Strč prst skrz krk

2009-06-11

Nabucco í Olomouc

Filed under: Tónlist — Jón Lárus @ 23:59

Ég ætla nú ekki að fara að rekja Tékklandsferðina lið fyrir lið. Hildigunnur gerir það, mjög vel, á síðunni sinni.

Fyrir þá sem ekki vita þá vorum við fararstjórar í kórferð Gradualekórsins í kórakeppni í Olomouch í Tékklandi. Eitt kvöldið þá var kórnum og fylgiliði boðið á óperusýningu í óperuhúsinu í Olomouc (já það er óperuhús þar, þótt þetta sé bara 100.000 manna sveitaborg í Tékklandi). Á efnisskránni var Nabucco, eftir Verdi. Þegar við mættum á sýninguna þá kom í ljós að þetta var hraðferð um óperuna. Bara sýndar helstu aríur og kórar. Miðum var dreift á liðið og þegar við Hildigunnur fundum loksins okkar stað þá kom í ljós að þetta var óperuklefi á besta stað á annarri hæð (maður skildi náttúrlega ekki tékkneskuna á miðanum, þar sem stóð óperuklefi nr. þetta og þetta). Hef aldrei komið inn í svona nokkuð áður. Ákveðin greifatilfinning yfir þessu. Vantaði bara þjóninn með kampavínið í hléinu.

Eitt atriði í óperunni var alveg drepfyndið (án þess að eiga að vera það). Úr óperuklefanum okkar sáum við vel ofan í hljómsveitargryfjuna. Í þessu atriði þá stráðu nokkrir söngvarar glimmeri á sviðið og hluti af því fór ofan í gryfjuna og yfir spilarana í annarri fiðlu. Ein fiðlustelpan tók alveg andköf þegar glimmerið hrundi yfir hana. Hætti að spila og hristi sig alla. Kitlaði greinilega undan þessu. Síðan komu nýjar glimmersendingar af sviðinu nokkrum sinnum og alltaf var jafnmikið drama í hljómsveitargryfjunni. Maður þurfti bara að halda aftur af sér til að springa ekki úr hlátri yfir þessu öllu saman.

2009-05-3

Í tilefni af

Filed under: Fjölskyldan,Matur,Tónlist,Vín — Jón Lárus @ 22:36

frumflutningi á verki hjá Hildigunni af Kvennakór Reykjavíkur þá ákváðum við að splæsa einni flottri hvítvínsflösku. Áttum eina Puligny-Montrachet 1er cru ’99 frá Etienne Sauzet. Alveg gríðarlega gott vín, sem passaði fullkomlega með kræklingunum, sem við nösluðum með.

Allavega, ég gaf Fífu að smakka á víninu og spurði hana hvað henni fyndist um það. Hún sagði að það væri betra en síðasta vín, sem ég hefði gefið henni að smakka á. Og hvaða vín var það aftur, spurði ég? Það var eitthvað með perubrjóstsykursbragði, mér fannst það ekki gott. En hvaða bragð myndirðu þá segja að væri af þessu víni? Svona hvítvínsbragð, hljómaði svarið.

2008-12-7

Mahler tónleikar

Filed under: Tónlist — Jón Lárus @ 21:53

Var á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Á efnisskránni Eldur eftir Jórunni Viðar í tilefni af 90 ára afmæli hennar og svo 1. sinfónía Mahlers. Mjög skemmtilegir tónleikar. Svo spillti ekki fyrir að bæði Fífa og Hildigunnur voru að spila með hljómsveitinni. Stóðu sig að sjálfsögðu vel eins og endranær. Takk fyrir mig.

2007-06-7

Meira mont.

Filed under: Fjölskyldan,Tónlist — Jón Lárus @ 21:14

Akkúrat á þessari stundu er Hildigunnur að syngja í Carmen með Hljómeyki með Sinfóníuhljómsveitinni. Fékk meira að segja að syngja smá sóló.

2007-01-29

Myrkir músikdagar

Filed under: Tónlist — Jón Lárus @ 22:34

Ég náði í kvöld þeim áfanga að hafa farið á fleiri tónleika heldur en Hildigunnur á Myrkum músikdögum (tónlistarhátíð tónskáldafélagsins).

Ok, ok hún var að syngja á tónleikunum áðan þ.a. strangt til tekið fór hún ekki á tónleikana. Var reyndar á þeim. Veit, hártoganir…

2006-05-11

Strengir

Filed under: Dægradvöl,Hjólreiðar,Tónlist — Jón Lárus @ 23:48

Jú, jú nóg af þeim í Mahler 6 í kvöld.

Annars líka nóg af þeim í skrokknum á mér eftir að hafa hjólað í vinnuna núna í tvo daga 😉

2006-03-19

Þá er því aflokið. Bónaði bílinn í dag. Fór síðan …

Filed under: Stúss,Tónlist — Jón Lárus @ 23:57

Þá er því aflokið.
Bónaði bílinn í dag. Fór síðan á tónleika með áhugamannahljómsveitinni með fullan bíl af börnum. Okkar 3 + dansvinkonu Freyju. Skemmtilegir tónleikar.

2006-02-23

Við Hildigunnur fórum á War of the Worlds tónleika…

Filed under: Tónlist — Jón Lárus @ 23:22

Við Hildigunnur fórum á War of the Worlds tónleikana með Sinfó í kvöld. Þetta voru í einu orði sagt frábærir tónleikar. Jóhann var ágætis lesari (auðvitað enginn Burton samt). Söngvararnir allir góðir. Síðan er þessi músík bara svo mikil snilld. Og alveg ótrúlegt hvað gaurarnir á hljómborðunum náðu hljóðunum af upprunalegu útgáfunni. Eina sem pirraði okkur var þegar Friðrik Ómar þurfti endilega að dilla sér undir tónlistinni á meðan dramatískum lestri stóð. Frekar hallærislegt. Textarnir, bæði lesnir og sungnir, höfðu allir verið þýddir og það snilldarvel. Af hverjum kom reyndar ekki fram í prógramminu en við fréttum eftir tónleikana að Gísli Rúnar hefði séð um þá hlið mála.

2006-02-17

Nældi mér í tvo miða á Sinfó þar sem flutt verður …

Filed under: Tónlist — Jón Lárus @ 00:08

Nældi mér í tvo miða á Sinfó þar sem flutt verður War of the worlds eftir Jeff Wayne nk. fimmtudag. Þetta er músík sem er í uppáhaldi bæði hjá mér og Hildigunni. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta mun koma út hjá Sinfó. Ég vildi samt ekki vera sögumaðurinn (þ.e.a.s. ef honum er haldið inni) og lenda í því að vera borinn saman við Richard Burton á upprunalegu útgáfunni.

2006-01-7

Vorum á tónleikum með Tallis Scholars í kvöld. Fín…

Filed under: Tónlist — Jón Lárus @ 12:55

Vorum á tónleikum með Tallis Scholars í kvöld. Fínir tónleikar en samkvæmt áliti sérfróðra er kórinn farinn að dala. Fórum síðan í boð hjá Breska sendiráðinu. (Flaut með vegna þess að Hildigunnur er að syngja með Carminu kammerkórnum og Tallis Scholars annað kvöld). Hef ekki farið í svona sendiráðsteiti áður. Fullt af víni en næstum því ekkert að borða!

Bloggaðu hjá WordPress.com.