Annan daginn okkar í Sydney þá röltum við í átt að höfninni. Þetta var algerlega markmiðslaust rölt en samt sem áður tókst okkur að rekast á eina af flottustu vínbúðum bæjarins (Australian Wine Centre), sem ég var búinn að lesa um og var algjörlega á listanum yfir það sem þyrfti að skoða. Við inn. Búð sem sérhæfir sig í áströlskum vínum og er ekki með neitt af fjöldaframleiðsludóti (Lindemans, Penfolds, Brown brothers o.fl). Þarna voru vínflöskur upp um alla veggi, og maður þekkti fæst af því sem var á boðstólum. Við vorum ekki búin að vera lengi inni þegar afgreiðslumaður kom og spurði hvort hann gæti aðstoðað okkur (eitt af því sem ég kunni mjög vel við þarna úti var hvað afgreiðslufólk var vel með á nótunum. Alltaf mætt strax á staðinn til að spyrja hvort það gæti aðstoðað og ef maður sagði að maður væri bara að skoða þá var maður látinn í friði. Ef beðið var um aðstoð þá fékk maður yfirleitt fína þjónustu). Ég spurði hverju hann gæti mælt með undir 20 AUD (ca. 2400 kall) og hann benti okkur á vín sem var í tilboðsrekka hjá þeim á 15 AUD:
Við keyptum eina flösku og smökkuðum um kvöldið. Vægast sagt magnað vín. Svo fór ég að skoða miðann betur og gat ekki fundið út hver framleiðandinn væri. Næst þegar við rákumst inn í AWC þá sagði ég við afgreiðslumanninn að þetta væri æðislegt vín en ég hefði ekki áttað mig á því hver framleiðandinn væri. Þá kom í ljós að einhver Barossa framleiðandi hafði ekki viljað setja þrúgurnar af ákveðnum skika í vínið sem hann gerði venjulega vegna þess að það hafði komið hitabylgja þannig að hann treysti ekki þrúgunum í vínið sitt. Í staðinn fyrir að henda berjunum var þá gerður þessi ómerkti mjöður. Við reyndum að pressa meiri upplýsingar út úr AWC mönnunum en þeir sátu fastir við sinn keip. Eina sem við fengum upp úr þeim í viðbót var að vínið sem væri venjulega gert úr berjunum kostaði 70-80 AUD (allt að 9000 kall).
Eftir að vera kominn á bragðið á svona góðu víni þá sá ég voðalega lítið annað. Smakkaði þó Penfolds bin 138, sem var allt í lagi. Peter Lehmann Layers líka (sem var að detta inn í vínbúðirnar hér núna) Alveg hægt að sleppa því, mjög mikil flatneskja. Ekkert ódýrt samt. Síðast en ekki síst þá smökkuðum við Stump jump 2008, sem stendur alltaf fyrir sínu. Er ekki viss um að 2008 árgangurinn sé kominn hingað til lands.
Síðan smökkuðum við hin og þessi hvítvín á veitingastöðum. Flest alveg þolanleg en ekkert þeirra það gott að ég leggði nafnið á minnið.
Áður en við fórum út þá var ég búinn að finna einn hvítvínsframleiðanda, Shaw and Smith, sem leit út fyrir að vera spennandi. Þurfti ekki að leita lengi í AWC að þessu víni. Meðal annars sem ég hafði heyrt um vínin frá S&S var að chardonnay hvítvínið minnti á Chassagne-Montrachet eða Puligny-Montrachet frá Búrgúndarhéraðinu í Frakklandi. Ég þurfti ekki að heyra meira, endaði á því að kaupa tvær flöskur og dröslaði þeim yfir hálfan hnöttinn.
Hann átti eitthvað af Torbreck dóti, annað ekki af því sem fæst hér heima að því er við vitum.
Athugasemd af hildigunnur — 2010-05-29 @ 01:16 |
Heh, já og verðið á þessu dóti: 500 – 600 AUD sem er u.þ.b. 60.000 kall!
Athugasemd af Jón Lárus — 2010-05-31 @ 23:08 |
[…] Skroppið í aðal vínbúðina, sem var ekki langt frá Circular, keyptar 2 flöskur af víni sem var komið í algjört uppáhald, Jón Lárus segir betur frá því hér: […]
Bakvísun af Dagur 13. Loksins kengúrur. « tölvuóða tónskáldið — 2010-06-3 @ 22:31 |