Strč prst skrz krk

2007-06-29

Keðjuverkun

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 14:09

Við Hildigunnur tókum þátt í fyrstu keðjuverkun hér á Íslandi áðan. Líklega mættu á milli 30-40 manns og hjóluðu frá Glæsibæ að Ráðhúsinu í frábæru veðri. Þar var síðan þátttakendum boðið upp á tortillur.

Þau sem stóðu fyrir þessu sögðust hafa búist við svona 10-15 manns. Þetta verður svo endurtekið síðasta föstudag í júlí og aftur í ágúst. Hvet alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt næst.

Hvernig

Filed under: Hm? — Jón Lárus @ 00:17

stendur á því að næstum því allir reykskynjarar eru svona hræðilega ljótir?

2007-06-23

Vorum í afmælisveislu

Filed under: Afmæli,Fjölskyldan,Matur,Veðrið — Jón Lárus @ 21:17

Ragnheiðar Dóru í dag. Hún átti 7 ára afmæli. Veislan var haldin á Sunnuflötinni hjá móðurömmunni og afanum. Að sjálfsögðu voru snilldarveitingar á borðum. Hallveig og Jón búin að koma á hefð að bjóða upp á alls konar eðalosta í afmælisveislunni. Ekki spillti síðan fyrir að í dag var besta veður sumarsins fram að þessu. Setið var úti á palli og krakkarnir sulluðu í potti. Snilldardagur.

Erfitt

Filed under: Hm? — Jón Lárus @ 00:40

að vera forritari og lesa á kókflöskur þessa dagana.

Fyrirmælin: Kíktu aftan á miðann. Reyndu aftur. Kíktu aftan á miðann. Reyndu aftur. Kíktu aftan á miðann. Reyndu aftur. Kíktu aftan á miðann. Reyndu aftur. Kíktu aftan á miðann. Reyndu aftur… Mjög auðvelt að lenda í vítahring þarna.

2007-06-19

Hér var að banka upp á

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 20:12

maður, sem var svona heldur utan við sig. Hann spurði: „Er þetta ekki Njálsgata 6?“ Við: „Jú, að hverju ertu að leita?“ Hann: „Ja, það er nú það.“ Byrjaði svo að gramsa í vösum og dró að lokum upp snjáðan pappírssnepil og las Skarphéðinsgata 6. Við útskýrðum svo fyrir honum hvernig hann kæmist þangað. Skarphéðinn og Njáll hvað?

Púff

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 20:04

maður verður nú bara þreyttur við að lesa hvað Hildigunnur náði að erindast í dag.

Hreinsaði

Filed under: Garðurinn,Hm? — Jón Lárus @ 20:03

fífla í tugatali úr garðinum um helgina. Það var bókstaflega eins og hefði verið sáð fyrir fíflum. Fór svo að hugsa ef maður kæmi í Flowerchoice og bæði um fíflafræ hvernig svipur kæmi á fólkið.

2007-06-17

Finni

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð — Jón Lárus @ 22:28

hélst ekki vel á helíumblöðrunum í dag. Fórum staðlaðan 17. júní hring. Duttum inn í skrúðgönguna við Klapparstíg. Létum berast niður í miðbæ. Og skoðuðum okkur aðeins um þar. Þar var verið að dreifa Shrek blöðrum og Finnur fékk eina. Við bundum hana við hann en þá vildi ekki betur til en svo að spottinn losnaði við blöðruhálsinn og hún fauk út í veður og vind. Okkur tókst að útvega aðra blöðru í staðinn. Þrátt fyrir að vera með góðri lykkju og þótt Finnur væri mjög einbeittur í að halda í blöðruna þá missti hann hana líka upp í loft akkúrat þegar við vorum að koma heim. Litli gaur frekar svekktur með þessa niðurstöðu.

Flott

Filed under: Íþróttir,Formúla 1 — Jón Lárus @ 22:23

íþróttahelgi núna. Fyrst vann kvennalandsliðið okkar lið Frakka í knattspyrnu. Glæsilegur sigur. Frakkar eiga eitt af bestu kvennalandsliðum heims. Nær væri fyrir KSÍ að leggja meiri áherslu á kvennaliðið heldur en að púkka upp á þetta handónýta karlalandslið.

Síðan voru úrslitin í Bandaríkjakappakstrinum fín. McLaren greinilega komið með góðan bíl og unnu öruggan sigur. Það sást meira að segja alvöru kappakstur á köflum (Fisichella kom á óvart með mjög ákveðnum akstri), sem hefur verið af skornum skammti á þessu tímabili fyrr en í síðustu tveimur keppnum.
Ég var dauðhræddur fyrir Kanadakappaksturinn og þennan um að Ferrarimenn yrðu erfiðir viðureignar. Annað kom heldur betur á daginn. Næsta keppni, Frakklandskappaksturinn, ætti síðan að henta McLaren vel. Þar er fullt af hægum beygjum, sem virðist vera Akkilesarhæll á Ferraribílnum í ár.

Að lokum vann svo handboltalandsliðið okkar einvígi við Serba um að komast í úrslitakeppni næsta Evrópumóts með einu marki. Hefðum við skorað einu marki færra hefðu Serbarnir farið áfram.
Þetta hefur greinilega verið háspennuleikur. Ég var hins vegar að stússa ýmislegt, gera jógúrt og rúgbrauð og gleymdi leiknum alveg.

Basl

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 00:20

á Fífu úti í Slóveníu. Vegabréfið týnt!

Gleðilega þjóðhátíð

Filed under: Hátíð — Jón Lárus @ 00:18

kæru lesendur.

Vonandi batnar veðrið eftir að líður á daginn. Frekar rakt núna úti.

2007-06-13

Sorglegur

Filed under: Minning — Jón Lárus @ 23:22

dagur í gær. En þá var jarðsett frænka mín, Guðbjört Lóa Sæmundsdóttir. Hún var einungis 20 ára gömul, þegar hún lést. En hafði þá átt við krabbamein að stríða í 4 ár.

Við höfum fylgst með þessari baráttu hennar og vonað það besta. Á síðustu mánuðum þegar ljóst var orðið að á brattann væri að sækja hvarflaði hugurinn oft til þeirra í Dýrafirðinum.

Hvíl í friði Lóa.

2007-06-11

Hasar

Filed under: Vinnan — Jón Lárus @ 23:00

í vinnunni á fimmtudaginn. Þá ætlaði ég að fara á salernið einhvern tímann síðdegis. Maður þarf að fara í gegn um búningsklefa til að komast þangað. Þegar ég ætlaði þar inn var ég rekinn öfugur út aftur. Allt fullt af löggum og fíkniefnahundur á svæðinu.

Daginn eftir þegar ég var að fara úr vinnunni var síðan ómerktur sendiferðabíll fyrir utan. Tvær löggur við hann að baksa við að ná hundi út.

Veit síðan ekkert hvað kom út úr þessu tilstandi öllu saman.

Kanadakappaksturinn

Filed under: Formúla 1,Hneykslun — Jón Lárus @ 22:51

Það eru keppnir eins og þessi í gær, sem gera það að verkum að ég fylgist með formúlunni. Þvílík dramatík. Í þessari einu keppni gerðist meira heldur en í öllum keppnum ársins fram að þessu. Ekki spillti svo fyrir að mínum mönnum (McLaren) gekk vel á meðan erkifjendurnir áttu dapran dag.

Get svo ekki annað en kvartað yfir umfjölluninni hjá sjónvarpinu. Það er einfaldlega ekki nógu gott að þeir sem eru að lýsa keppninni missi af 2 augljósum atriðum. Annars vegar þegar Massa var skyndilega kominn fram úr Alonso. Tók þá að minnsta kosti hálfan hring að uppgötva það. Hitt atriðið var þegar Alonso og annar keppandi fengu 10 sekúndna refsingu, sem þurfti að taka út á viðgerðasvæðinu. Skilaboð um það komu fram á skjánum en lýsendur tóku ekki eftir því fyrr en þeir tóku út sína refsingu löngu síðar.

Ég veit vel að það er ekkert grín að vera með beina lýsingu og alveg hægt að fyrirgefa einhverjar smáyfirsjónir og mismæli en þetta gerist í nánast hverri einustu keppni að þeir missi af einhverju svona (nema kannski í Barcelona og Mónakó en í þeim kappökstrum gerðist hvort sem er ekki neitt).

2007-06-7

Þurfti

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 21:16

að endurnýja ökuskírteinið mitt. Það gamla var orðið ansi lúið. Held það hafi verið frá 1983. Fæ síðan það nýja sent í pósti.

Með gamla skírteininu held ég að síðustu merkin um að ég væri sveitalubbi hafi fokið. Heimilisfangið skráð að Odda, Rangárvallahreppi.

Meira mont.

Filed under: Fjölskyldan,Tónlist — Jón Lárus @ 21:14

Akkúrat á þessari stundu er Hildigunnur að syngja í Carmen með Hljómeyki með Sinfóníuhljómsveitinni. Fékk meira að segja að syngja smá sóló.

2007-06-5

Andechs, framhald.

Filed under: Bjór — Jón Lárus @ 12:23

Fengum tvær flöskur af uppáhaldsbjórnum okkar um daginn. Nú erum við búin að smakka hann á móti tveimur afbragðs bjórum, sem fást hér nú um stundir.  Annars vegar Holsten festbock og hins vegar Chimay brune.

Gerðum þetta mjög vísindalega.  Smökkuðum fyrst saman Andechs og Holsten.  Og síðan Andechs og Chimay.  Í stuttu máli sagt.  Andechs er ennþá uppáhaldsbjórinn okkar.   Það er bara svo einfalt.  Ekki verið að kasta neinni rýrð á hina bjórana samt.  Andechs er bara svo hrikalega góður.

Við erum búin að ákveða að það líða ekki 9 ár þangað til við smökkum hann næst.  Pílagrímsferð til Münchenar á stefnuskránni.  Kannski í október.

Mont

Filed under: Skóli — Jón Lárus @ 12:22

Skólaslit í Austurbæjarskóla í dag.  Stelpurnar stóðu sig með stakri prýði.  Fífa með 9,44 í meðaleinkunn og Freyja með 9,00.  Glæsilegt hjá þeim.

2007-06-3

Sá auglýsingu

Filed under: Hneykslun,Undrun — Jón Lárus @ 22:05

í sjónvarpinu áðan. Diskur með óskalögum sjómanna! Hvað verður það næst? Diskur með óskalögum sjúklinga kannski!?

2007-06-2

Neðan

Filed under: Afmæli,Dægradvöl,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:12

úr sjónvarpsherberginu berast nú þvílíkir píkuskrækir. Fífa bauð nokkrum vinkonum sínum í afmæli. Fyrst í mat og svo gláp. Þær voru að enda við að horfa á Moulin Rouge. Síðan á að horfa á einhverja hryllingsmynd. Skrækirnir minnka væntanlega ekki við það…

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.