Strč prst skrz krk

2009-12-31

12 bestu vínin 2009

Filed under: Vín — Jón Lárus @ 16:47

Setti saman lista yfir bestu vínin sem ég smakkaði 2009.

Billecart-Salmon Champagne Cuvée Elisabeth Salmon, 1997, Frakkland. 95
Château Cos d’Estournel, 1996, Frakkland. 94
J.M. Boillot Puligny-Montrachet, 1er Cru Les Referts, 1999, Frakkland. 93
Bodega Catena Zapata Nicolás Catena Zapata, 2003, Argentína. 93
Castillo Perelada Empordà Finca Malaveïna, 2003, Spánn. 93
Bodegas y Viñedos Alión, 2004, Spánn. 93
Darioush Merlot, 2006, BNA. 93
Château Labouré-Roi Meursault 1er Cru Poruzots, 2005, Frakkland. 92
Etienne Sauzet Puligny-Montrachet 1er Cru La Garenne, 1999, Frakkland. 92
Bodegas Valduero Reserva, 2004, Spánn. 92
Ruffino Chianti Classico Riserva Ducale, 1997, Ítalía. 92
Château Guiraud, 2003, Frakkland. 92

Sex Frakkar, þrír Spánverjar, Bandaríkamaður, Ítali og Argentínubúi.

2009-12-29

Kápuskjöldur

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:57

Fékk þennan kápuskjöld, með fangamarki, í jólagjöf frá Hildigunni.

kápuskjöldur

Ætlaður á skipstjórafrakkann, níðþunga, sem ég erfði eftir einn frænda minn.

Tók mig til á jóladagsmorgun og saumaði skjöldinn fastan á tilætluðum stað. Tekur sig bara vel út eða hvað?

Turntableneedlesdotcom

Filed under: Fjölskyldan,Græjur,Hátíð — Jón Lárus @ 21:44

Við gáfum Fífu í jólagjöf lítið box, sem lagar til merki frá plötuspilara þannig að hægt sé að tengja við annan inngang en phono á magnara (enginn slíkur inngangur á magnaranum okkar). Hún var búin að nauða um þetta lengi til að geta spilað vínilplötur, þetta var ekki bara af því að við séum vondir foreldrar.

Á jóladagsmorgun þá fórum við í það verkefni að tengja boxið. Það gekk vel en þegar við settum plötu á fóninn og ætluðum að setja hann af stað þá snerist diskurinn ekki. Við rifum plötuspilarann út úr skápnum og skoðuðum hann. Í ljós kom að reimin sem átti að snúa diskinum var slitin. Nú voru góð ráð dýr. Mjög ólíklegt að finna þennan varahlut hér á landi, plötuspilarinn orðinn 23ja eða 24ra ára gamall og umboðið farið á hausinn.

Við prófuðum þess vegna að gúggla plötuspilara og varahluti. Fundum tiltölulega fljótlega síðuna turntableneedles.com. Þar fundum við svo rétta reim eftir stutta leit. Á innan við hálftíma frá því við fundum út hvað var að þá vorum við búin að ganga frá pöntun á nýrri reim. Hún kostaði ca. 28 dollara, varahlutur ásamt sendingarkostnaði. Ekki kannski alveg ódýrt en tæplega hægt að vonast til að sleppa ódýrar frá þessu.

Netið er snilld

2009-12-23

Varð ekki

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:50

smá ánægður þegar ég kom heim úr vinnunni áðan. Í morgun, þegar ég fór í vinnuna átti eftir að þrífa öll gólfin í húsinu og þar sem það er mín deild þá sá ég fram á sæmilegasta verkefni um kvöldið. Nema hvað, þegar ég kom heim þá var búið að taka nánast öll gólfin. Gat þess vegna farið í að setja upp jólatréð og ýmsar aðrar jólaskreytingar. Mun skemmtilegra verkefni.

2009-12-19

2000

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 23:58

km á hjólinu úr og í vinnu á árinu. Náði þeim áfanga í gær í fyrsta skipti. Mjög ánægður með þetta.
Frá því ég dró fram hjólið aftur árið 2006 þá hefur verið stöðugur stígandi í fjölda ferða á hjóli í vinnuna. Frá 12 vikum fyrsta árið upp í u.þ.b. 37 vikur núna í ár. Það er ljóst að það verður ekki auðvelt að bæta þennan árangur.

2009-12-17

Harpa

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:57

var það látið heita, nýja tónlistarhúsið. Í sjálfu sér ágætis nafn en uppfyllir ekki nema að hluta skilyrðin sem nafn hússins átti að gera. Eitt af því sem nafnið átti að uppfylla var að vera auðframberanlegt á erlendum tungumálum. Þarna vandast málið því Harpa er ekkert auðframberanleg á mörgum tungumálum. Rússar munu til dæmis líklega bera það fram Garpa, Frakkar ‘arpa og sama má segja um bæði Ítali og Spánverja. Líklega var átt við að nafnið væri auðframberanlegt á engilsaxnesku (og hugsanlega líka á norðurlandamálum).

Til að fyrirbyggja misskilning þá er þessi færsla ekki skrifuð í geðvonskukasti af því að mín tillaga var ekki valin. Ég sendi enga tillögu inn. Veit heldur ekki til þess að aðrir fjölskyldumeðlimir hafi gert það heldur. Mér fannst þetta bara svolítið spaugilegt.

2009-12-11

Meira af penslasápu

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 20:50

Fyrir nokkrum dögum átti ég erindi í Húsasmiðjuna. Rak þar augun í penslasápubrúsa eins og ég keypti um daginn og frægt er orðið. Nema hvað, af rælni ákvað ég að athugaði hvað sápan kostaði í Húsó. 1370 kall (held ég frekar en 1270) takk fyrir! Þokkalegt okur. Ég keypti minn brúsa í Brynju á 950 kr. þannig að mér er nokk sama hvort brúsinn kostaði 1270 eða 1370.
Þetta er nú allt sem við vesalings neytendurnir berum úr býtum við hagræðinguna af keðjumyndun á borð við Húsó/Byko. Pínulítil smáverslun á Laugavegi býður upp á miklu betri kjör í mörgum tilvikum.

2009-12-7

Lottó

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:07

Það hljóp heldur betur á snærið hjá mér áðan. Fór út í sjoppu og lét renna miðanum frá síðustu helgi. Kassinn kom með fagnaðarlæti en birti enga tölu. Guttinn sem var að afgreiða vandræðaðist eitthvað smá yfir þessu en svo kom í ljós að ég hafði unnið 25.000 kall. Ekki slæmt! Ég hafði fram að þessu aldrei fengið meira en 3 rétta í lottóinu.

Í messunni

Filed under: Fjölskyldan,Ruglið — Jón Lárus @ 19:46

í gær þar sem steindi glugginn eftir Rúnar var helgaður var Jóna Hrönn Bolladóttir sem messaði. Stelpurnar spurðu hvað presturinn héti og ég sagði þeim það. Það var hváð og ég endurtók hægt og skýrt (en mjög lágt). Eftir messuna sagði Fífa svo að henni hefði heyrst ég segja Jóna Hraunbolladóttir. Skildi ekkert í þessu furðulega nafni.

2009-12-5

Þekktur í Vínbúðunum

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:58

Eftir að nýtt, mjög flott Ríki var sett á laggirnar í Skútuvoginum (sorrí Hildur Petersen þetta heitir bara Ríkið) þá hef ég beint mínum viðskiptum mjög ákveðið þangað. Kemur kannski ekki á óvart því þetta er ekki nema steinsnar frá vinnunni minni. Allar sérpantanir sem ég geri (og þær eru nokkrar) fara núna þarna í gegn.
Fyrir nokkrum dögum, þegar jólabjórinn kom inn í búðirnar þá kíkti ég aðeins inn á heimleið úr vinnunni. Þar sem ég stóð og var að skoða úrvalið þá kom einn starfsmaður búðarinnar að mér og sagði: Jón Lárus, sérpöntunin þín er komin. Ég veit ekki alveg hvort þetta er vont eða slæmt…

2009-12-3

Í fyrradag

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 19:43

fór ég í fótbolta, eins og svo oft áður á þriðjudagskvöldum. Ég hjólaði, sem leið lá, þvert yfir Klambratúnið. Þar hafði einhver átt leið um, líklega um helgina, í gríðarlega örgu skapi. Á leiðinni yfir túnið taldi ég 3 ruslatunnur af nýju gerðinni og 3 bekki á hliðinni eða á hvolfi. Viðkomandi hefur þurft að hafa talsvert fyrir þessu því bæði bekkir og tunnur eru boltuð niður, að því er ég best veit. Af einhverjum ókunnum ástæðum var siðan einn bekkur sem hafði verið látinn í friði. Furðulegt háttalag svo ekki sé meira sagt.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.