Strč prst skrz krk

2010-10-20

Stolinn bíll

Filed under: Skilorðið — Jón Lárus @ 17:31

Fyrir síðustu helgi, líklega aðfararnótt laugardagsins var lagt bíl hérna fyrir framan hjá okkur. Síðan þá hefur hann safnað sektum. Var kominn með að minnsta kosti fimm undir þurrkurnar.

Mér fannst þetta undarlegt og fór að velta fyrir mér hverjar ástæðurnar gætu verið. Datt þá í hug að bílnum hefði verið stolið. Prófaði að fara inn á lögregluvefinn. Og viti menn þar var einmitt lýst eftir hvítum Nissan Sunny nr. RL-010 sama og hefur staðið fyrir utan hjá okkur síðan um helgina.

Reyndi að ná í lögguna en þá er skrifstofusímanum náttúrlega lokað þar kl. 16. Prófaði þá að gúggla bílnúmerið og fann síðu þar sem var lýst eftir þessum bíl. Þar var gefið upp póstfang, sem ég sendi á. Verður spennandi að vita hvað kemur út úr því.

2009-09-11

Nú rétt í þessu

Filed under: Skilorðið,Stríðni — Jón Lárus @ 00:39

var lögregluvarðstjóri á Selfossi að taka mig í gegn á Flettismettinu. Gamall bekkjarbróðir, sem var ekki alveg sáttur við komment frá mér hjá bekkjarsystur okkar. Skil ekkert í þessu. Uppbyggilegt komment og allt það…

2007-12-17

Það er fylgst með manni

Filed under: Skilorðið — Jón Lárus @ 18:00

Við Hildigunnur fórum í verslunarleiðangur í gær í Skeifuna. Það var niðamyrkur og hrikalega vont skyggni. Endaði á því að þegar ég ætlaði að taka beygju inn á bílastæði hjá Rúmfatalagernum þá var ég kominn aðeins of langt. Strax kominn bíll í skottið á manni þannig að ekki var hægt að bakka. Ég tók þess vegna á það ráð að aka þarna yfir kant, sem mér sýndist ekki vera neitt hár. Það sem ég sá ekki var að hinu meginn var kanturinn miklu hærri þannig að þegar ég fór fram af honum þá rakst hann aðeins upp undir bílinn. Slapp nú samt til. Sá síðan bílastæði og skellti mér í það. Þegar við stigum út úr bílnum þá var komin mótorhjólalögga að bílnum. Hafði greinilega tekið eftir þessum fáránlega akstri og ákveðið að tékka á málinu. Spurði hvort það væri ekki allt í lagi með okkur og við: Jú, jú allt í lagi með okkur. Löggi lét það gott heita og fór. Það var ekki fyrr en ég var svo kominn inn í búðina að ég fattaði að auðvitað hafði hann verið að tékka á hvort ég væri fullur.

2007-10-3

Fíkniefnahundur í heimsókn

Filed under: Skilorðið — Jón Lárus @ 23:37

Í gær í vinnunni komu skyndilega tveir ábúðarfullir lögreglumenn með fíkniefnahund í bandi inn í salinn til okkar. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Hundurinn tók nánast beint strik að einum vinnufélaga mínum. Sennilega langbest lykt af honum. Málið skýrðist svo því einn af vinnufélögum mínum þekkti annan lögregluþjóninn. Verið að þjálfa nýjan leitarhund og lögreglan fær aðstöðu meðal annars hjá okkur. Eins gott að vera hreinn í vinnunni.

2007-01-23

Góðkunningi lögreglunnar?

Filed under: Skilorðið — Jón Lárus @ 18:15

Lenti í smá útistöðum við lögregluna í gær. Ég var á leiðinni heim og þurfti aðeins að skjótast inn. Að sjálfsögðu voru engin stæði laus í grenndinni þ.a. ég gerði bara það sem maður gerir venjulega í slíku tilviki. Stoppaði uppi á gangstétt og hoppaði út úr bílnum. Það sem ég hafði ekki tekið eftir var að næst á eftir mér var lögreglubíll. Ég stoppaði til að hleypa honum framhjá. Hann stoppaði líka. Ég beið smá stund. Hann beið smá stund líka. Svo skrúfaði bílstjórinn niður rúðunni en sagði ekki neitt. Ég beið ennþá og sagði ekki neitt. Þá sagði löggi: „Einhverjar málsbætur?“ Ég byrjaði að stama eitthvað. Ja… ég… hm… allt í lagi ég skal færa bílinn.

Svo í dag hafði lögreglan á Selfossi samband við mig. Það var nú reyndar bara gamall bekkjarfélagi að óska mér til hamingju með afmælið.

Spurning hvað gerist á morgun?

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.