Strč prst skrz krk

2008-11-29

Maraþonlaufabrauðssteiking

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 22:10

Föndurdagur Austurbæjarskóla er alltaf haldinn um þetta leyti ársins. Þarna er hægt að gera alls konar hluti. Skreyta piparkökur, gera jólakort, skera út laufabrauð svo fátt eitt sé nefnt. Ég lét plata mig til að taka að mér eina vakt í laufabrauðssteikingu.

Annað skiptið á ævinni, sem ég læt hafa mig út í svona nokkuð. Ætli að fyrra skiptið hafi ekki verið fyrir fjórum árum, þegar Fífa var í sjöunda bekk. Þá var ég alveg grænn og vissi ekki hvað sneri upp né niður á laufabrauði. Var aðeins vissari núna um hvernig ætti að fara að þessu þótt maður væri svolítið smeykur þegar einhverjir komu með virkilega vel útskorin brauð til steikingar.

Steikingin gekk annars bara nokkuð vel. Það var alveg brjálað að gera. Frá því ég mætti á mína vakt þá var biðröð með laufabrauð í steikingu allan tímann nema rétt í lokin. Ég þurfti að taka aukavakt því sá eða sú, sem átti að taka við af mér lét ekki sjá sig. Þessir tveir tímar í laufabrauðssteikingunni flugu samt áfram. Fannst ég rétt að vera að byrja þegar seinni vaktin kláraðist og kominn tími á að fara á mótmælafund.

2008-05-7

Síðasta

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 22:13

samræmda prófið hjá Fífu á morgun. Að þessu sinni stærðfræðiprófið. Eftir prófin fara 10. bekkingarnir í ferð í Þórsmörk. Spennandi fyrir þau. Verður líka gott fyrir okkur að endurheimta stofuna og borðstofuna okkar úr gíslingu prófanefndar.

2007-11-19

Hérinn og skjaldbakan

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 00:28

Fór á bekkjarkvöld hjá Freyju síðasta miðvikudag.  Þar fengu bæði foreldrar og börn að spreyta sig á ýmsum þrautum eins og gengur.  Ég var tekinn upp ásamt Freyju í eggjahlaup (gamli leikurinn að hlaupa fram og til baka ákveðna vegalengd með egg í skeið, sem haldið er á í munninum).  Þarna á bekkjarkvöldinu voru reyndar notaðir ofurknettir í staðinn fyrir egg.   Ég hafði aldrei gert svona áður og lagði mjög rólega af stað. Freyja var miklu fljótari og náði að snúa við.  En missti síðan sitt egg á bakaleiðinni.  það skoppaði út í sal.  Þannig að ég vann þó ég væri á skjaldbökuhraða.  Freyju fannst þetta lítið gaman.  Hafði greinilega búist við að mala pabba sinn (sem hún hefði líka gert ef hún hefði ekki misst boltann).

2007-09-5

Við Finnur

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 22:50

byrjuðum á stærðfræðiprógrammi í kvöld. Hugmyndin er að taka smá tíma einu sinni í viku og reyna að gera eitthvað skemmtilegt og við hans hæfi. Bjó til 60 margföldunardæmi og leyfði honum að spreyta sig. Tekinn tími á skeiðklukku á hver 5 dæmi og Freyja myndskreytti stjörnugjöf eftir tíma og frammistöðu. Flottast var stórt brimbretta R (surfer R kallaði Finnur það). Honum fannst þetta mjög skemmtilegt og rúllaði upp þessum 60 dæmum á innan við hálftíma.

2007-06-5

Mont

Filed under: Skóli — Jón Lárus @ 12:22

Skólaslit í Austurbæjarskóla í dag.  Stelpurnar stóðu sig með stakri prýði.  Fífa með 9,44 í meðaleinkunn og Freyja með 9,00.  Glæsilegt hjá þeim.

2006-05-17

Útskrift

Filed under: Skóli — Jón Lárus @ 20:45

Finnur var að útskrifast úr leikskólanum í dag. Sjá meira hér. Finnur er reyndar ekki alveg hættur enn, en útskriftin var höfð á þessum tíma vegna þess að einhverjir krakkar eru um það bil að hætta. Fengum síðan að heyra sögu af Finni og Hafsteini vini hans. Þeir voru að plotta át á köku, sem mamma hans Hafsteins ætlaði að koma með. Það var einhvern veginn á þá leið að Hafsteinn ætlaði að borða fyrst eina sneið og síðan Finnur tvær og síðan…

2006-02-19

Grunnskólar Reykjavíkur voru með sýningu í Ráðhúsi…

Filed under: Ýmislegt,Skóli — Jón Lárus @ 01:56

Grunnskólar Reykjavíkur voru með sýningu í Ráðhúsinu í gær. Freyja tók þátt í atriði Austurbæjarskóla. Gekk bara vel. Fjölmenningarlegt söngatriði à la Austurbæjarskóli.

Á leiðinni heim þá sáum við starahóp á flugi. Fuglarnir greinilega að hópa sig fyrir kvöldið. Svo sáum við hópinn setjast niður. Lendingarstaðurinn var alveg þokkalega stórt hús á Skólavörðustígnum. Sjónvarpsloftnetið á húsinu var þéttsetið. Þeir fuglar sem komust ekki fyrir á því settust á mæninn á húsinu. Þeir fuglar sem náðu ekki sæti þar urðu að gera sér að góðu að hanga utan á þakinu. Stundum er vont að ganga ekki með myndavél á sér að staðaldri.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.