Strč prst skrz krk

2008-08-17

Fríið

Filed under: Frí — Jón Lárus @ 11:19

að verða búið. Á morgun er það bara vinnan. Grár og kaldur raunveruleikinn tekur við.

2008-08-11

3 afmæli og jarðarför

Filed under: Afmæli,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 21:24

Þeystumst landið nánast enda á milli um helgina til að vera við þrefalt afmæli. Fertugsafmæli Helgu svilkonu, sjötugsafmæli mömmu hennar og tíu ára afmæli Brynhildar, dóttur Helgu og Þorbjarnar. Hildigunnur lýsir ferðalaginu í þaula hér í skemmtilegri færslu.

Þurftum síðan að vera komin heim í gær því í dag var Bjössi frændi, sem lést fyrir nokkrum dögum, jarðsettur. Falleg athöfn í góðu veðri. Hljómeyki söng, fólk almennt mjög ánægt með þeirra framlag. Hallveig með sóló. Skilaði því glæsilega eins og við var að búast.

Þessi þeytingur allur hefur hins vegar gert það að verkum að ég er alveg búinn að vera núna. Verður farið snemma í bólið.

2008-07-29

Það fór þó aldrei svo

Filed under: Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 19:58

að það kæmi ekki sumar. Annar dagurinn á stuttum tíma þar sem hitinn fer upp í a.m.k. 22° hér í bænum. Ekki sem verstur tími til að vera að byrja í fríi. Ég var nefnilega að byrja í þriggja vikna sumarfríi í gær. Ætlum ekki að fara neitt, sem heitið getur. Bara að taka því rólega, fara í hjólatúra, sund, grilla, dytta að húsinu, spila og almennt hafa það gott.

2008-03-31

Letidagur

Filed under: Frí,Lestur — Jón Lárus @ 23:04

Dagurinn í gær var alger letidagur hjá mér. Gerði ekki neitt, sem mig langaði ekki til að gera. Lá bara uppi í sófa megnið af deginum og las og las (þetta var það sem ég ætlaði að gera á páskadag og klúðraðist hjá mér). Las m.a. Krabbann með gylltu klærnar (á frönsku), meirihlutann af Náttúrufræðingi, sem hafði lent ofan í blaðagrind, ólesinn og fór langt með að klára Dauðans óvissa tíma eftir Þráinn Bertelsson. Síðan horfðum við á Mannaveiðar og danska bíómynd, Adams æbler eða eitthvað í þá áttina. Nauðsynlegt að gera svona af og til. Bara allt of langt síðan ég hef tekið svona letidag.

2007-12-19

-2 dagar

Filed under: Frí,Vinnan — Jón Lárus @ 23:57

í jólafrí. Þetta eru þvílík launamannajól núna þannig að ég ákvað að geyma smá af orlofinu mínu til að geta tekið almennilegt jólafrí. Hefur ekki gerst síðan ég byrjaði hjá Samskipum. Hafa alltaf verið einhverjar innleiðingar á tölvukerfum í gangi um áramót, sem hafa komið í veg fyrir það. Ekki núna samt. Hlakka til 11 daga samfellds jólafrís.

2007-08-17

Selatangar

Filed under: Ferðalög,Frí — Jón Lárus @ 21:18

Fórum, öll fjölskyldan, í sunnudagsbíltúr í dag. Ókum sem leið lá fram hjá Kleifarvatni. Stoppuðum þar smá stund til að tína ber. Héldum síðan áfram til Selatanga. Horfðum á öldur og brim dágóða stund. Öldur eru eins og eldur. Hægt að horfa endalaust á þær.

Öldur við Selatanga

Þegar við gátum slitið okkur frá Selatanga lá leiðin til Selfoss eftir Suðurstrandarvegi til að kaupa málningu, sem fékkst hvergi annars staðar á landinu. Og ís. Eftir ísinn var síðan ekið í bæinn. Snilldar bíltúr.

2007-08-11

Frí

Filed under: Frí,Húsið — Jón Lárus @ 17:42

Kominn aftur í frí. Tveggja vikna. Þvílíkt góð tilfinning. Að þessu sinni verður þó ekki farið neitt, nema kannski í einhverja bíltúra. Stefnan sett á að dytta aðeins að húsinu.

2007-08-8

Le Marche II

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Frí,Matur — Jón Lárus @ 22:09

Ég veit, ég veit. Það er ekki prímtöludagsetning í dag. Ætla samt að svindla aðeins og taka Fibonacchi á þetta.

Vikan leið semsagt hjá okkur í því sem næst algerri leti. Sólin sleikt, lesið og slappað almennt af. Síðan úðaði maður í sig mat og drykk. Dæmigerður morgunmatur leit þannig út: Espressó, greipsafi, jógúrt og brauð með skinku og bel paese osti. Namm!

Dæmigerður morgunmatur

Við Hildigunnur, Fífa, Anna Sigga og Alexsandra skutumst til San Marínó einn daginn. Vorum um 5 tíma að keyra fram og til baka. Keyptum slatta af líkjörum og svo piadinupönnu.

Þótt við værum þarna úti í þvílíkri sveit þá þurfti maður ekki að fara langt til að finna fínustu veitingastaði. Fyrsta kvöldið okkar fórum við á pizzustað í S. Vittoria in Matenano, smábæ svona 10 km frá húsinu okkar. Pizzurnar þar voru í einu orði sagt hrikalega góðar, með þeim betri sem maður hefur smakkað.

Beðið eftir pizzum

Annað veitingahús sem við fórum á var í pínulitlu þorpi rétt hjá Comunanza, sem var stærsti bærinn í nágrenninu. Veit ekkert hvað þorpið hét en veitingastaðurinn hét Re Artù. Ég fékk mér tagliatelle með jarðkeppum. Í annað skipti á ævinni sem ég smakkaði slíkt hnossgæti. Þar sem við vorum ekki á jarðkeppatíma þá voru bara notaðir þurrkaðir sveppir. Ég get nú ekki sagt að það hafi verið mikið bragð af réttinum. Maður verður bara einhvern tímann að fara til Ítalíu á bilinu nóvember til mars til að prófa ferska jarðkeppi. Þá skilur maður kannski af hverju þeir eru lofsungnir svona.

Síðasta kvöldið sem við vorum í Le Marche fórum við svo á mjög fínan stað í mjög litlu þorpi sem var u.þ.b. 5 kílómetra frá húsinu okkar. Staðurinn heitir Le Logge. Þar fengum við blandaða forrétti (4 mismunandi réttir) hver öðrum ljúffengari. Síðan var blandað grill, sem var ekkert smá gott. Eins og venjulega var grillaði kálfurinn bestur. Eigum eftir að prófa það sjálf hér heima. Í lokin fengu þeir, sem höfðu verið svo forsjálir að geyma pláss í lakanum, sér eftirrétt. Útsýnið frá þessum stað var glæsilegt. Þorpið stóð efst upp á kletti og á veitingastaðnum voru tvennar svalir með útsýni yfir nærliggjandi dali. Punkturinn yfir iið var síðan víngeymsla veitingahússins sem gestir staðarins gátu skoðað.

Vngeymslan

Ég var ekki alveg búinn að gefast upp á skokkinu þótt við erfiðar aðstæður væri að etja. Næstsíðasta daginn þá rakst ég á dauðan snák. Hann var a.m.k. metri á lengd. Seinna um kvöldið, á leiðinni á Le Logge þá stoppuðum við og tókum mynd af hræinu. Fréttum síðar að þessi tegund væri sauðmeinlaus.

Snákurinn

Síðasta morguninn þá skokkaði ég til Smerillo eftir bílnum. Höfðum skilið hann eftir hjá veitingastaðnum. Á leiðinni sá ég mjög stóran ránfugl hnita hringi rétt hjá þar sem ég hafði fundið snákinn daginn áður. Þetta var örugglega örn eða gammur. Hugsanlega hafði hann hirt snákshræið, því það var horfið. Eftir að hafa skoðað fuglabókina þá tókst mér með útilokunaraðferð að finna út að þarna hafi að öllum líkindum verið um gullörn að ræða.

Síðar um morguninn lögðum við af stað áleiðis til Rómar. Að þessu sinni var ekið á hraðbrautum eins og kostur var. Ágætt að losna við hlykkina. Leiðin sem við fórum var afskaplega falleg. Ekið rétt hjá hæsta fjalli Appennínafjallgarðsins, Corno Grande, sem er 2914 m hátt. Þar rétt hjá var ekið í gegnum 10 km löng göng gegnum fjallgarðinn. Enduðum síðan á hóteli við flugvöllinn. Þurftum að vakna kl. 4 næsta morgun til að ná flugi til Stansted og síðar um daginn heim til Íslands.

2007-08-5

Fyrramálið

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 10:23

Já það var þetta með fyrramálið…

Það var bara þessi bók þarna. En nú er ég búinn með hana. Góður lokahnykkur á seríunni og engir lausir endar. Smá eftirsjá samt þegar þetta allt saman er búið. Ekki samt eins og gamall skólabróðir minn, sem sagði að honum hefði beinlínis liðið illa eftir að hafa klárað Hringadrottinssögu, þar sem hann vissi að hann ætti aldrei eftir að lesa nokkuð jafngott.

En nú er ég kominn þokkalega út fyrir efnið. Meiningin var að setja inn einhver brot úr Ítalíuferðinni. Hildigunnur er nú reyndar búin að rekja fyrstu dagana nokkuð ítarlega en hér er semsagt fyrsti skammtur:

Fyrsti dagurinn fór að sjálfsögðu í ferðalag. Flugum til Stansted. Þar þurftum við að bíða í 5 eða 6 tíma eftir flugi til Rómar. Við ákváðum því að taka bílaleigubíl og reyna að finna eitthvert þorp í nágrenninu til að eyða tímanum. Ég hef aldrei keyrt áður í Englandi og það hefur örugglega verið sjón að sjá okkur þegar við vorum að reyna að komast út af flugvallarsvæðinu, kortalaus og allslaus. Gerðist örugglega þrisvar sinnum að voru teknir 2 hringir á hringtorgum meðan við reyndum að leið út af flugvallarsvæðinu. Og þurfa alltaf að hugsa: Beygja vitlaust, beygja vitlaust, beygja vitlaust. Allt hafðist þetta nú að lokum og við fundum bæ þar sem var verslað smá og við fengum það sem reyndist vera langversta máltíð ferðalagsins.

Síðan var flogið með Ryanair (er það ekki Reynisflug?) til Rómar. Aldrei aftur með því flugfélagi ef hjá því verður komist. Hildigunnur lýsir því betur í sinni færslu. Komumst nú að lokum á Ciampino flugvöll hjá Róm. Tókum þar við bílnum. Það var smá vesen að fá hann afhentan því að hann var í dýrasta klassa og því heimtuðu Hertz menn að fá tvö kreditkort, sem tryggingu (kom í ljós síðar að þau þurftu að vera frá sama manninum!). Við erum bara óvart með eitt. Eftir smá japl, jaml og fuður tókst okkur samt að fá bílinn. Óxla flottur BMW 320, með díselvél. Ég var með smá efasemdir um díselvélina en þær hurfu strax og bíllinn var tekinn til kostanna. Hann var eins og hugur manns, kraftmikill og rúmgóður.

Jón Lárus og kagginn fyrir utan húsið góða.

Komumst svo loks á hótelið eftir smá basl. Þurftum að spyrja til vegar þrisvar sinnum á leiðinni. Vorum bara með leiðarlýsingu prentaða út úr Google og komið niðamyrkur. Stelpunum fannst við skera okkur úr þar sem við keyrðum mjög hægt að reyna að skima eftir skiltum. Allt hafðist þetta samt að lokum.

Þessir fjórir heilu dagar, sem við höfðum í Róm liðu síðan eins og hendi væri veifað. Við slepptum viljandi öllum söfnum og Vatíkaninu. Ekki hægt að bjóða krökkunum upp á það og þetta var líka svo stuttur tími að það þurfti að velja og hafna. Á hinn bóginn voru helstu torg og gosbrunnar þrædd af mikilli nákvæmni ekki síst vegna þess að það var gífurlega heitt þegar við vorum þarna. 34-38 gráður. Hvert tækifæri var því notað, þegar við rákumst á vatnspósta, til að bleyta í hausum. Skruppum síðan einn dag niður á strönd. Það var mjög skemmtilegt. Algerlega ítölsk strönd, engir túristar þar nema við að því er við best gátum séð.

Barinn á ströndinni

Þetta var eina skiptið, sem bíllinn var hreyfður meðan við vorum í Róm.

Síðan er náttúrlega ekki hægt annað en að minnast á Colosseo, sem við fórum í síðasta daginn, sem við vorum í Róm. Þá voru hinar fjölskyldurnar, sem við ferðuðumst með líka komnar út. Farið var í hópferð snemma um morgun til að skoða þessa stórmerkilegu byggingu. Ég hafði lesið fullt um hana og séð ótal myndir. Það jafnast samt ekkert á við það að koma þarna inn. Stórfenglegt í einu orði.

Colosseo

Það er náttúrlega bara skandall að hafa ekki komið áður til Rómar. En eitt er víst, þetta er ekki í síðasta skipti. Stórskemmtileg borg.

2007-07-29

Fríið búið

Filed under: Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 21:34

Komin heim eftir frí á Ítalíu. Æðislegt frí, þar sem stórfjölskyldan tók á leigu stórt hús í Le Marche héraðinu.  Vorum þar í viku og þar áður í 5 daga í Róm.  Róm ekki sem verst þrátt fyrir gífurlegan hita.

Ferðasagan verður annars að bíða betri tíma. Ferðalag í gær og í dag tók talsverðan toll þannig að ég orka ekki langri færslu núna.

2007-05-17

Freyja

Filed under: Dægradvöl,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 14:37

klukkaði mig. Best að svara listanum hennar (þó Hildigunnur sé nú reyndar búin að því líka).

1. Já
2. Við förum öll til Ítalíu, nánar tiltekið til Rómar og Le Marche.
3. Við verðum rétt tæpar tvær vikur.
4. Já, þetta er í fjórða skipti, sem ég kem þangað.

2007-04-3

Sumarbústaður

Filed under: Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 18:45

Vorum í sumarbústað um helgina. Samstarf, starfsmannafélag Samskipa á 5 bústaði rétt hjá Hreðavatni. Mjög flottir bústaðir. Við vorum þarna frá föstudagskvöldi þangað til núna í morgun. Algjör afslöppun (nema þegar við vorum með 5 gesti, smá læti þá stundum). Mikið lesið, lagðir kaplar, gerðar sudokur og allt þetta týpíska, sem maður gerir í sumarbústað.

Fórum svo í gær í göngutúr að fossinum Glanna. Mjög flottur foss, sérstaklega í leysingunum, sem voru þarna. Verður gaman að koma þarna upp eftir einhvern tímann að sumarlagi og sjá hvernig hann lítur út þá.

Hildigunnur var líka með færslu um ferðina. Sjá hér.

2007-01-17

Sumarleyfið

Filed under: Frí — Jón Lárus @ 23:14

Að öllum líkindum erum við búin að ákveða hvert við förum í sumarfríinu. Veltur þó á því hvort húsið, sem við höfum augastað á er laust.
Meira síðar en við erum farin að hlakka til…

2006-11-29

Helgin

Filed under: Fjölskyldan,Frí,Vinnan — Jón Lárus @ 23:02

Maður sér nú bara sína sæng upp reidda! Sé næstu vinnuviku í hillingum (næstum). Miðað við þetta

2006-10-3

Hildigunnur

Filed under: Bjór,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí,Vín — Jón Lárus @ 23:58

er náttúrlega búin að telja upp nokkur helstu atriði úr Parísarferðinni hér.

Man svo eftir nokkrum atriðum í viðbót.

Mér fannst merkilegt að sjá hvað var lítill hundaskítur í París núna miðað við þegar við vorum þar síðast (fyrir 15 árum). Áður þurfti maður bókstaflega að fylgjast með hvar stigið var niður. Núna sást hundaskítur aðeins stöku sinnum.

Endurnýjaði kynnin við maltbjórinn Pelforth brune. Svakalega góður bjór.

Fann svo flottustu vínbúð, sem ég hef á ævinni komið inn í. Lavinia á Rue de la Madeleine. Slær svei mér þá Berry Bros í London við. Berry Bros eru þó með flottari heimasíðu.

Að síðustu ísinn í Berthillion.

2006-06-3

Pragferð

Filed under: Bjór,Ferðalög,Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 23:59

Til þess að átta sig á því hvað við hjónakornin vorum að vesenast síðustu vikuna er kannski ágætt að kíkja á síðuna hennar Hildigunnar þar sem Danmerkur og Pragferð okkar er rakin í stórum dráttum.

Á meðan Hildigunnur og aðrir kennarar í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar skoðuðu hinar ýmsu tónlistarstofnanir Pragborgar þá þurftum við Jón Heiðar að hafa ofan af fyrir okkur með einhverjum hætti. Það er skemmst frá því að segja að við örkuðum miðbæinn þveran og endilangan. Það náttúrlega segir sig sjálft að mann þyrstir af miklum göngum. Við Jónarnir þurftum því að koma reglulega við á ölstofum til að svala þorsta okkar.
Þeir staðir sem stóðu upp úr voru:
U Fleku: Þar fær maður mjög góðan dökkan bjór, sem er bruggaður á staðnum. Ég las einhvers staðar að þetta væri elsta brugghús þar sem bjórinn er drukkinn á staðnum (microbrewery). Sel það ekki dýrara en ég keypti. Gallinn er hins vegar sá að bjórinn er hrikalega dýr þarna miðað við tékkneskar aðstæður (87,5 Tkr, sem samsvarar um 300 Íkr. Hljómar kannski ekki mikið en víðast annars staðar í miðbænum fást bjórarnir á 50-60 og um leið og er komið aðeins út fyrir mestu ferðamannastaðina fara þeir í 25-30). Þar að auki skilst mér að maður þurfi að fara vel yfir reikninginn því þjónarnir reyni að troða inn á mann Becherovka skotum (sem smakkast eins og fljótandi piparkökur). Talningin á þessum skotum er víst ekki alltaf í sama talnabasa og við eigum að venjast.
Strahov klaustrið: Þar fengum við dökkan bjór úr smábrugghúsi, sem mér fannst vera sá besti í ferðinni. Ólíkt flestum öðrum tékkneskum bjórum þá var þessi sterkur (örugglega vel yfir 5%). Eins og með marga góða bjóra og vín var fyrsti sopinn svolítið hrjúfur en bjórinn batnaði með hverjum sopa.
Á götunni Jilská, sem liggur út frá aðaltorginu fann ég bjórbúð með mjög fínu úrvali. Þar fann ég dökkan bjór, Bernard, sem ég sá ekki á neinni krá. Mjög góður bjór, sem mér fannst komast næst Strahov bjórnum. Þar keypti ég líka Krušovice dökkan, sem ég var fyrir vonbrigðum með. Þriðji dökki bjórinn, sem ég fékk í þeirri búð var Staropramen, ágætis bjór.
Prófaði síðan 3 mismunandi útgáfur af Krušovice (á öldurhúsi rétt hjá aðaltorginu). Venjulegur 10° Krušo var alveg ágætur. Sá dökki olli vonbrigðum. Þriðja týpan, 11°, Muškatýr, var hins vegar langbest. Ég náði ekki að smakka fjórðu týpuna, sem var 12°. Þessi krá var ein af fáum þar sem hægt var að fá meira en 1-2 gerðir af bjór.
Ég skildi ekki alveg hvernig farið er að þessu í Tékkó. Oftar en einu sinni fengum við matseðil í hendurnar þar sem var boðið upp á nokkrar tegundir af bjór. Þegar maður ætlaði svo að panta eitthvað spennandi þá kom í ljós að staðurinn bauð ekkert nema kannski 1 tegund!
Meira síðar…

2006-04-23

Fríið

Filed under: Frí — Jón Lárus @ 23:56

Fríið búið. Á morgun tekur við ískaldur og grár raunveruleikinn…

2006-04-5

Jibbí. Á morgun byrja ég í löööööngu páskafríi. Fe…

Filed under: Frí — Jón Lárus @ 23:52

Jibbí. Á morgun byrja ég í löööööngu páskafríi. Fer ekki að vinna aftur fyrr en 24. apríl. Mætti halda að maður væri kennari.

2006-01-19

Jibbí Var að panta miða til Kaupmannahafnar áðan. …

Filed under: Frí — Jón Lárus @ 00:14

Jibbí
Var að panta miða til Kaupmannahafnar áðan. Fer samt ekki fyrr en í vor. Hitti þar Hildigunni og Hallveigu. Síðan liggur leiðin til Prag. Hef ekki komið þangað í óratíma. Hlakka til.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.