Strč prst skrz krk

2011-11-19

2000

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 14:04

km á hjólinu úr og í vinnu það sem af er árinu. Þetta gerðist síðasta þriðjudag (14. nóvember). Ég hef aldrei áður náð þessum áfanga fyrr en í desember. Núna lítur út fyrir að ég nái 40 vikum á hjóli úr og í vinnu, sem hefur aldrei gerst áður hjá mér.

2011-07-11

Le kagg

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 22:57

Núna loksins get ég skellt inn myndum af kagganum. Við Freyja skutumst út á Gróttu í smá mánudagsbíltúr og tókum nokkrar myndir af bílnum.

kagginn

trjóna

við Gróttu

2011-07-7

Sellógaurinn

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:18

Þegar við fórum að spá í að kaupa nýjan bíl þá var það eitt af grundvallaratriðum að hægt væri að koma sellói fyrir í skottinu á honum. Þegar ég fór svo að skoða mözduna (sem við keyptum svo) þá kippti ég sellóinu hennar Freyju með. Sagði svo við bílasalann og fyrrverandi eiganda að bíllinn yrði að standast eitt skilyrði til þess að hann kæmi til greina. Ef sellóið kæmist ekki í skottið væri sjálfhætt. Sellóið komst svo með léttum leik í skottið. Mun rúmbetra heldur en á gamla bílnum. Tók svo smá rúnt á bílnum og leist ansi vel á hann. Þegar ég hringdi svo í bílasalann daginn eftir og sagðist hafa áhuga á að kaupa bílinn þá svaraði hann: Já þú ert sellógaurinn, man vel eftir þér! Greinilega ekki á hverjum degi sem svona mælingar fara fram á bílasölum…

2011-07-5

Nýr bíll!

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:38

Eða að minnsta kosti nýr gamall bíll. Hildigunnur var ekki fyrr farin í Skálholt að ég fór að kíkja á bílasölur. Rakst fljótlega á þessa líka ljómandi flottu Mözdu 6, bláa að lit. Við vorum reyndar búin að sjá hann á netinu áður en hún fór austur. Samningaviðræður við fyrri eiganda tóku stuttan tíma og nú erum við stoltir eigendur að ekki nema 5 ára gömlum bíl.

2011-06-17

Skógarsóleyjar

Filed under: Garðurinn — Jón Lárus @ 22:10

í garðinum okkar, mynd tekin í kvöld.

Skógarsóley

Skógarsóley

Uppáhaldsblómið mitt í garðinum. Venjulega eru þær búnar um þetta leyti en kuldinn í vor virðist hafa seinkað þeim.

2011-06-11

Nýr hringur

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 20:32

Ákvað núna í morgun að víkka hjólahringinn minn aðeins út. Gamli hringurinn var um 25 km langur umhverfis Seltjarnarnes og Reykjavík innan Elliðaár. Í staðinn fyrir að hjóla Fossvogsdalinn þá hjólaði ég fyrir Kársnesið og svo upp í Mjódd. Lengdi hringinn um ca. 7 km.

Hér sést leiðin sem ég hjólaði. Leiðin er logguð með forriti (JogTracker) í símanum mínum. það er reyndar ekki alveg nákvæmt, vanmetur lengdina á leiðinni um rúmlega eitt prósent. Gæti trúað að á þessum hring myndi muna um 500 m.

2011-05-23

MI km

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:41

hjólaðir úr og í vinnu á árinu. Náði þeim áfanga í dag. Síðan ég byrjaði að hjóla aftur fyrir fimm árum þá hef ég aldrei áður verið svona fljótur að fylla upp í þúsundið. Aðstæður til hjólaiðkunar hafa hins vegar oft verið betri en í dag. Ég ákvað að hjóla með lambhúshettu út af svifryki og ösku. Ekki annað þorandi þegar magnið er allt að 20 falt yfir mörkum.

2011-05-11

Shortcut

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 22:39

Finnur fékk sumarklippinguna sína í gær. Hann var tekinn og snoðaður. 4 mm broddar. Getur núna þvegið hárið með þvottapoka. Spurning um að fá Freyju til að taka mynd af honum og skella inn.

2011-05-7

Garðpartí

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 17:04

Vorum með kaffi úti á palli í fyrsta skipti á þessu sumri núna áðan. Ekki slæmt það. Veðrið flott og nógu mikið skjól á pallinum til að væri ekkert kalt að sitja úti.

2011-04-29

Keyrður niður

Filed under: Bílar,Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:40

Já það gerðist í fyrsta skipti í dag að ég var bókstaflega ekinn niður á hjólinu. Þetta gerðist þannig að ég var á leiðinni í vinnuna. Var kominn að Holtagörðum og hjólaði eftir gangstéttinni meðfram Holtavegi, norðan megin, fram hjá nýju bílastæðunum. Þar var einn bíll á leið út af stæðinu. Hann stoppaði og ég lét gabbast og hélt áfram. En þá var bara gefið í og ég varð fyrir drekanum. Sem betur fer var ég á lítilli ferð og bíllinn tók af stað úr kyrrstöðu. Ég flaug samt á hausinn og hjólið lenti að hluta til undir bílnum. Ég slapp nú sem betur fer með skrámur en hjólið slapp ekki eins vel úr þessum allt of nánu kynnum við bíl. Afturgjörðin á hjólinu er snarbeygluð, hægt að nota hjólið en gjörðin er svo skökk að það verður að skipta henni út.

Bílstjórinn, kona með tvö lítil börn var alveg miður sín yfir þessu. Sagðist hafa ruglast á bremsum og bensíngjöf (ég tók eftir því). Þetta hefði samt allt getað farið verr og ég hef dottið miklu verr á hjóli án þess að bíll kæmi nokkuð þar við sögu.

2011-04-23

Seinna eggið

Filed under: Ýmislegt,Hátíð — Jón Lárus @ 23:03

sem við gerum í ár var svo gert í kvöld. Að þessu sinni gerðum við tvennt sem við höfum ekki prófað áður. Fyrra atriðið var að við tempruðum súkkulaðið. Eftir að hafa brætt súkkulaðið í vatnsbaði þá tókum við 2/3 af súkkulaðinu og kældum úr ca. 50°C niður í 28°C. Blönduðum því svo aftur saman við afgangs þriðjunginn sem var þá við u.þ.b. 37°C. Eftir blöndunina var súkkulaðið um 32°C sem er kjörhiti. Hin nýjungin var að við smurðum einni til einni og hálfri matskeið af súkkulaði í formin og hentum svo í frysti í 5 mínútur. Endurtókum svo þangað til súkkulaðið var búið. Með þessu móti gekk mun hraðar fyrir sig en venjulega að mynda skelina og þykktin á henni varð líka mun jafnari. Nú er bara spurning hvrot að súkkulaðið haldi glansinum eða hvort það mislitist eins og þau hafa gert þegar súkkulaðið er ekki temprað. Ef þetta gengur vel þá verður þessi aðferð notuð í framtíðinni.

2011-04-17

Við Freyja

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 21:38

vorum að leggja lokahönd á fyrra páskaeggið sem verður handgert hér á bæ í ár. Við Freyja búum okkur til egg en hin kaupa sér. Að þessu sinni er um algjör lúxusegg að ræða. Súkkulaðið er 70% frá Amedei, ítölskum framleiðenda. Innvolsið handtínt í Krambúðinni. Framleiðsluferillinn var myndaður rækilega af Freyju. Afraksturinn sést hér að neðan:

2011-04-5

Heimur versnandi fer…

Filed under: Ýmislegt,Bílar — Jón Lárus @ 21:35

Rakst á gott dæmi um það um helgina. Tók á mig rögg og ákvað að bóna bílinn. Byrjaði á því að skólpa af honum. Varð náttúrlega að kaupa tjöruleysi til að ná af honum tjörusulli síðustu vikna. Athugaði síðan hvort ég ætti eitthvað eftir af bóni. Jú það voru restar í tveimur dollum; varla þó nóg til að bóna eina umferð. Ég kíkti því inn í bensínsjoppuna hjá bílaþvottaplaninu. Nei, þeir áttu ekki Mjallarbón. Ákvað því að prófa Olís, hef venjulega keypt þetta bón hjá þeim. Þeir áttu þetta heldur ekki til og prófaði ég þó á tveimur mismunandi stöðum. Ákvað því að prófa til þrautavara að kíkja í Excel búðina. Ekki heldur til þar. Eftir að hafa skoðað bónúrval á fjórum bensínstöðvum þá lítur út fyrir að ekki sé lengur hægt að fá Mjallarbón, besta bón sem um getur.

Fór svo að hugsa betur um þetta. Ég veit alveg af hverju þetta bón selst ekki lengur. Það er rosalega gott; bónhúðin endist í marga mánuði en það er líka erfitt og tímafrekt að bóna með því. Lítur greinilega út fyrir að fólk vilji heldur kaupa hraðbón sem er hægt að sulla á bílinn á örskammri stundu en endist ekki nema nokkrar vikur í mesta lagi.

Þetta bónævintýri mitt endaði á því að ég keypti eitthvað Sonax bón sem er meint gott. Byrjaði samt á að nota Mjallarbónrestarnar sem ég átti og þær dugðu til að klára bílinn. Líklega samt í síðasta skipti sem ég nota það.

2011-04-3

Og fleiri vorboðar

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 21:35

Sá ánamaðka á hjólastígnum á leiðinni í vinnuna annaðhvort á miðvikudaginn eða fimmtudaginn. Líka nokkuð greinilegir vorboðar.

2011-03-29

Vorboðar

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:14

Ég held að vorið sé komið núna. Á leiðinni heim úr vinnunni þá mætti ég tveimur götusópurum. Sá svo einn álengdar. Stígarnir orðnir snjólausir og meira að segja búið að sópa upp mölinni. Skýrara verður þetta varla.

2011-03-23

Tiltektaratvik

Filed under: Heimilisstörf — Jón Lárus @ 23:01

Lenti í tiltektaratviki um helgina. Við vorum búin að bjóða nágranna okkar í mat. Bæði til að borga aðeins til baka fyrir öll skiptin sem hann hefur tekið að sér að gefa Loppu og blómum og einnig til að ræða aðeins um komandi framkvæmdir. Nema hvað, ég var búinn að henda lambabógi inn í ofn og var að ganga frá í uppþvottavélina. Fífa var að útbúa súkkulaðimousse. Á eldhúsborðinu var skál með nokkrum eggjahvítum, sem ég hafði fengið á tilfinninguna að ætti ekki að nota. Ég losaði okkur við hvíturnar og gekk frá skálinni. Skömmu síðar bað Fífa mig um að kíkja á uppskriftina til að gá að einhverju atriði. Ég gerði það og hvítnaði síðan upp. Ástæðan, sá eftirfarandi aftast í uppskriftinni: Í lokin hálfþeytið eggjahvíturnar og bætið síðan sykrinum út í…

2011-03-17

Ég held

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 20:03

að dagurinn í dag sé eini dagur ársins sem er ekki helgaður einhverju málefni. Eins gott að njóta hans vel.

2011-03-13

Finnur nörd

Filed under: Fjölskyldan,Nördismi — Jón Lárus @ 22:51

Ég fékk bók um dulkóðun í afmælisgjöf um daginn (The code book eftir Simon Singh). Mjög skemmtileg bók, þannig að ég var fljótur með hana. Sagði síðan Finni eitthvað frá henni. Hann varð strax voða spenntur og byrjaði að lesa. Ég bjóst nú ekki við að hann myndi fara neitt langt í henni. Myndi kannski komast í gegnum fyrstu einn eða tvo kaflana í mesta lagi. Nei, nei það var nú eitthvað annað. Nú er hann meira en hálfnaður með bókina og farinn að demba yfir mig spurningum um Enigma dulmálsvél Þjóðverja. Mér finnst það reyndar ekkert slæmt.

2011-03-5

Það þarf ekki

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:55

mikið til að gleðja eigendur gamalla bíla. Dæmi um það er að núna í vikunni fórum við með gömlu beygluna okkar í skoðun. Fengum appelsínugulan miða í fyrstu tilraun og það var dansaður regndans af gleði.

2011-02-23

Ruglað textavarp

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:16

hjá okkur í bústað um síðustu helgi.

Kyrilískt textavarp

Einhvern veginn höfðu stillingar raskast þannig að textavarpið birtist með kyrilísku letri. Meðal dagskrárliða sem þarna má sjá eru:

20:11 Útsvar. Akranes – Reykjanesbær
22:53 Taggart – Hnífabrellan
og að síðustu
01:16 Útvarpsfréttir í dagskrárlok

Neðst er svo auglýsing frá Hreyfli.

« Undanfarandi síðaEftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.