. Áður en ég náði að bæta fleiru við sneri hann sér við og hvarf út í myrkrið. Frekar óþægilegt.

2010-11-17

Meira landafræðinám

Filed under: Nám,Ruglið — Jón Lárus @ 22:32

Núna var drengurinn að læra um Vestfirði í landafræðinni. Hann átti að gera krossgátu með ýmsum staðaheitum og örnefnum. Meðal annars var spurt um vestasta odda Íslands og Evrópu. Ég sagði við Finn að það væru Bjargtangar. Skömmu síðar sagði Finnur að það passaði ekki inn í krossgátuna. Ég varð alveg hlessa og fór að skoða þetta með honum. Þá kom í ljós að í námsefninu var vestasti oddinn sagður vera Látrabjarg! Sem er náttúrlega alger þvæla.

2010-11-7

Teppalagður bíll

Filed under: Bílar,Ruglið — Jón Lárus @ 23:13

Það tók mig smá tíma að átta mig á því hvað væri óvenjulegt við þennan bíl. Þetta kallar maður nú að ganga alla leið…

2010-10-23

Kasetta

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:49

Um daginn þá fór ég í dagsferð með vinnunni, nokkrar deildir saman af skrifstofunni. Svona dæmigert þjappa hópnum saman. Í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema hvað við komum við á Njálusetrinu á Hvolsvelli. Hraðspólað í gegnum Njálu á þremur korterum. Mjög skemmtilegt því sá sem sagði frá var virkilega góður sögumaður. Eftir þetta þá röngluðum við í gegnum búðina og þar rak ég augun í kasettu til sölu! Harmónikkufélag Rangæinga ef ég man rétt. Ég hef ekki séð svona nokkuð boðið til sölu í mörg ár.

2010-09-29

Hrísgrjónaverð

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:31

Verð á hrísgrjónum hér í búðum hefur valdið mér talsverðum heilabrotum upp á síðkastið. Við höfum keypt Tilda basmati grjón, sem fást í mismunandi pakkningum. Stærsti pokinn, fjögurra kílóa þungur, sem maður hefði fyrirfram áætlað að væri með lægsta kílóverðið kostar u.þ.b. 3500 kall í lágvörubúðum (eða ca. 875 kall á kílóið). Kílóspakkning kostar svo eitthvað um 800 kall en ef maður kaupir 500 gramma pakkningu, sem inniheldur 5 hundrað gramma suðupoka þá kemst maður af með 670 krónur á kílóið. Stærsta einingin semsagt langdýrust. Ég skil þetta ekki alveg.

Við rákumst svo fyrir nokkrum dögum inn í Kost og fundum þar níu kg poka af basmati hrísgrjónum á mjög svipuðu verði og fjögurra kg pokinn af Tilda grjónunum kostar. Þóttumst himinn höndum hafa tekið. Erum búin að prófa grjónin. Kannski ekki alveg jafngóð og Tilda en fín samt.

2010-03-31

Borðaprik

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:55

Nýyrði fyrir matarprjóna. Veit ekki alveg hvernig Fífu líst á það. Hún sem er sushi/prjónafrík dauðans.

2010-03-23

Fritz, Günter og Hansi

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:37

Alveg er þetta magnað. Það mætti halda að annar hver maður sé kominn með þessi eða álíka þýsk nöfn að millinafni. Því þessa dagana getur að líta misljótar hormottur út um allar trissur. Liggur við að annar hver maður sé búinn að koma sér upp svona löguðu. Var nú ekki hægt að láta sér detta sér eitthvað ekki alveg jafn ósmekklegt í hug? Safna tánöglum til dæmis?

2010-03-13

Útrásarvíkingur

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:42

eða ekki.

Að minnsta kosti fannst einhverjum þörf á því að grýta stórum skammti af núðlum á varinhelluna hjá okkur og rífa upp leifar af síðustu sumarblómum úr blómakerinu fyrir framan útidyrnar og dreifa þeim fyrir framan innganginn okkar.

Skemmtilegt, eða ekki.

Veit ekki alveg hvað ég gerði til að verðskulda þessa meðhöndlun.

2010-03-3

Bjössi bróðir

Filed under: Afmæli,Nördismi,Ruglið — Jón Lárus @ 22:42

á afmæli í dag. Til hamingju með það litli bróðir!

Fór svo að reikna í dag og komst að þeirri niðurstöðu að hann er orðinn 3 árum eldri en ég. Hann orðinn 42ja en ég bara 39. Já sumir eldast hraðar en aðrir því hann var 11 árum yngri en ég þegar hann fæddist.

2010-02-23

Þessi

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:48

tætari var víst mikið notaður haustið 2008.

2010-02-21

Stofn endurgreiðsla

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:37

Ég held að það sé nokkuð ljóst að ef tryggingarfélagið þitt er farið að endurgreiða þér pening, sem nota bene eru ekki tjónabætur, að þú sért að borga of mikið í tryggingar.

2010-01-17

Ömurlegasti dagur ársins

Filed under: Ýmislegt,Ruglið — Jón Lárus @ 23:01

er að þessu sinni á morgun. Þetta þóttist Cliff Arnall, sem á sínum tíma kenndi við Cardiff háskóla hafa fundið út (sjá m.a. hér).

Ástæðan er að jólin og áramótin eru löngu búinn. Vísareikningur yfirvofandi. Næsta útborgun dekkar engan veginn eyðsluna. Það er ennþá dimmt og kalt og það er mánudagur.

2009-12-7

Í messunni

Filed under: Fjölskyldan,Ruglið — Jón Lárus @ 19:46

í gær þar sem steindi glugginn eftir Rúnar var helgaður var Jóna Hrönn Bolladóttir sem messaði. Stelpurnar spurðu hvað presturinn héti og ég sagði þeim það. Það var hváð og ég endurtók hægt og skýrt (en mjög lágt). Eftir messuna sagði Fífa svo að henni hefði heyrst ég segja Jóna Hraunbolladóttir. Skildi ekkert í þessu furðulega nafni.

2009-12-3

Í fyrradag

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 19:43

fór ég í fótbolta, eins og svo oft áður á þriðjudagskvöldum. Ég hjólaði, sem leið lá, þvert yfir Klambratúnið. Þar hafði einhver átt leið um, líklega um helgina, í gríðarlega örgu skapi. Á leiðinni yfir túnið taldi ég 3 ruslatunnur af nýju gerðinni og 3 bekki á hliðinni eða á hvolfi. Viðkomandi hefur þurft að hafa talsvert fyrir þessu því bæði bekkir og tunnur eru boltuð niður, að því er ég best veit. Af einhverjum ókunnum ástæðum var siðan einn bekkur sem hafði verið látinn í friði. Furðulegt háttalag svo ekki sé meira sagt.

2009-09-17

Hot Cross Camp Yoga

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:20

Eða kannski Hot Boot Fit Yoga. Spurning hvort maður setur ekki saman eitt svona kerfi og mæti næsta haust og stórgræði?

2009-09-5

Djúpar pælingar

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:00

hérna. Verð nú að viðurkenna að ég hef aldrei lent í þessum vandræðum, sem lýst er í greininni.

2009-08-23

Varð fyrir miklum vonbrigðum

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:05

með eitt atriðið á menningarnótt í gær. Hafði skimað yfir alla dagskrána og rekið augun í nokkur spennandi atriði. Meðal annars fljótandi helíum innsetningu í Listasafni Reykjavíkur. Við þangað eftir tónleikana hennar Hallveigar kl. 9 um kvöldið. Svo þegar við vorum komin þangað þá reyndist innsetningin vera helíumblöðrur „fljótandi“ í loftinu. Ég sem hafði búist við einhverju hátækniatriði við -269°C.

2009-08-19

Alltaf jafn bjartsýnn

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:56

Prófaði áðan að slá inn kappafling.is til að komast inn í bankann. Gekk að sjálfsögðu ekki. Mér finnst að Da evil empire ætti nú að laga þetta. Svona á svipaðan hátt og maður kemst inn á símaskrána með því að slá inn nei.is.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.