Strč prst skrz krk

2010-09-7

Fyrsti

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:59

fótboltatíminn á haustmisserinu var í kvöld. Algjör snilld að vera aftur farinn að sparka í tuðru. Smá ryðgaður til að byrja með en þegar maður var búinn að átta sig á hvað sneri fram og hvað aftur á boltanum þá smátt og smátt skánaði spilið. Eins og vera ber í fyrsta tíma þá sáust nokkrar skrautlegar brennslur en inn á milli sáust líka einstaka tilþrif. Þá var sprettþolið ekki upp á marga fiska. Má búast við harðsperrum á morgun.

2010-07-7

Það er ljóst

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:31

eftir leik dagsins á hinstramótinu að nýtt land kemst á lista yfir heimsmeistara því hvorki Hollendingar né Spánverjar hafa unnið þann titil áður. Þessu misstu nú snillingarnir í heimsmeistarastofunni af áðan. Voru of uppteknir við að grenja yfir „vítinu“ sem Þjóðverjar fengu ekki. Spurning hvort Hagkaup ætti ekki að hafa samband við hollenska liðið og athuga hvort það sé laust pláss á búningnum þeirra?

2010-02-3

Raunir liðstjórans

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 23:30

Mikil afföll hjá okkur í boltanum þessa dagana. Bjössi bróðir datt út í fyrra með ónýta ökla. Svo núna eftir áramótin þá fór einn í laseraugnaðgerð. Verður frá í mánuð. Annar til kemst ekki í boltann í sex vikur vegna þess að hann rekst á við eitthvað verkefni sem konan hans er í. Í síðustu viku lenti svo enn einn í fjórhjólaslysi og handleggs og rifbraut sig. Má mikið vera ef hann verður leikfær fyrir páska.

Það er svo ekki eins og menn séu að detta út vegna þess að boltinn sé svo grófur eða tæklingarnar harðar. Öðru nær. Í þau fáu skipti sem einhver hefur meitt sig þá hefur viðkomandi langoftast séð um þetta algerlega hjálparlaust.

2009-09-29

Jei!

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:49

Fyrsti sigurinn hjá mínu liði í innanhússboltanum á tímabilinu. Mjög sætt því ég hafði verið í tapliðinu í fyrstu fjórum tímunum. Þess þá heldur þar sem tveir síðustu leikir höfðu tapast mjög naumlega.

2009-02-17

Ekki smá

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 23:40

búinn eftir boltann í kvöld. Komst heim á síðustu adrenalíndropunum bara af því það var meðvindur.

2009-01-13

Fyrsti,

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:10

nei annar inniboltinn (ég gat ekki mætt í fyrsta tímann) eftir áramót var í kvöld. Fínn bolti. En ég er algerlega búinn. Kemur í ljós hvort ég get gengið í fyrramálið. Ekkert víst, sko.

2008-12-14

Tilraunabrauð

Filed under: Boltinn,Matur — Jón Lárus @ 16:04

Gerðum núna um helgina tilraunabrauð. Rákumst á mjög spennandi uppskrift að brauði fyrir nokkru, sem við ákváðum að prófa. Brauðið þarf ekki að hnoða en í staðinn er það látið gerjast í allt að sólarhring. Síðan brotið saman einu sinni til tvisvar, látið hefast í 2 tíma og svo bakað í leir eða járnpotti.

Þetta tókst hreint ágætlega. Brauðið er létt í sér og með stökka skorpu (nokkuð, sem mér finnst yfirleitt vanta í heimabökuð hveitibrauð). Gæti samt hafa hjálpað að við notuðum Pillsbury’s hveiti. Hins vegar klárt að við notum þessa aðferð aftur.

2008-09-2

Fyrsti

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:57

innanhússboltatími haustsins var í kvöld. Ég er gjörsamlega búinn eftir hann. Ekki það að ég á að vera í fínu formi, búinn að hjóla í allt sumar. Þetta er bara svo allt önnur hreyfing. Sprettir, sem slátra manni alveg. Þarf að taka nokkrar sprettæfingar, það er á hreinu.

Ánægjulegt að mitt lið náði að landa sigri, 34-30. Samt óþarflega naumur sigur því við náðum að komast 10 mörkum yfir, 30-20. Slökuðum einum of mikið á í lokin og andstæðingarnir gengu á lagið.

2008-06-13

Hollendingar

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:34

eru greinilega með þrusulið í EM að þessu sinni. Það eru engir aukvisar, sem slátra fyrst Ítölum 3:0 og svo Frökkum 4:1. Það verður ekkert lið meistari eftir riðlakeppnina en Hollendingar líta samt geysilega vel út. Langbestir af þeim sem ég hef séð fram að þessu. Sá reyndar ekki Spánverjaleikinn þar sem þeir tóku Rússa í karphúsið en hver tekur þá svo sem alvarlega. Taugarnar eiga eftir að sjá um þá í 8-liða eða mesta lagi 4-liða úrslitum.

2008-05-2

Dæmi

Filed under: Boltinn,Ruglið — Jón Lárus @ 00:57

um hroðvirknisleg vinnubrögð á mbl.is (eitt af mörgum og aðrir vefmiðlar eru síður en svo undanskildir). Þetta var bara svo æpandi að ég gat ekki setið á mér; tilvitnun hefst:

„Skoska liðið Rangers og rússneska liðið Zenit St Petersburg leika til úrslita í UEFA-bikarnum. St Petersburg gerði sér lítið fyrir og skellti þýska stórliðinu, 4:0, í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum í kvöld og vann samanlagt, 5:1“.

Þarna kemur hvergi fram hvaða þýska stórlið það var, sem Zenit skellti (tek fram að þetta er úrklippa úr fréttinni en ég las hana alla og það vantar bara alveg upplýsingarnar um mótherja Zenit). Ég fann svo eftir öðrum leiðum að Zenit hafði skellt Bayern München.

Þar sem ég þoli alls ekki BM, þá er klárt að ég held með Zenit í úrslitaleiknum.

2008-03-11

Síbería

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:37

í boltanum áðan. Voru bara mættir sjö þannig að við urðum að spila þrír í liði með einn skiptimann. Miklu meiri hlaup, miklu erfiðara. Algjörlega búinn.

Frasinn: „Ég hef aldrei verið svona þreyttur áður“ hljómar trúlegar núna en oftast áður. Mitt lið vann samt eftir mikinn barning þannig að þetta var þess virði.

2008-02-5

Hreyfingarleysi

Filed under: Íþróttir,Boltinn — Jón Lárus @ 21:42

Mig er farið að lengja eftir því að geta hreyft mig almennilega. Var í fótbolta áðan og pústið var nú bara svona og svona. Hef ekki getað hreyft mig almennilega í næstum því mánuð. Hvorki hlaupið né hjólað.

Ég nenni ekki að fara út að hlaupa í svona snjó og hálku, finnst ég ekkert fá út úr því og hjóla ekki heldur. Hef ekki farið út í að kaupa mér snjódekk með nöglum á hjólið. Þannig að eina hreyfingin núna er boltinn einu sinni í viku.

Og þegar boltinn er leiðinlegur (les: mitt lið tapar) þá er nú lítið varið í það…

2007-12-19

Síðasti boltinn

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:48

á tímabilinu var í gær. Fyrir tímann í gær hafði ég verið í tapliði 5 eða 6 skipti í röð. Það hefði verið algerlega óásættanlegt að fara í jólafrí með áframhaldandi taphrinu. Mínu liði tókst að merja sigur eftir að hafa lent 4 mörkum undir á tímabili. Mér var nú ekki farið að lítast á blikuna þá en við áttum meira bensín á tönkunum í lokin. Náðum að jafna og komast 4 mörkum yfir. Þó hinir reyndu að sprikla og næðu að minnka muninn í eitt mark þá áttum við síðasta orðið og lokatölur 25:23. Síðasta markið var skorað með því að nota einn andstæðinganna sem batta, ógeðslega sætt.

Eftir boltann var síðan ákveðið að koma saman á Ölstofunni í kvöld og fá sér eina kollu eða tvær. Heimturnar voru nú ekki glæsilegar. Af 11 manna hópi mættu alveg 3. Skamm strákar! Við sem mættum skiptum öllum titlum á milli okkar (nema mesti tuddinn og sjaldséðasti leikmaðurinn). Verður vonandi betri mæting á árshátíðina í vor.

2007-11-21

Montblogg

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 23:16

Skoraði í boltanum í gær flottasta mark sem ég hef skorað í fleiri ár held ég bara. Náttúrlega algjör grís en markið ekkert minna flott fyrir það. Fékk þvílíka draumasendingu frá okkar marki náði að stinga mér inn fyrir varnarmann og reka stórutá í boltann á lofti. Steinlá inni.

Skoraði svo seinna í sama leik alveg fáránlegt mark með því að reka bæði hnén í boltann. Þetta dugði nú samt ekki til að mitt lið næði að vinna leikinn. Get samt huggað mig við markið.

2007-10-2

Smá misskilningur

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:14

Vikulegi boltinn áðan. Í stuttu máli sagt. Liðið mitt var flengt. Vörnin hjá okkur eins og gatasigti. Samt höfðum við rætt um að spila T vörn.

Eftir leikinn þá vorum við að ræða um hvað vörnin hefði verið slök. Þá kom hjá einum: Ætluðum við ekki að spila t vörn? Ekki að undra að þetta hafi farið eins og það fór.

2007-09-29

Loksins, loksins

Filed under: Boltinn,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 21:23

Fór á leik Vals og HK í úrvalsdeildinni í dag. Ekki annað hægt. Hef verið Valsari frá blautu barnsbeini og nú í fyrsta skipti í óratíma, sem þeir hafa átt raunverulega möguleika á að verða Íslandsmeistarar.

Dró alla krakkana með og við hjóluðum meira að segja fram og til baka. Um leikinn er nú svo sem ekki mikið að segja. En mínir menn gerðu nógu mikið til að merja sigur og hirða titilinn. Í fyrsta skipti í 20 ár! Núna sleppur maður að minnsta kosti við að heyra brandara um að bikarinn hafi verið með rúnaletri síðast þegar titillinn vannst eða þá að boltinn hafi verið reimaður saman.

Hálf var nú hráslagalegt að sitja þarna í gjólu og stundum rigningu þannig að þegar heim var komið skelltum við okkur öll (Hildigunnur líka) á Mokka og fengum okkur heitt súkkulaði með rjóma. Svíkur aldrei.

2007-09-17

Íslandsmeistarar

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 23:47

Valsstelpur Íslandsmeistarar í krasspyrnu kvenna. Til hamingju með það.

Á sama tíma misnotuðu strákarnir tækifæri til að komast upp að hlið FH. Þeir verða þá bara að vinna þá í næsta leik.

2007-09-5

Byrjuðum

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:46

fótboltatímabilið í gær. Alltaf jafngaman að byrja. Maður er samt svolítið ryðgaður svona í byrjun. Misreiknar boltann, ekki nógu snöggur að átta sig, negatíf snerpa og harðsperrurnar maður! Leikurinn endaði samt vel að þessu sinni, sem er alltaf gott fyrir tapsáran mann.

2007-05-23

Milan

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 23:12

Evrópumeistarar. Áttu það alveg inni eftir að hafa klúðrað titlinum fyrir tveimur árum, einmitt á móti Liverpool.

2007-05-5

Árshátíð

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 19:26

okkar fótboltafélaga var haldin í gærkvöldi hérna hjá okkur. Fyrsta skipti sem við höfum haldið formlega árshátíð. Venjulega höfum við bara skotist á Vitabar eða einhverja aðra krá eftir síðasta bolta. Ákváðum að gera aðeins meira úr þessu núna. Þetta heppnaðist bara mjög vel. Gæti orðið fastur liður eftir næstu tímabil.

Grey þeir sem mættu ekki. Þeir unnu öll verðlaunin „Mesta klúðrið“, „Slakasti leikmaðurinn“, „Misheppnaðasta skotið“ o.s.frv.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.