lítur út fyrir að við þurfum að fjárfesta í 13/17 víólu fyrir Finn. Gamla víólan (sem er ekki nein víóla, heldur 1/2 fiðla með víxluðum strengjum) er orðin of lítil fyrir hann. Til að byrja með látum við samt 3/4 fiðlu með víxluðum strengjum duga.
2009-09-7
2007-12-13
Jólahóptími
Finnur spilaði í jólahóptíma hjá víólunum í gær. Lagið, sem hann átti að spila var: Dvel ég í draumahöll úr Dýrunum í Hálsaskógi. Hildigunnur var meira að segja búin að útbúa drungalegt undirspil fyrir píanóið, sem var kallað: Dvel ég í draugahöll. Fyrir misskilning komst það ekki til skila en það er nú önnur saga. Þegar röðin kom að Finni að spila þá arkaði hann fram á sviðið mjög öruggur með sig og sagði síðan við meðleikarann, þannig að heyrðist um allan salinn, þegar hann gekk fram hjá píanóinu: „Þú kannt ekki að spila það, sem ég ætla að spila!“ Hún svaraði samstundis: „Jú ég kann það víst!“ Sármóðguð. Salurinn sprakk.
2007-11-3
Fífa
er búin að vera á kafi í óperuverkefni (Die Verschworenen eftir Schubert) núna í tvær vikur í tónlistarskólanum. Síðustu viku hafa verið æfingar á hverjum einasta degi á . Librettóið víst í svipuðum dúr og í Lýsiströtu. Smávegis togað og teygt víst, samt.
Núna eru búnar 2 sýningar af 4 á . Ég og Freyja förum á morgun (Hildigunnur því miður ekki nógu frísk til að koma með á morgun, nær vonandi síðustu sýningu á þriðjudag). Verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út.
2007-09-23
Finnur og víólutíminn
Fór með Finn í víólutíma núna fyrir nokkrum dögum. Þegar tíminn var búinn þá sagði hann við mig: Pabbi ég hlakka rosalega til þegar ég byrja á bók 3, veistu af hverju. Ég, nei Finnur minn ég veit ekki af hverju. Jú þá fæ ég nefnilega að læra víbrató.
Vonandi bara að hann verði jafn spenntur þegar hann fer að æfa það. Það er víst ekki mjög skemmtilegt að æfa það skilst mér.
2007-03-17
Útskrift
hjá Finni í fyrstu bók í víólu áðan. Hann stóð sig eins og hetja, spilaði meira að segja betur heldur en talsvert eldri stelpa, sem var líka að útskrifast úr fyrstu bók og spilaði sama lag. Útskriftarlagið í fyrstu bókinni er alveg fáránlega erfitt fyrir þessi litlu grey.
2006-01-13
Finnur er að fá nýja víólu. Reyndar er þetta fyrst…
Finnur er að fá nýja víólu.
Reyndar er þetta fyrsta fiðlan hennar Fífu, sem er breytt í víólu með því að víxla strengjum. Finnur er ekkert smá ánægður með þetta, sérstaklega með bogann, sem er miklu stærri en sá gamli.