Strč prst skrz krk

2011-04-23

Seinna eggið

Filed under: Ýmislegt,Hátíð — Jón Lárus @ 23:03

sem við gerum í ár var svo gert í kvöld. Að þessu sinni gerðum við tvennt sem við höfum ekki prófað áður. Fyrra atriðið var að við tempruðum súkkulaðið. Eftir að hafa brætt súkkulaðið í vatnsbaði þá tókum við 2/3 af súkkulaðinu og kældum úr ca. 50°C niður í 28°C. Blönduðum því svo aftur saman við afgangs þriðjunginn sem var þá við u.þ.b. 37°C. Eftir blöndunina var súkkulaðið um 32°C sem er kjörhiti. Hin nýjungin var að við smurðum einni til einni og hálfri matskeið af súkkulaði í formin og hentum svo í frysti í 5 mínútur. Endurtókum svo þangað til súkkulaðið var búið. Með þessu móti gekk mun hraðar fyrir sig en venjulega að mynda skelina og þykktin á henni varð líka mun jafnari. Nú er bara spurning hvrot að súkkulaðið haldi glansinum eða hvort það mislitist eins og þau hafa gert þegar súkkulaðið er ekki temprað. Ef þetta gengur vel þá verður þessi aðferð notuð í framtíðinni.

2011-04-17

Við Freyja

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 21:38

vorum að leggja lokahönd á fyrra páskaeggið sem verður handgert hér á bæ í ár. Við Freyja búum okkur til egg en hin kaupa sér. Að þessu sinni er um algjör lúxusegg að ræða. Súkkulaðið er 70% frá Amedei, ítölskum framleiðenda. Innvolsið handtínt í Krambúðinni. Framleiðsluferillinn var myndaður rækilega af Freyju. Afraksturinn sést hér að neðan:

2011-01-3

Hedónískur dekadens

Filed under: Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 21:52

Það örlaði á þannig stíl á matseðlinum í hinu árlega áramótaboði okkar. Franskt þema að þessu sinni:

Fordrykkur: Montes chardonnay (af hverju var þetta ekki franskt?)
Forréttur: Foie gras með sauternes.
Milliréttur: Confit de canard með salati og vinaigrette.
Aðalréttur: Veau façon stroganoff à la truffe.
Eftirréttur: Charlotte au chocolat.

Náðum svo ekki að koma með kaffi og konfekt í lokin því það skall á með áramótaskaupi. Kampavínið eftir miðnætti var svo frá Louis Roederer.

2010-12-31

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:59

Gleðilegt nýtt ár

og takk fyrir þau gömlu.

2009-12-29

Kápuskjöldur

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:57

Fékk þennan kápuskjöld, með fangamarki, í jólagjöf frá Hildigunni.

kápuskjöldur

Ætlaður á skipstjórafrakkann, níðþunga, sem ég erfði eftir einn frænda minn.

Tók mig til á jóladagsmorgun og saumaði skjöldinn fastan á tilætluðum stað. Tekur sig bara vel út eða hvað?

Turntableneedlesdotcom

Filed under: Fjölskyldan,Græjur,Hátíð — Jón Lárus @ 21:44

Við gáfum Fífu í jólagjöf lítið box, sem lagar til merki frá plötuspilara þannig að hægt sé að tengja við annan inngang en phono á magnara (enginn slíkur inngangur á magnaranum okkar). Hún var búin að nauða um þetta lengi til að geta spilað vínilplötur, þetta var ekki bara af því að við séum vondir foreldrar.

Á jóladagsmorgun þá fórum við í það verkefni að tengja boxið. Það gekk vel en þegar við settum plötu á fóninn og ætluðum að setja hann af stað þá snerist diskurinn ekki. Við rifum plötuspilarann út úr skápnum og skoðuðum hann. Í ljós kom að reimin sem átti að snúa diskinum var slitin. Nú voru góð ráð dýr. Mjög ólíklegt að finna þennan varahlut hér á landi, plötuspilarinn orðinn 23ja eða 24ra ára gamall og umboðið farið á hausinn.

Við prófuðum þess vegna að gúggla plötuspilara og varahluti. Fundum tiltölulega fljótlega síðuna turntableneedles.com. Þar fundum við svo rétta reim eftir stutta leit. Á innan við hálftíma frá því við fundum út hvað var að þá vorum við búin að ganga frá pöntun á nýrri reim. Hún kostaði ca. 28 dollara, varahlutur ásamt sendingarkostnaði. Ekki kannski alveg ódýrt en tæplega hægt að vonast til að sleppa ódýrar frá þessu.

Netið er snilld

2009-12-23

Varð ekki

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:50

smá ánægður þegar ég kom heim úr vinnunni áðan. Í morgun, þegar ég fór í vinnuna átti eftir að þrífa öll gólfin í húsinu og þar sem það er mín deild þá sá ég fram á sæmilegasta verkefni um kvöldið. Nema hvað, þegar ég kom heim þá var búið að taka nánast öll gólfin. Gat þess vegna farið í að setja upp jólatréð og ýmsar aðrar jólaskreytingar. Mun skemmtilegra verkefni.

2009-06-17

Gleðilega þjóðhátíð

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 14:52

Kæru lesendur, nær og fjær!

2009-04-11

Páskaeggin

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 19:54

í ár hjá okkur Fífu líta svona út:

Bæði eggin saman.
Bæði eggin.

og svo mitt egg.
Og svo mitt egg.

Gerðum eggin í gær og settum þau svo saman í dag. Lentum í smá basli, því við fundum ekki mótið fyrir fótinn. Eftir mikla, árangurslausa leit, ákváðum við að láta þau bara liggja. Mótið á örugglega eftir að dúkka upp síðar.

2009-01-2

Nokkrar myndir

Filed under: Hátíð,Myndir — Jón Lárus @ 21:45

frá Hallgrímstorgi um áramótin.

Flugeldar I

Flugeldar II

Flugeldar III

Þetta var bara nokkuð flott þarna uppfrá. Held nú samt að skothríðin hafi byrjað heldur seinna heldur en oftast áður. Dró líka fyrr úr henni. En um miðnættið þá voru ekkert færri rakettur á lofti heldur en verið hefur undanfarin ár.

2008-12-23

Tek hérna smá forskot á sæluna

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:59

Gleðileg jól

Kæru lesendur.

2008-06-17

Gleðilega þjóðhátíð

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 00:13

Kæru lesendur. Lítur meira að segja út fyrir að verði fínt veður á þjóðhátíðardeginum (þ.e.a.s. ef spár rætast).

2008-03-23

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 09:31

Gleðilega páska

kæru lesendur.

2008-03-21

Páskaeggjagerð

Filed under: Dægradvöl,Fjölskyldan,Hátíð — Jón Lárus @ 12:41

Við Fífa ákváðum að gera tvö páskaegg fyrir þessa páska, ekki eitt eins og í fyrra. Við vorum algerlega búin að gleyma hvernig við fórum að þessu. Tók nokkrar tilraunir að ná tökum á þessu aftur. Við komumst meðal annars að því að það þýðir ekki að búa til egg bara úr rjómasúkkulaði (Fífa vildi endilega hafa sitt egg úr slíku súkkulaði), því það er ómögulegt að ná því úr forminu. Þetta vesen kostaði eitt egg, sem við neyddumst til að borða.

Það sem við gerðum til að leysa það mál var að gera fyrst þunna skel úr suðusúkkulaði og hjúpsúkkulaðiblöndu. Síðan gerðum við innri og þykkari skel úr rjómasúkkulaði. Þetta kom vel út og enginn vandi að ná egginu úr forminu með þessari aðferð. Í fyrra áttum við ekki fót og létum eggið liggja. Núna bættum við úr því og fengum okkur form til að gera fót. Fífa vildi endilega hafa gamaldags, massífan fót. Gerðum hann eins og eggið, með þunnri suðusúkkulaðiskel og svo fyllt upp með rjómasúkkulaði.

Ég notaði hins vegar 70% súkkulaði í mitt egg, eins og í fyrra. Aðalmunurinn er að við höfðum 2 lög. Seinna lagið sett aðallega hjá samskeytunum til að fá þykkar brúnir. Í fyrra var það helsta vandamálið, sem við áttum við að stríða. Þá létum við heldur ekki súkkulaðið kólna í ísskápnum eftir að hafa brætt það heldur kældum við það í forminu og veltum fram og aftur (mjög tímafrekt og leiðinlegt). Núna skelltum við súkkulaðinu bara inn í ísskáp í 10-12 mínútur eftir að hafa brætt það. Síðan smurðum við súkkulaðinu í formið og settum það svo á hvolf ofan á bökunarpappír. Þegar eggið var búið að taka sig aðeins hentum við því síðan aðeins inn í frysti. Ég var reyndar pínu óþolinmóður, beið ekki nógu lengi og skemmdi brúnirnar aðeins.

Síðan nokkrar myndir af eggjagerðinni, Fífu egg fyrst:

Helmingarnir

Fóturinn

Allir hlutarnir og fylling

Eggið samsett og skreytt

Síðan mitt egg:

Mitt egg

Útlitið talsvert flottara en í fyrra en samt urðu smá mistök í samsetningunni…

2008-01-7

Jólunum pakkað

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 20:10

Tókum á okkur rögg í gær (eftir þrettándaboðið hjá mömmu) og tókum niður jólaskrautið og hentum trénu út. Skildum samt eftir nokkrar seríur. Ætlum að leyfa þeim að loga örlítið lengur.

Maður þorir ekki lengur að bíða neitt með þetta. Annars á maður á hættu að missa af trjáhreinsuninni og þá veltast trén hér um gangstéttar og götur langt fram eftir vetri.

Alltaf svolítið tómlegt þegar er búið að taka niður tréð og skrautið.

2008-01-2

Áramótatréð.

Filed under: Hátíð,Myndir — Jón Lárus @ 18:31

Best að skella hérna inn mynd af áramótatrénu okkar, sem stelpurnar bjuggu til með pappírsbombuskothríð á gamlárskvöld.

Áramótatréð

2007-12-31

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 20:30

Gleðilegt nýtt ár

og takk fyrir þau gömlu.

Matseðillinn í áramótaboðinu

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 15:43

Hildigunnur var búin að tengja á mig með þeim ummælum að matseðillinn í áramótaboðinu yrði birtur hér. Líklega er þetta í ellefta skipti sem við höldum svona fjölskylduboð á gamlárskvöld. Eina hefðin sem hefur orðið til í sambandi við matseðilinn er að hann er alltaf mismunandi (allavega fram að þessu). Boðið fer líka stækkandi ár frá ári og að þessu sinni verða líklega 21 að okkur meðtöldum. En semsagt svona lítur hann út að þessu sinni:

Forréttur:
Andabringur með kirsuberjasósu. Peter Lehman cuvée freyðivín er með forréttinum.

Aðalréttur:
Lambahryggur Provençale með rjómasoðnum kartöflum. Með þessu ýmis Chianti classico vín og endað á Dievole vendemmia 2004.

Eftirréttur:
Flamberuð jarðarber í appelsínusósu og heimagerður ís með.

2007-12-23

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 23:54

Gleðileg jól

Kæru lesendur.

2007-12-17

Jólakortin

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð — Jón Lárus @ 22:26

Mér finnst næstum því að jólaundirbúningurinn sé búinn þegar jólakortin eru frá. Tókum skorpu í gær og rúlluðum kortunum upp. Jólapakkarnir líka langt komnir (þó ég ætti reyndar lítinn þátt í því). Hildigunnur og stelpurnar sáu um þann hluta á meðan ég var að chilla í vinnunni. Nú er bara eftir smá tiltekt og svo að skreyta. Hefur oft verið miklu meira stress en þetta.

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.