Strč prst skrz krk

2008-10-29

Dósatónlist

Filed under: Græjur,Hneykslun — Jón Lárus @ 22:42

Var neyddur til að hlusta á ca. hálftíma af dósatónlist áðan.  Við vorum að fá okkur síma, net og sjónvarp í gegnum ljósleiðara.  Besta mál, nema sjónvarpið kom ekki af sjálfu sér.  Þannig að ég hringdi í 1414 til að fá aðstoð.  Beið og beið og beið og beið.  Enginn þjónustufulltrúi laus.  Á meðan var dembt yfir mig dósatónlist í stríðum straumum.  Elvis venjulega er alveg nógu slæmur en niðursoðinn!  Fékk svo eftir langa mæðu samband við þjónustufulltrúa, sem breytti eitthvað stillingum á uppsetningunni þ.a. sjónvarpið datt inn.  Sit svo hér og er að reyna að jafna mig eftir þessa lífsreynslu.

2008-08-5

Frekja og heimska

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 22:41

er slæm blanda. Lentum í einum gaur, sem virtist vera með vænan skammt af hvoru tveggja í útréttingarleiðangri áðan. Hann hafði gleymt að beygja inn á beygjuakrein (til að taka vinstri beygju á Höfðabakka inn á Bíldshöfða). Þetta var nú samt ekki mikið vandamál fyrir hann. Hann setti bara hornið á jeppanum sínum inn á beygjuakreinina fyrir framan okkur og beið á áfram akreininni eftir að beygjuljósið kæmi. Ökumenn, sem voru að fara áfram og komust ekki neitt fyrir þessum fávita máttu hins vegar bíða.

Hann hefði hins vegar verið fljótari ef hann hefði tekið hægri beygju inn á planið hjá gamla tækniskólanum og snúið síðan við og farið áfram Bíldshöfðann.

2008-04-21

Rtna

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 23:01

Grrr. Mikið skelfilega fer það í taugarnar á mér fólkið sem hlammar bílunum sínum á miðja gangbraut meðan það bíður á rauðu ljósi. Veldur því að maður verður að taka á sig krók og oft yfir kantsteina í stað þess að renna ljúflega yfir gatnamótin á hjólinu. Lenti á einum slíkum á leiðinni heim úr vinnunni áðan. Síðan ekkert margir dagar liðnir síðan ég lenti í því sama.

Var það ekki annars Elías í einhverri bókinni eftir Auði Haralds. sem reif upp hurðina á einum slíkum bíl og spurði hvort maður ætti að fara í gegn hérna? Maður ætti kannski að fara að taka það upp eftir honum.

2008-04-3

Vín eða ekki

Filed under: Hneykslun,Vín — Jón Lárus @ 23:58

Var að lesa á repubblica.it (sjá hér) að það er kominn upp allsvakalegur vínskandall á Ítalíu. Um er að ræða samsull, þar sem var kannski 1/3 vín og restin vatn, sykur, ákveðnar sýrur og einhver önnur efni (m.a. áburður) í minna mæli. Sýrurnar voru settar saman við til að umbreyta sykrinum þ.a. í blöndunni kæmu fyrir sykrur af sömu gerð og finnast í vínberjum. Smá aukaverkanir; sullið er eitrað og jafnvel krabbameinsvaldandi. Af þessum kokteil hafa verið búnir til og seldir að minnsta kosti 70 milljón lítrar.

2008-01-21

Páskarnir

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 00:55

eru snemma í ár. Ég hef samt aldrei áður séð páskaegg til sölu í janúar! Fór í Krambúðina á laugardagskvöld og þá voru komin þar í umferð Nóa egg nr. 1.

2007-10-2

Eruði ekki að grínast?!

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 22:21

Var að fletta Blaðinu áðan. Þá er þar heilsíðu jólaauglýsing! Hvað er í gangi?! Það er 2. október. Ég get skilið að hannyrðabúðir byrji snemma að auglýsa jólaklukkustrengi og aðrar hannyrðavörur, sem tengjast jólunum en þetta er bara algerlega út úr korti! Ætli að IKEA komi þá ekki bara í næstu viku með sínar jólaauglýsingar. Hnuss.

2007-09-29

Á ekki orð

Filed under: Hneykslun — Jón Lárus @ 21:37

yfir fréttirnar af dónaskap fólks við afgreiðslufólk í IKEA og fleiri búðum, sem hafa birst undanfarna daga. Hvernig stendur á því að fólk helli sér yfir fatlað afgreiðslufólk eða af erlendu bergi brotnu þó það tali ekki íslensku. Ég skil þetta bara ekki. Það hlýtur að vera verulega mikið að hjá þessu fólki. Það kostar ekki mikið að vera kurteis.

2007-09-24

Venjulega

Filed under: Hneykslun,Ruglið,Stjórnmál — Jón Lárus @ 23:27

færi ég ekki utan prímtöludagsetninga (nema í stöku tilfellum þegar ég tek Fibonacchi svindl). En þessi grein hér er bara svo svakaleg að ég get ekki orða bundist.

Verst að til að lesa hana verður að kunna svolítið í ítölsku. Ef einhver veit um upprunagreinina væri urlið vel þegið.

2007-09-3

Aumingjar

Filed under: Hneykslun — Jón Lárus @ 23:27

sem þessir ungu félagsmenn í Lífeyrissjóði verkfræðinga geta verið. Allt of fáir af yngri deildinni, sem mættu. Þeir sitja sofandi á verðinum og leyfa með aðgerðaleysi gömlu gaurunum að koma sínum málum í gegn.

Var semsagt á aukaaðalfundi þar sem kosið var um vægast sagt umdeilda grein, sem verið var að bæta inn í samþykktir lífeyrissjóðsins. Snerist um það að elstu félagarnir fá 90% af lífeyri í stað 80% þótt innborganir þeirra sé bara brot af því.

Þeir gömlu mega þó eiga það að þeir unnu heimavinnuna sína. Greinilega smalað grimmt. Allir raftar dregnir á flot. Sá einn öldung með súrefniskút og 2 á göngugrind.

Verðmiði upp á ca. 300 milljónir, sem eldri deildin fær undir rassinn á sér með þessu móti. Þó lífeyrisinneignin þeirra hafi brunnið að miklu leyti á sínum tíma þá er þetta liðið, sem í staðinn hagnaðist á því að bæði húsnæðis og námslán brunnu upp. Þetta kallar maður að geyma bæði kökuna og éta hana. Svei!

Nú er það eina sem hægt er að vonast eftir að fjármálaeftirlitið hafni þessari reglugerðarbreytingu. Ekki svo að skilja að ég sé vongóður um það.

2007-08-8

Risaalda í Algeríu

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 22:34

Þetta er frétt á mbl.is núna í kvöld. Líklega er þó átt við Alsír í fréttinni. Svo er talað um að aldan hafi riðið yfir vesturströnd Algeríu, sem hlýtur að vera svolítið erfitt þar sem strandlengja Alsír snýr í norður svona að mestu leyti (reyndar að hluta til í NNV). Fyrir utan að innihald fréttarinnar er að mestu leyti fabúleringar af ýmsu tagi. Þetta er svo klént að maður á ekki orð.

2007-07-11

Uppfærsla, framhald.

Filed under: Hneykslun,Ruglið,Undrun — Jón Lárus @ 20:17

Vá! Ég skrifaði þessa færslu í lok apríl um uppfærslu á vef vínbúðanna. Ætlaði svo að skoða vefinn hjá þeim í gær. Þá kom í ljós að maður getur ekki enn séð vörulistann hjá þeim. Eftir tvo og hálfan mánuð! Hverslags framkvæmdir eru þetta?! Ég bara á ekki orð.

2007-07-3

Hvað á það svo

Filed under: Bjór,Hneykslun — Jón Lárus @ 19:10

að þýða að vera ekki með bjór/vínkæli í Austurríki? Þýddi að maður neyddist til að hjóla upp í Kringlu til að fá kaldan bjór.

2007-06-11

Kanadakappaksturinn

Filed under: Formúla 1,Hneykslun — Jón Lárus @ 22:51

Það eru keppnir eins og þessi í gær, sem gera það að verkum að ég fylgist með formúlunni. Þvílík dramatík. Í þessari einu keppni gerðist meira heldur en í öllum keppnum ársins fram að þessu. Ekki spillti svo fyrir að mínum mönnum (McLaren) gekk vel á meðan erkifjendurnir áttu dapran dag.

Get svo ekki annað en kvartað yfir umfjölluninni hjá sjónvarpinu. Það er einfaldlega ekki nógu gott að þeir sem eru að lýsa keppninni missi af 2 augljósum atriðum. Annars vegar þegar Massa var skyndilega kominn fram úr Alonso. Tók þá að minnsta kosti hálfan hring að uppgötva það. Hitt atriðið var þegar Alonso og annar keppandi fengu 10 sekúndna refsingu, sem þurfti að taka út á viðgerðasvæðinu. Skilaboð um það komu fram á skjánum en lýsendur tóku ekki eftir því fyrr en þeir tóku út sína refsingu löngu síðar.

Ég veit vel að það er ekkert grín að vera með beina lýsingu og alveg hægt að fyrirgefa einhverjar smáyfirsjónir og mismæli en þetta gerist í nánast hverri einustu keppni að þeir missi af einhverju svona (nema kannski í Barcelona og Mónakó en í þeim kappökstrum gerðist hvort sem er ekki neitt).

2007-06-3

Sá auglýsingu

Filed under: Hneykslun,Undrun — Jón Lárus @ 22:05

í sjónvarpinu áðan. Diskur með óskalögum sjómanna! Hvað verður það næst? Diskur með óskalögum sjúklinga kannski!?

2007-04-29

Uppfærsla

Filed under: Hneykslun,Undrun — Jón Lárus @ 13:49

Ég fór inn á heimasíðu ÁTVR fyrir helgi og ætlaði að skoða vörulistann hjá þeim. Þá kom í ljós að verið er að vinna að breytingum á síðunni og gert er ráð fyrir að hún verði komin í gagnið í byrjun júní! Byrjun júní! Vörulistinn á semsagt að vera niðri í einn og hálfan mánuð.

Ég skil ekki svona framkvæmdir. Ekkert verið að reyna að halda röskun í lágmarki.

2007-02-7

Einokun

Filed under: Hneykslun — Jón Lárus @ 22:21

Og svo var það fréttin um að Frumherji væri að kaupa Aðalskoðun. Ég bara trúi því ekki að þetta verði látið ganga í gegn. Ef kaupin verða leyfð verður eitt fyrirtæki, sem sér um nánast alla skoðunarstarfsemi á landinu. Er það betri einokun en ef ríkið sæi um þetta? Held ekki.

Misrétti í flugi

Filed under: Hneykslun — Jón Lárus @ 22:17

Missti andlitið í gær þegar ég heyrði frétt þess efnis að matseðillinn hjá Flugleiðum væri stéttskiptur. Flugmennirnir fengju annan mat heldur en flugfreyjur og þjónar. Nú skilst mér að flugmennirnir fái mismunandi mat. Ég skil alveg ástæðuna fyrir því, minni hætta á matareitrun. En að setja flugmennina á einhvern svona stall finnst mér fáránlegt!

2006-09-17

Eggjakast

Filed under: Hneykslun — Jón Lárus @ 23:48

Haldið þið ekki að það hafi ekki verið grýtt eggi á húsið okkar í fyrrinótt!

Veit ekki hvort menn eru farnir að taka með sér eggjabakka á djammið. Allavega hafði einu eggi verið hent á húsið okkar þegar ég kom út í gærmorgun. Rétt hjá var svo tómur eggjabakki.

Einhvern veginn finnst mér þetta verra heldur en ef að hefði verið krotað á húsið. Þetta er mun persónulegra ef svo má að orði komast.

2006-03-23

Var að hlusta á Spegilinn í kvöld. Þar var m.a. vi…

Filed under: Hneykslun,Ruglið,Undrun — Jón Lárus @ 23:09

Var að hlusta á Spegilinn í kvöld. Þar var m.a. viðtal við Andra Snæ í sambandi við bókina, sem var að koma út eftir hann. Í því kom fram að í Bandaríkjunum er ekki greitt neitt skilagjald á flöskur og dósir. Ástæðan: Áldósaframleiðendur stunda gangapot í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að skilagjaldi verði komið á. Ég varð alveg agndofa, þvílík sóun (reyndar trúi ég því ekki að þetta gildi fyrir öll Bandaríkin).

2006-03-17

Ég er ekki viss um að ég vilji fara í lyfjaprófuna…

Filed under: Hneykslun — Jón Lárus @ 23:56

Ég er ekki viss um að ég vilji fara í lyfjaprófunarhóp um þessar mundir. Síðastliðna 2 daga hafa 2 lyfjaprófunarhneyksli verið í fréttum. Eitt í Bretlandi og annað í Japan (eftir því sem ég best veit var um mismunandi lyf að ræða). Í Japan var meira að segja verið að prófa lyf, sem hefur verið á markaði. Bara önnur notkun á lyfinu. Í Bretlandi urðu 2 af 6 sem fengu lyfið mjög alvarlega veikir. Í Japan held ég að 11 hafi látist. Maður veltir fyrir sér hvaða reglur gilda um svona lyfjaprófanir. Ekki svo að skilja. Lyfið Vioxx var sett á markað og komst í gegnum allar síur. Var meir að segja söluhæsta lyf í sínum flokki hér á landi áður en kom í ljós að það var ekki allt þar sem það var séð. Í Bandaríkjunum létust að minnsta kosti nokkrar þúsundir manna, líklega tugir þúsunda (ég hef séð töluna 40.000) áður en það var tekið af markaði. Miðað við höfðatölu gæti þetta hafa þýtt 5-40 dauðsföll hér á landi.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.