Strč prst skrz krk

2011-12-29

Klesstur bíll og nýr bíll

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:26

Svona leit bíllinn út eftir að angry birds gaurinn klessti á Hallveigu um daginn.

Klesstur bíll

og meiri klesstur bíll

Ekki falleg sjón.

Við komumst síðan í tæri við annan af sömu tegund. Meira um það hjá Hildigunni . Ekki eins flottur á litinn og sá gamli en á móti kemur að mörg smáatriði, sem voru í ólagi í gamla bílnum virka í nýja bílnum.

Nýi kagginn

Meiri nýr bíll

2011-07-11

Le kagg

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 22:57

Núna loksins get ég skellt inn myndum af kagganum. Við Freyja skutumst út á Gróttu í smá mánudagsbíltúr og tókum nokkrar myndir af bílnum.

kagginn

trjóna

við Gróttu

2011-07-7

Sellógaurinn

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:18

Þegar við fórum að spá í að kaupa nýjan bíl þá var það eitt af grundvallaratriðum að hægt væri að koma sellói fyrir í skottinu á honum. Þegar ég fór svo að skoða mözduna (sem við keyptum svo) þá kippti ég sellóinu hennar Freyju með. Sagði svo við bílasalann og fyrrverandi eiganda að bíllinn yrði að standast eitt skilyrði til þess að hann kæmi til greina. Ef sellóið kæmist ekki í skottið væri sjálfhætt. Sellóið komst svo með léttum leik í skottið. Mun rúmbetra heldur en á gamla bílnum. Tók svo smá rúnt á bílnum og leist ansi vel á hann. Þegar ég hringdi svo í bílasalann daginn eftir og sagðist hafa áhuga á að kaupa bílinn þá svaraði hann: Já þú ert sellógaurinn, man vel eftir þér! Greinilega ekki á hverjum degi sem svona mælingar fara fram á bílasölum…

2011-07-5

Nýr bíll!

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:38

Eða að minnsta kosti nýr gamall bíll. Hildigunnur var ekki fyrr farin í Skálholt að ég fór að kíkja á bílasölur. Rakst fljótlega á þessa líka ljómandi flottu Mözdu 6, bláa að lit. Við vorum reyndar búin að sjá hann á netinu áður en hún fór austur. Samningaviðræður við fyrri eiganda tóku stuttan tíma og nú erum við stoltir eigendur að ekki nema 5 ára gömlum bíl.

2011-04-29

Keyrður niður

Filed under: Bílar,Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:40

Já það gerðist í fyrsta skipti í dag að ég var bókstaflega ekinn niður á hjólinu. Þetta gerðist þannig að ég var á leiðinni í vinnuna. Var kominn að Holtagörðum og hjólaði eftir gangstéttinni meðfram Holtavegi, norðan megin, fram hjá nýju bílastæðunum. Þar var einn bíll á leið út af stæðinu. Hann stoppaði og ég lét gabbast og hélt áfram. En þá var bara gefið í og ég varð fyrir drekanum. Sem betur fer var ég á lítilli ferð og bíllinn tók af stað úr kyrrstöðu. Ég flaug samt á hausinn og hjólið lenti að hluta til undir bílnum. Ég slapp nú sem betur fer með skrámur en hjólið slapp ekki eins vel úr þessum allt of nánu kynnum við bíl. Afturgjörðin á hjólinu er snarbeygluð, hægt að nota hjólið en gjörðin er svo skökk að það verður að skipta henni út.

Bílstjórinn, kona með tvö lítil börn var alveg miður sín yfir þessu. Sagðist hafa ruglast á bremsum og bensíngjöf (ég tók eftir því). Þetta hefði samt allt getað farið verr og ég hef dottið miklu verr á hjóli án þess að bíll kæmi nokkuð þar við sögu.

2011-04-5

Heimur versnandi fer…

Filed under: Ýmislegt,Bílar — Jón Lárus @ 21:35

Rakst á gott dæmi um það um helgina. Tók á mig rögg og ákvað að bóna bílinn. Byrjaði á því að skólpa af honum. Varð náttúrlega að kaupa tjöruleysi til að ná af honum tjörusulli síðustu vikna. Athugaði síðan hvort ég ætti eitthvað eftir af bóni. Jú það voru restar í tveimur dollum; varla þó nóg til að bóna eina umferð. Ég kíkti því inn í bensínsjoppuna hjá bílaþvottaplaninu. Nei, þeir áttu ekki Mjallarbón. Ákvað því að prófa Olís, hef venjulega keypt þetta bón hjá þeim. Þeir áttu þetta heldur ekki til og prófaði ég þó á tveimur mismunandi stöðum. Ákvað því að prófa til þrautavara að kíkja í Excel búðina. Ekki heldur til þar. Eftir að hafa skoðað bónúrval á fjórum bensínstöðvum þá lítur út fyrir að ekki sé lengur hægt að fá Mjallarbón, besta bón sem um getur.

Fór svo að hugsa betur um þetta. Ég veit alveg af hverju þetta bón selst ekki lengur. Það er rosalega gott; bónhúðin endist í marga mánuði en það er líka erfitt og tímafrekt að bóna með því. Lítur greinilega út fyrir að fólk vilji heldur kaupa hraðbón sem er hægt að sulla á bílinn á örskammri stundu en endist ekki nema nokkrar vikur í mesta lagi.

Þetta bónævintýri mitt endaði á því að ég keypti eitthvað Sonax bón sem er meint gott. Byrjaði samt á að nota Mjallarbónrestarnar sem ég átti og þær dugðu til að klára bílinn. Líklega samt í síðasta skipti sem ég nota það.

2011-03-5

Það þarf ekki

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:55

mikið til að gleðja eigendur gamalla bíla. Dæmi um það er að núna í vikunni fórum við með gömlu beygluna okkar í skoðun. Fengum appelsínugulan miða í fyrstu tilraun og það var dansaður regndans af gleði.

2011-02-13

Ertu ekki að grínast?

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 22:16

Hrökk upp úr mér í gærkvöldi þegar pústið á bílnum hrökk í sundur. Við vorum stödd úti á Seltjarnarnesi og skröngluðumst heim við illan leik með pústið skrapandi malbikið. Krossuðum putta fyrir hverja hraðahindrun en þær eru nokkrar á leiðinni. Þetta hefði kannski ekki verið í frásögur færandi nema núna er í uppsiglingu fjórða verkstæðisferðin á tveimur vikum.

Fyrri þrjár heimsóknir á verkstæðið voru pústi þó alls ótengdar heldur var vesen með kælibúnaðinn á honum. Hann lak kælivökva og rétta ástæðan fannst ekki fyrr en í þriðju tilraun. Fengum bílinn til baka loksins í fínu lagi á föstudaginn. Í gærmorgun byrjaði að heyrast pústhljóð (og við: þú hefðir nú getað verið aðeins fyrr á ferðinni með þetta) sem ágerðist yfir daginn og svo endaði það með að rörið fór alveg í sundur um kvöldið.

Ég skreiddist undir bílinn í morgun og náði að binda pústið upp. Síðan var farið með hann að verkstæðinu okkar. Spurning hvort að viðgerðagæjarnir verða ekki glaðir að sjá bílinn enn einu sinni?

2010-11-7

Teppalagður bíll

Filed under: Bílar,Ruglið — Jón Lárus @ 23:13

Það tók mig smá tíma að átta mig á því hvað væri óvenjulegt við þennan bíl. Þetta kallar maður nú að ganga alla leið…

2010-06-23

Bilaður bíll

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 22:21

Bílinn okkar bilaði núna um helgina. Þetta byrjaði á sunnudaginn að ég tók eftir því að það lak eitthvað undan vélinni þegar Hildigunnur stoppaði til að hleypa mér út og færði bílinn svo í betra stæði. Ég fór og kannaði málið og sá að það var komið stærðar gat á efri vatnskassahosuna. Slæmt mál en við þurftum að nota bílinn þannig að ég bætti vatni á kassann og fyllti síðan 2l gosflösku af vatni til að hafa í bílnum. Stuttu seinna þá þurfti ég að erindast eitthvað og þá var gangurinn í bílnum orðinn mjög skrítinn. Gekk bara á þremur og minnti þetta mjög á þegar vélin í gamla bílnum okkar gaf upp öndina. Við vorum frekar svekkt yfir þessu. Hristumst samt á bíldruslunni á tónleika um kvöldið. Síðan eftir tónleikana þá hagaði bíllinn sér óaðfinnanlega. Ekkert að ganginum í honum.

Pantaði svo tíma á verkstæði á mánudaginn og fékk tíma í dag fyrir bílinn. Við bjuggumst alveg eins við að yrði gefið út dánarvottorð á hann. Það reyndist þó ekki svo slæmt. Það kom í ljós að vatn sem sprautaðist út um gatið á vatnskassahosunni lenti á kveikjuþráðunum og olli þessum gangtruflunum. Eftir að hafa skipt um hosu og þurrkað þræðina þá virkaði bíllinn fullkomlega. Þvílíkur léttir. Ekki alveg á dagskránni að kaupa nýjan bíl núna.

2010-06-5

Bilað vökvastýri

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 21:49

Á leið heim úr innkaupaferð á fimmtudaginn þá heyrðist skyndilega smellur og svo varð stýrið níðþungt. Eins og að keyra traktor næstum því. Það var náttúrlega ekkert hægt að búa við þetta þannig að morguninn eftir þá hringdi ég í viðgerðarmanninn okkar. Hann átti að sjálfsögðu ekki lausan tíma fyrr en á mánudaginn. Við sáum því fram á að vera bíllaus nánast alla helgina. Gátum fengið bíl lánaðan hjá Hallveigu. Reddaði okkur í morgun. Eftir hádegið þá fór ég að bóna bílinn. Ákvað þá að kíkja aðeins ofan í húddið og athuga hvort ég sæi eitthvað sem æpti á mig í sambandi við vökvastýrið. Það kom í ljós að reim hafði farið út af trissuhjóli sem tengdist dælunni fyrir vökvastýrið. Ég ákvað að prófa að smokra reiminni upp á hjólið aftur en það náðist ekki alveg. Þá datt mér í hug að prófa að starta bílnum smávegis. Það reyndist nóg til að reimin hrökk upp á hjólið aftur. Þetta reyndist svo nóg til að laga bilunina. Spurning hvort að maður stofni ekki bara verkstæði í framhaldinu.

2010-04-2

Vetur aftur

Filed under: Bílar,Veðrið — Jón Lárus @ 22:15

Ég er feginn því núna að hafa ekki drifið mig í að skipta yfir á sumardekk eins og ég var að spá í að gera í dymbilvikunni. Hefði verið glatað að vera á sumartúttum eins og veðrið var í dag. Stundum er gott að vera ekki of framtakssamur.

2010-03-11

Brotið bensínlok

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 22:55

Bensínlokið á bílnum okkar er búið að vera frekar stíft upp á síðkastið. Bæði vegna þess að einhver ók á bílinn okkar og skekkti lokið og lét hjá líða að gera grein fyrir sér en líka vegna þess að hjarirnar á því voru orðnar ryðgaðar og stirðar. Því var ég ekki búinn að átta mig á. Hélt að þetta væri allt út af beyglunni. Svo Þegar ég tók síðast bensín þá voru hjarirnar búnar að fá nóg þannig að þegar ég opnaði þá brotnaði lokið af. Frekar pirrandi. Náttúrlega ekkert hægt að gera við þetta (nema ég tali við gullsmiðinn sem sauð saman gleraugun mín saman einu sinni en það er nú efni í annað blogg).

Bíllinn er semsagt núna ytra bensínloklaus og frekar óásjálegur. Ég er búinn að panta nýtt lok hjá Brimborg því ekki var hægt að uppdrífa svona stykki á partasölum; bíllinn of gamall og of óalgengur. Verðið: 13 þúsund kall. Pantaði stykkið á mánudag og fékk símtal í gær. Þá var sendingin komin en reyndist hafa verið rangt afgreidd. Málið því enn í vinnslu.

Samt ágætt að þetta gerðist hjá mér en ekki hjá Fífu. Hún hefði fengið algjört áfall ef lokið hefði brotnað af hjá henni.

2009-05-3

Rakst svo

Filed under: Bílar — Jón Lárus @ 23:18

á þennan glæsilega bíl á göngutúr í Þingholtunum í dag.

Jaguar MKII

Gerast ekki öllu flottari en þetta.

2008-09-30

Bugatti

Filed under: Bílar,Myndir — Jón Lárus @ 22:57

Veyron er bara flottasti bíll, sem til er.

Bugatti Veyron

Rákumst á búð úti í Berlín þar sem er hægt að kaupa þennan bíl. V16 vél, 1001 hestafl, hámarkshraði 407 km/klst. Eyðsla 40 l á hundraðið í innanbæjarakstri. Ætli verðið sé ekki komið yfir 300 milljónir eins og gengið er núna. Fyrir þá, sem hafa ekki efni á Bugatti voru líka til sölu Bentleyar í sömu búð. 20-30 milljón kr. stykkið. Ekkert ósnotrir heldur svosem.

2008-09-7

Fornbílarall

Filed under: Bílar,Myndir — Jón Lárus @ 14:29

Skaust niður að ráðhúsi í morgun þegar verið var að ræsa af stað í fornbílarallið, sem haldið er þessa vikuna. Eitthvað um 70 áhafnir, af ýmsum þjóðernum, sem taka þátt. Smellti af nokkrum myndum af herlegheitunum. Margir mjög flottir.

Þessi fannst mér flottastur, u.þ.b. 50 ára gamall Citroën DS.

Flestir virtust nú vera að þessu fyrir gamanið. Þessir voru þeir einu, sem ég sá þar sem nafn og blóðflokkur kom fram á bílnum. Virtust vera í þessu fyrir alvöru.
Jaguar Mark II

Og svo þrír flottir hérna. Silfurlitaði Jagúarinn ekkert smá glæsilegur.
Nokkrir flottir

Verst að mynd af einni áhöfninni, sem var útbúin með leðurhúfur og gamaldags hlífðargleraugu virðist hafa misheppnast.

Bloggaðu hjá WordPress.com.