Strč prst skrz krk

2008-08-31

Esjuganga

Filed under: Fjallganga,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:58

Ákvað í dag að það væri ekki seinna vænna að efna loforð, sem ég var búinn að gefa stelpunum (fyrir tveimur árum) og ganga á Esjuna. Við vorum búin að taka nokkrar æfingafjallgöngur bæði í fyrra og árið þar áður en einhvern veginn æxlaðist það alltaf þannig að það var farið að snjóa áður en hægt væri að leggja á Esjuna.

Fífa var ekki heima (hafði gist hjá vinkonu) og henni leist ekkert á þessa áætlun. Freyja var hins vegar til þegar ég sagði henni að vinkona hennar gæti komið með. Kipptum síðan Rúnari, afa Freyju með (hann hafði aldrei náð að ganga á Esju þótt hann væri búinn að ganga á fjöll eins og Herðubreið og Öræfajökul). Allavega, lögðum af stað í blíðskaparveðri um klukkan tvö. Ég var svo stoltur af því að muna eftir GPS tækinu að ég gleymdi bæði að taka með myndavél og kíki. Ófyrirgefanlegt. Lögðum síðan af stað á Esju frá Mógilsá um hálfþrjú. Hef gengið á Þverfellshornið einu sinni áður og á Esju þrisvar áður. Búið að gerast heilmikið í stígamálum síðan ég fór þetta síðast (fyrir örugglega meira en 10 árum). Þá arkaði maður beint upp að horninu en nú er aðalleiðin meira í sveigjum eftir fjallshlíðinni. Mjög flott gönguleið.

Ég er alltaf mjög bjartsýnn maður (stundum einum of) þannig að mér datt ekki í hug annað en við yrðum komin í bæinn svona um sexleytið í síðasta lagi (fyrsta áætlun var fimm). Það voru hins vegar ýmsir hlutir, sem töfðu. Fundum fullt af krækiberjum og svo þegar ofar dró aðalbláberjum. Ekki hægt að sleppa því að kíkja á þessi lyng. Við urðum svo að fara alla leið upp á Þverfellshornið, ekki séns að Rúnar tæki gilt að ganga á Esju væri að fara upp að Steini. Komum svo til baka upp úr sjö þegar matarboð átti að vera byrjað hjá okkur. Sem betur fer þá voru matargestir foreldrar mínir og Hildigunnar (Rúnar einn af gestunum) þannig að þetta var ekki eins mikið mál og það hefði getað verið. Nógu slæmt samt.

Um daginn

Filed under: Ýmislegt,Myndir — Jón Lárus @ 01:08

þegar handboltalandsliðið okkar kom til landsins fylltist gatan okkar af fólki.

Gatan okkar full af fólki

Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar séð eins mikið af fólki hér á götunni eins og þegar þeir voru rétt farnir hjá. Verst að þegar ég ætlaði að smella af mynd þá var rafhlaðan í myndavélinni tóm þannig að ég þurfti að finna til nýja. Fólksfjöldinn var farinn að minnka þegar ég loksins náði að smella af mynd.

Graffito II

Filed under: Graffiti — Jón Lárus @ 00:41

Þetta listaverk er nýkomið á húsgafl á Spítalastígnum, hérna rétt hjá. Óxla flott.

Húsaskreyting á Spitalastig

Eftir þá sömu og málaði drekann (eða var það slanga) hérna á húsið rétt hjá okkur.
Vonandi bara að húseigendurnir hafi fengið leyfi fyrir skreytingunni þ.a. veggjakrotsstormsveitirnar máli ekki yfir þetta.

2008-08-23

Menningarnótt

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:51

Ekkert smá flott flugeldasýning að vanda við lok menningarnætur. Veðrið orðið fínt þannig að flugeldarnir sáust. Annað en í dag þegar var rigning og rok þegar við skruppum niður í bæ að fylgjast með atriðinu, sem Freyja tók þátt í (dans og tónlistaratriði við Miðbæjarskólann).

Skert skammtímaminni

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 22:26

Ógeðslega pirrandi. Fékk þrjár fínar (að mér fannst) blogghugmyndir í gær. Var svo að sjálfsögðu búinn að gleyma þeim þegar ég vaknaði í morgun. Ætti að kenna mér að skrifa svona niður, ekki í fyrsta sinn, sem svona gerist.

2008-08-21

Uppátækin

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:50

á Finni í gær. Byrjaði á því að ég kom að honum í eldhúsinu með beittan hníf að reyna að skera tvíbökur í bita. Ég stoppaði það, þrátt fyrir mótmæli: „En pabbi ég held puttunum þannig að þeir eru ekki undir hnífnum!“ Hélt að hann væri hættur og fór að lesa. Nokkru síðar þá var kallað á mig: „Jón! Vaskurinn er stíflaður! “ Ég kíkti á málið. Kom í ljós að Finnur hafði troðið tvíbökubitum ofan í vaskinn, nóg til að hann stíflaðist. Dugði ekki að hamast á þessu með drullusokki. Endaði á að ég þurfti að rífa í sundur vatnslásinn til að losa stífluna. Finnur var frekar lúpulegur eftir þetta og var óvenju viðráðanlegur að fara í bólið.

2008-08-19

Namm

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:09

sveppapastað, sem er fastur liður þegar við förum fyrst í sveppamó (nema núna þetta er annað skiptið, sem við förum) er ekkert smá gott. Þetta er einn af þessum árstíðabundnu réttum, sem við gerum. Rétt eins og rifskjúklingurinn, lifur stroganoff, grænkálsrísotto (vorum með það í fyrradag) og sólberjabaka frá Elsass.

Ég er svo að hugsa um að prófa nýja uppskrift með sólberjunum að þessu sinni, fundin í dönsku kerlingarblaði (alveg róleg ég geri Elsassbökuna líka).

Ef einhver hefur áhuga þá er uppskriftin á þessa leið:

Sólberjasúkkulaðikaka

Dótið:
150 g dökkt súkkulaði
150 g smjör (mjúkt)
200 g sykur
2 egg
4 dl hveiti
2 tsk. lyftiduft!
1/2 l rjómi
250 g sólber
4 eggjahvítur
170 g sykur í viðbót
7 matarlímsblöð

Aðferðin:
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði eða í örranum (ég nota alltaf örrann núorðið). Þeytið saman smjör og sykur þangað til ljóst, bætið eggjunum saman við og þeytið áfram. Blandið saman hveiti og lyftidufti og hrærið saman við ásamt bráðnu súkkulaði. Skellið deiginu í 22 cm spennukökuform (ekkert annað dugir) og bakið við 200° í 20 mínútur. Leyfið henni svo að kólna í rólegheitunum undir röku stykki. Á meðan má þeyta rjómann og mauka sólberin og blanda síðan saman. Nú er komið að því að leggja matarlímsblöðin í bleyti og síðan bræða þau (nota venjulega vatnsbaðið hér). Þegar bráðin eru þau þeytt saman við sólberjarjómann. Þessu næst eru eggjahvíturnar stífþeyttar ásamt afgangssykrinum og hrært varlega saman við sólberjarjómann. Kakan er skorin í tvennt, rjóminn settur á milli. Kælt í a.m.k. tvo tíma. Þeir sem eru með skreytidellu geta svo brætt hvítt súkkulaði og gert eitthvað fallegt (eða ljótt) mynstur ofan á kökuna. Það gerir hins vegar örugglega ekkert fyrir bragðið.

2008-08-17

Síðasti

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 22:22

leikur handboltastrákanna í riðlakeppninni á eftir kl. 1 í nótt. Verður pottþétt horft á hann, jafnvel þótt það sé vinna í fyrramálið. Sérstaklega eftir þennan háspennuleik á móti Dönum í gær. Man síðast eftir svona spennandi leik á móti Rúmenum í einhverri heimsmeistarakeppni fyrir mörgum árum (við mörðum þá sigur eftir æsispennandi lokamínútur). Allavega, ekkert smá sætt að ná að jafna þarna í lokin.

Og vælið í þessum þjálfara þeirra. Búnir að fá hagstæða dómgæslu allan leikinn, fyrir utan að þetta var alveg klárt vítakast. Gaurinn stóð inni í teig.

Síðan er bara að vona að þeir haldi einbeitingu og nái að legga Egyptana. Sigur þýðir lágmark annað sæti og jafnvel sigur í riðlinum ef Rússar ná að leggja Kóreumenn.

Fríið

Filed under: Frí — Jón Lárus @ 11:19

að verða búið. Á morgun er það bara vinnan. Grár og kaldur raunveruleikinn tekur við.

2008-08-13

Rákum augun í

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:59

mann með myndavél í fyrradag, sem var að taka myndir húsi ská móti hjá okkur í gríð og erg. Við vorum að flýta okkur (á leið í kistulagningu) þannig að við spáðum nú ekki mikið í þetta. Okkur fannst samt sem áður undarlegt að einhver væri að taka myndir af því húsi; ekkert ósnoturt steinhús en mjög venjulegt.

Komum svo til baka svona þremur korterum eða klukkutíma síðar. Þá var sami maður enn á sömu slóðum myndandi eins og lífið lægi við. Nú var forvitni okkar vakin fyrir alvöru, þannig að við gáfum okkur á tal við hann. Þá kom í ljós að hann var á vegum byggingafulltrúa að taka út húseignir við Njálsgötu með það fyrir augum að ýta við fólki að sinna viðhaldi ef því er verulega ábótavant eins og var gert á Laugaveginum og Grettisgötu í vor við mismikla hrifningu húseigenda.

Ég væri til í að sjá athugasemdablaðið hjá úttektarmanninum yfir hjallinn, sem er á bak við hjá okkur. Hús, sem hefur nánast ekkert viðhald hlotið síðan við fluttum hingað fyrir 13 árum og er að grotna niður.

Að sama skapi yrði ég mjög svekktur ef við fengjum einhverjar athugasemdir fyrir okkar hús.

Litagleði í Lóni

Filed under: Fjölskyldan,Myndir — Jón Lárus @ 23:02

Í göngutúr, sem var farinn í Hvannagil í Lóni gat að líta landslag í öllum regnbogans litum. Hildigunnur var nú búin að birta eitthvað af myndum úr göngutúrnum hér. Ég stenst samt ekki mátið að bæta nokkrum við. Þetta landslag þarna er engu líkt.

Lækur endar
Lækur endar

Rauðleitar skriður
Rauðar skriður

Gráar skriður
Gráar skriður

Svartur klettur
Svartur klettur

Lækurinn rétt áður en hann hverfur í skriðuna
Lækurinn

Innarlega í gilinu
Innarlega i gilinu

Rákumst á þetta fyrirbæri

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:40

á Höfn í Hornafirði.

Jesúrútan

Allt gert til að reyna að bjarga einhverjum glötuðum sálum. Þarna var spilað Jesúpopp eins og það gerist verst! Muzakkið maður minn. Því miður (eða kannski sem betur fer) þá var myndbandið, sem við tókum ekki nothæft fyrir vindgnauði.

2008-08-11

Krummafótur

Filed under: Fjölskyldan,Ruglið — Jón Lárus @ 23:15

Í látunum við að pakka niður fyrir Lónsferðalagið þá lentu í skottinu á bílnum 2 hægri fótar stígvél fyrir Fífu. Það var allspaugilegt að sjá hana þegar hún var að búa sig undir veiðiferð með frænkum sínum. Mjög undarlegur krummafótur.

3 afmæli og jarðarför

Filed under: Afmæli,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 21:24

Þeystumst landið nánast enda á milli um helgina til að vera við þrefalt afmæli. Fertugsafmæli Helgu svilkonu, sjötugsafmæli mömmu hennar og tíu ára afmæli Brynhildar, dóttur Helgu og Þorbjarnar. Hildigunnur lýsir ferðalaginu í þaula hér í skemmtilegri færslu.

Þurftum síðan að vera komin heim í gær því í dag var Bjössi frændi, sem lést fyrir nokkrum dögum, jarðsettur. Falleg athöfn í góðu veðri. Hljómeyki söng, fólk almennt mjög ánægt með þeirra framlag. Hallveig með sóló. Skilaði því glæsilega eins og við var að búast.

Þessi þeytingur allur hefur hins vegar gert það að verkum að ég er alveg búinn að vera núna. Verður farið snemma í bólið.

2008-08-7

Setningar V

Filed under: Setningar — Jón Lárus @ 23:58

Vorum að tala um eina gamla og góða setningu í gær.

Hljómar svona: Það á að vera bil á milli Síld og og og og og fiskur. Reyndar er hægt að gera hana nútímalegri með því t.d. að segja það á að vera bil á milli Séð og og og og og heyrt.

Fífa var smástund að átta sig á því hvernig þetta gengi upp allt saman. Hún hafði víst séð hana einhvern tímann og ekki botnað neitt í neinu.

2008-08-5

Frekja og heimska

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 22:41

er slæm blanda. Lentum í einum gaur, sem virtist vera með vænan skammt af hvoru tveggja í útréttingarleiðangri áðan. Hann hafði gleymt að beygja inn á beygjuakrein (til að taka vinstri beygju á Höfðabakka inn á Bíldshöfða). Þetta var nú samt ekki mikið vandamál fyrir hann. Hann setti bara hornið á jeppanum sínum inn á beygjuakreinina fyrir framan okkur og beið á áfram akreininni eftir að beygjuljósið kæmi. Ökumenn, sem voru að fara áfram og komust ekki neitt fyrir þessum fávita máttu hins vegar bíða.

Hann hefði hins vegar verið fljótari ef hann hefði tekið hægri beygju inn á planið hjá gamla tækniskólanum og snúið síðan við og farið áfram Bíldshöfðann.

2008-08-3

Loksins

Filed under: Formúla 1 — Jón Lárus @ 23:53

var McLaren heppið (eða tiltölulega heppið). Ég veit ekki hversu oft síðan 1997 þegar ég byrjaði að fylgjast með Formúlunni að vélin hefur bilað í McLaren bíl, sem var með forystu og Ferrari hefur endað á því að vinna. Í dag snerust hlutirnir við. Kominn tími til.

Fyrir utan það að Kovalainen átti alveg skilið að vinna sinn fyrsta sigur. Ekki búinn að vera smá óheppinn í mótinu fram að þessu.

2008-08-2

Bólstrarar

Filed under: Stúss — Jón Lárus @ 22:58

það var það, sem við Hildigunnur þóttumst vera í kvöld. Áklæðið á 4 af eldhússtólunum okkar var farið að brosa allillilega, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér:

Brosandi eldhússtóll

Ekki nóg með það heldur var einn þeirra brotinn. Við settum hann í viðgerð og vorum nýbúin að fá hann til baka. Við útveguðum okkur klæðisbút og heftibyssu og hófumst svo handa.

Allt annað að sjá þá núna:

Nýmeðhöndlaður stóll

Mun alvarlegri stóll.

Tekjublaðið

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 11:02

Var ánægður með Jón G. Hauksson, ritstjóra tekjublaðs Frjálsrar verslunar að þessu sinni. Þannig er að ég hef verið í tekjublaðinu, sem dæmi um laun verkfræðinga í örugglega 8-10 ár. Mér til lítillar ánægju. Var samt aldrei búinn að koma því í verk að reyna að losna undan þessu fyrr en nú í ár. Hafði samband við fyrrnefndan Jón G. og sagði að ég væri búinn að leggja mitt af mörkum og hvort það væri nú ekki kominn tími á að leyfa einhverjum öðrum að spreyta sig. Hann vildi nú ekki lofa neinu en sagðist ætla að skoða málið. Tekjublaðið kom svo út í gær og ég var dottinn út. Mjög sáttur við það.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.