Strč prst skrz krk

2008-05-31

Fífa

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 20:24

stóð sig eins og hetja í samræmdu prófunum. Hún fékk 8,5 í dönsku og náttúrufræði, 9,0 í ensku og íslensku og svo 9,5 í stærðfræði. Ekki smá flott hjá henni.

2008-05-29

Smá

Filed under: blóm,Garðurinn — Jón Lárus @ 22:29

myndasería úr garðinum.

Byrja á uppáhaldsblóminu mínu, skógarsóleynni.

Skógarsóleyin

Man svo ekkert hvað næstu tvö heita. Þeir lesendur, sem eru með þetta á tæru, mega gjarnan láta ljós sitt skína.

Þetta er einhvers konar lilja, man bara ekkert hvað hún heitir

Annar nafnleysingi.

Hvítasunnuliljurnar eru svo búnar að vera mjög flottar í vor. Oft, sem að hefur komið rok og lamið þær niður en ekki núna.

Hvtasunnuliljurnar.

Verst að myndirnar af túlípönunum mistókust. Verð bara að henda slíkri mynd inn þegar Hildigunnur kemur til baka úr kórkeppninni.

Var bara að spá

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 00:41

þegar lerkitré „laufgast“ hvað er það þá kallað? Lerkitréð er að barra sig? Lerkitré er náttúrlega barrtré og getur því ekki laufgast (ef maður fer út í smáatriðin og ég fer stundum út í smáatriðin (tryggingafélög hafa haft samband við mig til að semja smáaletursklausur…)). Eða lætur maður bara svona tæknileg smáatriði ekki á sig fá og segir bara lerkitréð er að laufgast?

2008-05-23

Reykherbergið

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 16:18

í vinnunni hjá mér hefur loksins verið lagt niður. Eins gott. Maður þarf þá ekki lengur að halda niðri í sér andanum meðan gengið er fram hjá því á leið í mat eða kaffi.

Ef

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 00:10

þetta er ekki dót fyrir mig, þá veit ég ekki hvað…

2008-05-21

Er búinn að sanka að mér

Filed under: Garðurinn,Hjólreiðar — Jón Lárus @ 21:21

hjóladóti undanfarna daga.

Fór í Markið í fyrradag. Þurfti að kaupa nýtt dekk á hjólið því ég eyðilagði hjá mér dekk þegar ég hjólaði yfir eitthvað járndrasl hjá nýja Tónlistarhúsinu. Fjárfesti líka í nýjum hjálmi því sá gamli var kominn vel fram yfir það, sem er ráðlagt sem endingartími. Þegar ég kom á staðinn þá mundi ég eftir því að við ætluðum alltaf að kaupa okkur hjólagrind til að setja á bílinn. Þarna fékkst þessi fína grind, fyrir þrjú hjól, sem hægt er að festa á kúluna á bílnum á 10.000 kall. Ekki slæmt. Nú er hægt að kippa hjólunum með ef við skreppum út úr bænum.

Við íbúarnir í húsinu hérna vorum svo búin að ákveða að kaupa hjólagrind til að setja á garðvegginn (þetta gengur nefnilega ekki lengur að hafa hjólin út um allan garð). Ég fór á stúfana og fann þessa fínu grind fyrir fimm hjól á 20.000 í Borgarhjóli. Var keypt í gær. Er reyndar ekki búinn að henda henni upp ennþá en það kemur.

2008-05-19

Fékk

Filed under: Undrun — Jón Lárus @ 22:07

þetta sent í dag. Þokkaleg færni eða hvað?

2008-05-17

Matseðillinn

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 00:34

á meðan Hildigunnur er í París:

fös: TGIF
lau: Eldsmiðjan
sun: KFC
mán: Taco bell’s
þri: Ég vona að Hildigunnur komi nógu snemma heim. Við erum búin með alla góðu skyndibitana…

2008-05-13

Hvað er svo málið

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:48

með allar þessar hálfvitalegu auglýsingar, sem eru í gangi þessa dagana. Lenti í því að sjá nokkrar auglýsingar meðan ég horfði á formúluna á sunnudaginn. þær voru hver annarri furðulegri. Húsasmiðjuauglýsingaherferðin var samt fáránlegust; fólk með stórt nef og undarlega hárgreiðslu. Hvernig þetta á að hvetja mig til að fara í Húsasmiðjuna er mér hulin ráðgáta. Yfirleitt hefur svona lagað þveröfug áhrif á mig. Held ég sé ekkert að flýta mér í Húsasmiðjuna meðan þessi herferð gengur yfir.

Það er stórhættulegt

Filed under: Hjólreiðar,Ruglið — Jón Lárus @ 19:30

að byrja að hreinsa einhvern hluta af bíl/hjóli. Var að gera við sprungið dekk áðan og asnaðist til að þurrka af gjörðinni. Þegar hún var orðin fín og glansandi þá æpti skíturinn á brettunum, stellinu og framgjörðinni á mig. Þannig að þetta endaði á því að ég þurrkaði af öllu hjólinu. Er ekki mórallinn í sögunni: Maður á að láta kjurrt?

2008-05-11

Tyrkneski

Filed under: Formúla 1 — Jón Lárus @ 23:38

kappaksturinn í morgun var mjög skemmtilegur. Og það þrátt fyrir að mínir menn ynnu ekki og Kovalainen lenti í tómu basli. Þarna var alvöru kappakstur, með fullt af framúrökstrum og ökumenn á misjöfnum keppnisáætlunum sem gerði það að verkum að úrslitin voru ekki ráðin fyrr en alveg í lokin. Loksins sýndi svo Hamilton almennilegan akstur. Hann hefur ekki alveg náð að sýna sitt besta á þessu tímabili nema kannski í fyrsta kappakstrinum í Ástralíu. Kovalainen á svo inni að það fari að ganga vel hjá honum. Tveir kappakstrar í röð, sem hafa farið í súginn án þess að hann hafi átt sök á því.

Himinn og haf frá síðasta kappakstri í Barcelona. Ég bíð svo spenntur eftir Mónakókappakstrinum. Verður fróðlegt að sjá ökumenn takast á við þau öngstræti án gripstýringar. Gætu orðið talsverð afföll í þeim kappakstri.

Burma

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 16:37

er mikið í fréttum þessa dagana. Held samt að það hafi heitið Myanmar í u.þ.b. 20 ár. Mesta furða að það sé ekki kallað Síam.

Núna frh.

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 00:33

Hérna kemur myndin

Blastæðafantur

sem ég lofaði í síðustu færslu. Sést samt ekki eins vel á þessari mynd og úr stofunni hjá okkur hvernig hann tók upp alveg tvö stæði.

2008-05-7

Núna

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:32

rétt í þessu voru að losna tvö bílastæði hérna fyrir utan. Einhver á Ford F350 pallbíl, sem kann greinilega ekki að leggja í stæði (reyndar eru þessir bílar svo mikil ferlíki að þeir þurfa næstum því tvö stæði). Ekki er nú á bætandi eins og stæðamálin eru þessa dagana og ekki vinsælt að fólk taki upp fleiri stæði en nauðsynlegt er með því að leggja illa. Skólavörðustígurinn hálfur uppgrafinn og allir bílarnir, sem lagt er þar venjulega dreifast um nærliggjandi götur.

Síðasta

Filed under: Fjölskyldan,Skóli — Jón Lárus @ 22:13

samræmda prófið hjá Fífu á morgun. Að þessu sinni stærðfræðiprófið. Eftir prófin fara 10. bekkingarnir í ferð í Þórsmörk. Spennandi fyrir þau. Verður líka gott fyrir okkur að endurheimta stofuna og borðstofuna okkar úr gíslingu prófanefndar.

Texas hold ’em

Filed under: Dægradvöl — Jón Lárus @ 21:30

Bjössi bróðir sagðist ætla að kynna okkur fyrir nýjum leik fyrir nokkru. Við vorum alveg til í það. Alveg til í smá tilbreytingu frá Tribbanum og Skraflinu, sem við spilum oftast. Síðan mætti hann með pakka fullan af spilapeningum og kenndi okkur Texas hold ’em póker. Við höfðum aldrei spilað þessa útgáfu af póker áður. Var bara mjög skemmtilegt. Get samt ímyndað mér að þetta sé stórhættulegt. Nógu var það spennandi með spilapeninga, veit ekki hvernig það væri með alvöru peninga.

2008-05-5

Ný Evrópa

Filed under: Þættir — Jón Lárus @ 23:05

með augum Palins (Michael Palin’s new Europe) heita ferða/heimildamyndaþættir, sem nú eru sýndir á RÚV. Alveg stórskemmtilegir þættir þar sem Michael Palin leiðir áhorfendur um lönd og svæði í austurhluta álfunnar. Þátturinn í kvöld var sá þriðji í röðinni og við Fífa erum sem límd við skjáinn. Alveg ótrúlegustu hlutir, sem hann grefur upp í þessum þáttum sínum eins og til dæmis tyrkneska olíuglíman í síðasta þætti.

Var það ekki annars hann, sem gerði þáttaröðina um Krossferðirnar og alla þá vitleysu, sem þeim fylgdu? Í þeim þáttum voru Krossferðirnar og hugmyndafræðin að baki þeim dregin sundur og saman í háði. Tragikómískt.

2008-05-3

Seinna strákaafmæli

Filed under: Afmæli,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 17:28

búið.  Verð nú að viðurkenna að það er nú alltaf ágætis tilfinning þegar því er aflokið. Munaði talsverðu að geta hent þeim út í garð eftir borðhaldið. Þeir héldust reyndar frekar stutt inn í garðinum. Voru frekar fljótt komnir upp á skúrþök hérna í nágrenninu. Ég smalaði þeim tvisvar úr nærliggjandi görðum og ofan af skúr sem er búið í hérna rétt hjá. Við takmarkaða hrifningu að sjálfsögðu. Þetta gekk nú annars ágætlega fyrir sig. Ekkert, sem brotnaði og enginn þurfti að fara á slysó. Eina sem kom upp á var að einn guttinn rispaðist aðeins þegar hann var að klifra niður úr tré.

2008-05-2

Að teika

Filed under: Ýmislegt,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 22:32

Var einhvern tímann um daginn (í kuldakastinu) að tala við stelpurnar um það að teika. Þær urðu eitt spurningamerki í framan; höfðu ekki minnstu hugmynd um hvað það þýddi.
Ég útskýrði fyrir þeim hvað þetta hefði verið. Fattaði um leið að það er ekkert hægt að teika bíla lengur. Enga handfestu að fá á þessum nýju bílum. Fyrir utan svo að það snjóar kannski á 7 eða 8 ára fresti núorðið.

Trivial gullkorn

Filed under: Dægradvöl — Jón Lárus @ 22:10

Við tókum einn Tribba fyrir nokkrum kvöldum. Hildigunnur var búin að segja frá tveimur eða þremur kommentum, sem ulltu upp úr Finni.

Fífa átti líka sína spretti. Hvað haldið þið t.d. að hafi verið spurt um þegar hún svaraði: „Jói risi, sjoppan, beljan og hjólabúðin“?

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.