Strč prst skrz krk

2007-10-31

Ekki

Filed under: Blogg,Hjólreiðar,Ruglið — Jón Lárus @ 23:30

veit ég svo alveg hvað ég var að spá þegar ég flokkamerkti haustlaukafærsluna hér aðeins fyrir neðan. Garðurinn og hjólreiðar. Ég geymi að vísu hjólið í garðinum svona oftast nær en ég held að það sé nú eina tengingin. Verður lagað.

Svissneski

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:19

vasahnífurinn kemur oft að góðu gagni. Nú síðast þegar kertin brunnu aðeins of langt niður.

Tappinn kominn úr flöskunni, nei stjakanum

2007-10-29

Haustlaukarnir

Filed under: Garðurinn — Jón Lárus @ 23:13

Potaði svo niður niður nokkrum túlípanalaukum í gær, sem við keyptum fyrir nokkru en vorum ekki búin að koma í verk að setja í mold. Ekki kannski beinlínis æskilegustu aðstæður. Héla yfir öllu og hitastigið örugglega um frostmark. Verður bara að koma í ljós hvernig þetta kemur út.

Rogan josh

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 21:55

Við ætluðum að prófa indverska réttinn rogan josh í gær. Ég byrjaði að vesenast, að ég hélt nokkuð tímanlega, vitandi það að þetta þyrfti að malla í 1 til 1 1/2 tíma. Höfðum keypt lambaleggi og ég var smá stund að úrbeina þá og skera kjötið í gúllasbita, saxa laukinn og hvítlaukinn og kreista sítrónusafa. Var síðan búinn að tína flest allt annað til, sem í réttinn átti að fara. Las síðan næsta skref í uppskriftinni: Blanda saman sítrónusafa, jógúrti og einhverjum kryddum. Setja kjötið útí og láta marínerast yfir nótt.

Endaði í BK kjúklingum og keypti fjölskyldupakka.

Hélt síðan áfram þar sem frá var horfið með matseldina á rogan joshinu í kvöld. Fínn réttur. Mjög bragðmildur og góður. Hendum þessu kannski inn á brallið við tækifæri.

Hildigunnur

Filed under: Veikindi — Jón Lárus @ 18:49

er búin að næla sér í einhverja andstyggilega pest. Hún byrjaði að finna fyrir þessu þegar við vorum úti í Viðey með bekknum hans Finns í gær. Lá fyrir í allan gærdag eftir að við komum heim og er búin að liggja í allan dag. Hún mældi sig svo áðan og reyndist vera með 39,5°! Þokkalegt eða hitt þó heldur!

2007-10-23

Smá misskilningur

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:40

Var að hjálpa Fífu með stærðfræðina í gær. Við vorum búin að leysa allt sem hún átti í erfiðleikum með og hún var hætt að læra. Ég lagðist upp í sófa og fór að lesa. Fífa kom til mín og byrjaði að nauða í mér um að spila. Ég nennti því eiginlega ekki og sagði eitthvað á þá leið að ég væri lagstur niður og nennti því ómögulega, hún yrði þá að draga mig á fætur. Þá heyrðist í Hildigunni, sem var í tölvunni og hafði greinilega ekki tekið eftir að við vorum hætt að læra: JÓN! Ætlarðu ekki að hjálpa Fífu?! Misskilningurinn var nú leiðréttur fljótt. Verst að ég fattaði ekki strax að segja eitthvað fáránlegt eins og: Æ, ég nenni ekki meiru í kvöld eða eitthvað í þeim dúr.

Slagsíðan

Filed under: Nám,Ruglið — Jón Lárus @ 21:14

Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa yfir fréttinni sem birtist í gær um fjölda þeirra sem útskrifuðust með háskólapróf.  Konur eru rúmlega 2/3 af þeim sem útskrifast en karlar innan við 1/3.
Hvernig getur staðið á þessu? Það getur hvorki verið eðlilegt né æskilegt að svona mikil slagsíða sé á kynjahlutföllum, bara á sama hátt og ef slagsíðan væri á hinn veginn.  Þetta er þeim mun einkennilegra þegar tölur þeirra sem útskrifast með framhaldsskólapróf er skoðað.  Þar eru kynjahlutföllin nánast jöfn (52% konur, 48% karlar).

Ég bara skil ekki hvað gerist þarna á milli. Er þetta vegna þess að fleiri strákar fari í iðnnám og taki ekki framhaldsnám eftir það? Fara fleiri karlar í framhaldsnám í útlöndum án þess að klára háskólanám hér fyrst (væntanlega ekki algengt)? Hvernig ætli sé með kynjahlutfallið við byrjun háskólanáms ætli það sé svipað og við lok þess? Og ef fleiri karlar hætta námi án þess að klára gráðu þá væri fróðlegt að vita hver ástæðan fyrir því væri.

Mér finnst þessar upplýsingar vekja fjöldann allan af spurningum og þess vegna er ég hissa á því hvað lítið hefur verið fjallað um þær í fjölmiðlum.

2007-10-19

Dyslexían

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:48

Var á textavarpinu áðan. Þar var frétt um að steralager hefði verið upprættur í austurbænum. …Lögreglan fann umtalsvert magn af sterum…einn maður handtekinn… Svo las ég áfram: Lögreglan hefur ekki enn náð að selja allar steratöflurnar…

Útsvarið

Filed under: Dægradvöl,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 21:46

Gerðumst áhorfendur að beinni útsendingu í sjónvarpinu áðan. Þorbjörn mágur keppir fyrir hönd Fljótsdalshéraðs, sem öttu kappi við Álftnesinga. Ég hafði ekki séð neinn af þessum þáttum áður og bjóst svosem ekki við neinu. En svo reyndist þetta bara bráðskemmtilegt. Þorbjörn fór á kostum í leikatriðinu. Ekki spillti svo fyrir að liðið hans vann.

Finnur tók smá skorpu í útsendingunni. Nánari lýsing hjá Hildigunni á eftir.

2007-10-17

Garmin raunir

Filed under: Græjur — Jón Lárus @ 23:32

Garmin hlaupagræjan mín er fín. Ég er búinn að nota hana villt og galið í þessi ca. tvö ár sem ég hef átt hana. Hins vegar er hugbúnaðarstuðningurinn þegar búið er að tappa gögnunum af tækinu alveg glataður.

Fór í það um síðustu helgi að færa nokkra hlaupa og hjólahringi inn á Google maps. Hafði gert það einu sinni áður fyrir nokkrum mánuðum. Það er alveg ótrúlegt vesen því Garmin skilar bara frá sér gögnum á einu sniði (garmin xml). Ég var náttúrlega búinn að steingleyma hvernig ætti að fara að þessu. Og það tók smá tíma að rifja það allt saman upp. Það sem ég þurfti að gera var eftirfarandi:

1) Flytja gögnin út úr Garmin á xml sniði. Öll hlaup frá upphafi í einu xml skjali.
2) Fara í GPSVisualizer (www.gpsvisualizer.com/forerunner/split). Þar er hægt að hlaða inn xml skjalinu og fá til baka zip skrá þar sem búið er að skipta hlaupunum upp.
3) Afþjappa zip skrá og finna hlaupin, sem ég hafði áhuga á.
4) Fara í GPSBabel (hugbúnaður til að varpa milli GPS skráasniða) og varpa xml skránum, sem ég vildi sjá á Google maps yfir á kml snið, sem Google notar.
5) Lesa skrárnar inn í Google maps.

Þannig að ef ég gleymi þessu aftur er ég kominn með notkunarleiðbeiningar hér.

Rennuraunir

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:20

Það gerðist einhvern tímann í september að ein rennan á húsinu okkar stíflaðist. Niðurfallið var beint fyrir utan eldhúsgluggann okkar. Í rigningunum undanfarið þá var bókstaflega foss fyrir utan hjá okkur.

Um seinustu helgi þá mannaði ég mig upp í að reyna að leysa vandamálið. Dró fram stiga, stíflugorm og vatnsslöngu.

Rennuhreinsun

Ég byrjaði á að reyna að losa stífluna með gorminum en þá reyndist hann of stuttur. Þá potaði ég slöngunni ofan í rennuna og reyndi að losa stífluna þannig. Það kom alls konar drulla upp meðal annars fjöldinn allur af sígarettustubbum (sem er undarlegt miðað við að í risinu hefur ekki verið reykt í á fjórða ár) en ekki losnaði stíflan. Þá var þrautaráðið að taka rennuna í sundur. Þegar ég var búinn að því þá kom í ljós þvílík drullustífla þar sem rennan beygir fyrir horn (sést reyndar ekki á myndinni). Góð botnfylli í skúringafötu.

2007-10-13

Fífu

Filed under: Fjölskyldan,Veikindi — Jón Lárus @ 01:00

er að bestna af pestinni. Hún er farin að stunda foreldraofbeldi aftur og það eru greinileg batamerki. Hóstar reyndar ennþá þvílíkt en hann er samt ekki eins ljótur núna eins og síðustu daga. Vond pest, sem hún krækti sér í.

Lentum í

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 00:50

spaugilegum aðstæðum í Nóatúni í gær. Vorum að kaupa inn í tagliatelle bolognese. Okkur vantaði 150 g af nautakjöti og sama af svínakjöti. Þetta er hakkað og er meginhlutinn í sósunni. Allavega. Við báðum um 150 g af nautagúllasi og 150 g af svínagúllasi. Það komu svona brosviprur á afgreiðslumanninn og hann átti greinilega bágt með sig, afgreiddi okkur samt. Hefur örugglega hugsað: Ætlið þið að vera með veislu í kvöld? Eða: Haldið þið að þið getið klárað allt þetta?

2007-10-11

Skítakall

Filed under: Dægradvöl,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:55

heitir nýja spilið sem Fífa kenndi mér í dag. Þetta er svona dæmigert frímínútnaspil eins og maður spilaði ótölulega í MH forðum daga. Spilin sem voru spiluð mest þar voru gúrka og hjarta. Búinn að gleyma þeim samt. Hef ekki spilað þau í mörg ár.

Ekki samt viss um að Fífa vilji spila þetta aftur við mig því ég grísaði alltaf á að vinna hana. Svo spilaði ég líka eitt skipti við Hildigunni og vann hana líka. Greinilega ekki bara byrjandaheppni. Hæfileikar hér…

Hvað var ég að gera?

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 00:09

Fengum okkur flögur og ostasósu áðan. Smá ostasósa svo eftir. Ég: á ég ekki að ganga frá þessari slettu? Hildigunnur: Jú gerðu það endilega. Ég tók krukkuna út úr ísskápnum, mokaði afgangnum úr henni í skálina, sem við vorum með. Setti síðan krukkuna í vaskinn til að skola úr henni. Fattaði síðan hvað ég hafði gert…

Algerlega úti á þekju.

2007-10-7

Éppaaular

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:15

Eins og oft áður þá fórum við að útrétta á sl. fimmtudag. Fórum í nýju Krónuna í Fiskislóð úti á Granda. Fín búð en bílastæðin þar eru pínu þröng. Allavega, við erum komin þarna og að leita okkur að bílastæði. þá er þarna einhver á jeppa og er alveg þvílíkt að vandræðast. Sat bara sem fastast og beið eftir að aðrir færðu sig. Sem að þeir áttu í miklum erfiðleikum með því að jeppinn var þvílíkt fyrir. Hins vegar hefði jeppaeigandinn alveg getað farið áfram yfir smá ójöfnu og leyst málið á einfaldan hátt. Endaði á því að ég nennti ekki að bíða lengur eftir að hann hreyfði sig (var búinn að bíða í talsverðan tíma eftir því að eitthvað gerðist hjá honum og það var alveg yfirdrifið pláss fyrir hann) og tróð mér framhjá. Þarna finnst mér eina afsökunin fyrir því að eiga jeppa vera farin veg allrar veraldar.

Farsumagru

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:03

Rákumst á þennan rétt einhvern tímann í vor. Þetta er sikileyskur réttur, kálfakjötsrúlla fyllt með eggjum, skinku, beikoni, osti og fleira góðgæti. Okkur fannst hann svo spennandi að við urðum að prófa. Buðum fólki í mat núna um helgina og hentum okkur í djúpu laugina.

Hér er svo smá myndasería af farsumagrugerðinni.

Kálfakjötið flatt út

Fyllingin að taka á sig mynd

Fyllingin tilbúin

Rúllan tilbúin til matreiðslu

Farsumagru � allri sinni dýrð.

Þetta er alveg smá vesen en gaman að hafa prófað þetta. Það flottasta við þennan rétt er þegar sneiðarnar eru skornar þá eru egg í miðjunni umkringd af hinu gúmmulaðinu, eins og sjá má hérna:

Rúllan skorin

2007-10-3

Fíkniefnahundur í heimsókn

Filed under: Skilorðið — Jón Lárus @ 23:37

Í gær í vinnunni komu skyndilega tveir ábúðarfullir lögreglumenn með fíkniefnahund í bandi inn í salinn til okkar. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Hundurinn tók nánast beint strik að einum vinnufélaga mínum. Sennilega langbest lykt af honum. Málið skýrðist svo því einn af vinnufélögum mínum þekkti annan lögregluþjóninn. Verið að þjálfa nýjan leitarhund og lögreglan fær aðstöðu meðal annars hjá okkur. Eins gott að vera hreinn í vinnunni.

2007-10-2

Eruði ekki að grínast?!

Filed under: Hneykslun,Ruglið — Jón Lárus @ 22:21

Var að fletta Blaðinu áðan. Þá er þar heilsíðu jólaauglýsing! Hvað er í gangi?! Það er 2. október. Ég get skilið að hannyrðabúðir byrji snemma að auglýsa jólaklukkustrengi og aðrar hannyrðavörur, sem tengjast jólunum en þetta er bara algerlega út úr korti! Ætli að IKEA komi þá ekki bara í næstu viku með sínar jólaauglýsingar. Hnuss.

Smá misskilningur

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 22:14

Vikulegi boltinn áðan. Í stuttu máli sagt. Liðið mitt var flengt. Vörnin hjá okkur eins og gatasigti. Samt höfðum við rætt um að spila T vörn.

Eftir leikinn þá vorum við að ræða um hvað vörnin hefði verið slök. Þá kom hjá einum: Ætluðum við ekki að spila t vörn? Ekki að undra að þetta hafi farið eins og það fór.

Bloggaðu hjá WordPress.com.