Strč prst skrz krk

2011-04-23

Seinna eggið

Filed under: Ýmislegt,Hátíð — Jón Lárus @ 23:03

sem við gerum í ár var svo gert í kvöld. Að þessu sinni gerðum við tvennt sem við höfum ekki prófað áður. Fyrra atriðið var að við tempruðum súkkulaðið. Eftir að hafa brætt súkkulaðið í vatnsbaði þá tókum við 2/3 af súkkulaðinu og kældum úr ca. 50°C niður í 28°C. Blönduðum því svo aftur saman við afgangs þriðjunginn sem var þá við u.þ.b. 37°C. Eftir blöndunina var súkkulaðið um 32°C sem er kjörhiti. Hin nýjungin var að við smurðum einni til einni og hálfri matskeið af súkkulaði í formin og hentum svo í frysti í 5 mínútur. Endurtókum svo þangað til súkkulaðið var búið. Með þessu móti gekk mun hraðar fyrir sig en venjulega að mynda skelina og þykktin á henni varð líka mun jafnari. Nú er bara spurning hvrot að súkkulaðið haldi glansinum eða hvort það mislitist eins og þau hafa gert þegar súkkulaðið er ekki temprað. Ef þetta gengur vel þá verður þessi aðferð notuð í framtíðinni.

2011-04-5

Heimur versnandi fer…

Filed under: Ýmislegt,Bílar — Jón Lárus @ 21:35

Rakst á gott dæmi um það um helgina. Tók á mig rögg og ákvað að bóna bílinn. Byrjaði á því að skólpa af honum. Varð náttúrlega að kaupa tjöruleysi til að ná af honum tjörusulli síðustu vikna. Athugaði síðan hvort ég ætti eitthvað eftir af bóni. Jú það voru restar í tveimur dollum; varla þó nóg til að bóna eina umferð. Ég kíkti því inn í bensínsjoppuna hjá bílaþvottaplaninu. Nei, þeir áttu ekki Mjallarbón. Ákvað því að prófa Olís, hef venjulega keypt þetta bón hjá þeim. Þeir áttu þetta heldur ekki til og prófaði ég þó á tveimur mismunandi stöðum. Ákvað því að prófa til þrautavara að kíkja í Excel búðina. Ekki heldur til þar. Eftir að hafa skoðað bónúrval á fjórum bensínstöðvum þá lítur út fyrir að ekki sé lengur hægt að fá Mjallarbón, besta bón sem um getur.

Fór svo að hugsa betur um þetta. Ég veit alveg af hverju þetta bón selst ekki lengur. Það er rosalega gott; bónhúðin endist í marga mánuði en það er líka erfitt og tímafrekt að bóna með því. Lítur greinilega út fyrir að fólk vilji heldur kaupa hraðbón sem er hægt að sulla á bílinn á örskammri stundu en endist ekki nema nokkrar vikur í mesta lagi.

Þetta bónævintýri mitt endaði á því að ég keypti eitthvað Sonax bón sem er meint gott. Byrjaði samt á að nota Mjallarbónrestarnar sem ég átti og þær dugðu til að klára bílinn. Líklega samt í síðasta skipti sem ég nota það.

2011-03-29

Vorboðar

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:14

Ég held að vorið sé komið núna. Á leiðinni heim úr vinnunni þá mætti ég tveimur götusópurum. Sá svo einn álengdar. Stígarnir orðnir snjólausir og meira að segja búið að sópa upp mölinni. Skýrara verður þetta varla.

2011-02-17

Mylla Eschers

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:34

lifnar við í þessu myndbandi. Vel gert, hvernig svo sem sá sem gerði myndbandið fór að þessu.

2011-02-2

Grunsamlegur náungi á Njálsgötunni

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:31

Við mundum eftir því í morgun, þegar ég var búinn að galla mig upp til að hjóla í vinnuna, að það þyrfti að kíkja á stöðuna á frostleginum á bílnum. Ég út í lambhúshettu og fullum skrúða með vasaljós og flösku af frostlegi. Þegar ég var búinn að tékka á stöðunni og ætlaði að læsa bílnum þá vildi hann ekki læsast. Ég skildi ekkert í því þar sem ég hafði bara opnað bílstjóramegin og svo húddið og hvort tveggja var vandlega lokað. Prófaði aftur og ekkert gekk. Opnaði bílstjóramegin og þá fór þjófavarnarkerfið í gang. Náði sem betur fer að slökkva fljótt á því. Tékkaði hinu megin og sá þá að ekki var nógu vel lokað. Bætti úr því og gat þá loksins læst bílnum. Ekkert grunsamlegt.

2011-01-23

Bjórvöndur

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:48

Fékk ekki blómvönd á bóndadaginn. En fékk bjórvönd. Ekkert ósáttur við það.

2011-01-17

Amxistar

Filed under: Ýmislegt,Málið — Jón Lárus @ 23:38

Nokkuð gott nýyrði sem ég sá í pistli Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttó í dag.

2011-01-11

Klakastykki

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:01

Ég átti leið út á Seltjarnarnes fyrir nokkrum dögum. Rak þá augun í þennan vatnspóst, sem var eitt klakastykki. Fékk svo Freyju til að taka nokkrar myndir.

Klakastykki
Ísskúlptúr

Ef vel er að gáð sést vatnsbunan á þessari:
Ísskúlptúr með vatnsbunu.

Svell
Svell.

Mesta furða samt að vatnið hafi ekki frosið í vatnspóstinum. Þetta tekur örugglega nokkra daga að bráðna þegar kemur hláka.

2010-12-17

Fríkað út í búðinni?

Filed under: Ýmislegt,Vinnan — Jón Lárus @ 22:50

Fékk jólapakka frá vinnunni núna í vikunni. Eins og undanfarin ár þá samanstóð pakkinn að mestu leyti af matvælum af ýmsu tagi; reyndar fjölbreyttari núna en oft áður. Ég var nátttúrlega á hjólinu, eins og oftast, og hafði því ekkert allt of mikið pláss í skjattanum. Ákvað því að taka heim í fyrstu lotu það sem þurfti á kælingu að halda. Henti því í pokann reyktum og gröfnum laxi, tveimur mismunandi hvítmygluostum, hreindýrakæfu, ítalskri pylsu og stórum pakka af soðinni en óskorinni skinku (held ég sé ekki að gleyma neinu). Hjólaði svo áfallalaust heim og henti öllu inn í ísskápinn. Svo kom Hildigunnur heim, ég mundi að sjálfsögðu ekkert eftir því að segja henni frá því að ég hefði fengið pakka frá vinnunni. Svo opnaði hún ísskápinn og sá hvert matgæðingsstykkið á fætur öðru og í nokkrar millisekúndur giska ég á að hún hafi hugsað: Ekki sleppa Jóni einum út í búð…

2010-09-5

Hlemmur

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:33

Mér finnst, þar sem á nú að leggja Hlemm af sem strætómiðstöð, að eigi að nota tækifærið til að gera eitthvað uppbyggilegt þarna. Staðurinn í dag er alveg hryllilegur og hefur lengi verið. Það væri til að mynda hægt að rífa skrambans hjallinn, sem er með þeim ljótari í þessari borg og er þó af nógu að taka. Í staðinn mætti gera lítið torg eða garð. Þar mætti gjarnan vera gosbrunnur en af þeim ert all of lítið í þessari borg.

2010-08-2

Plastkaffi

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 11:45

Uppgötvaði í morgun þegar ég kom upp að kaffið var búið! Eftir æðisgengna leit tókst mér að grafa upp eitthvað eldgamalt plastkaffi. Það var svo mikið gervikaffi að það þoldi ekki nema 80° heitt vatn. Gæti neyðst til að fara og fá mér espresso, svona þegar einhvers staðar verður opnað á eftir.

2010-05-31

Japanskir frasar

Filed under: Ýmislegt,Stríðni — Jón Lárus @ 22:02

Ég, Finnur og Fífa vorum eitthvað að tala um japönsku um daginn. Man ekki alveg hvernig það kom upp en Fífa spurði okkur Finn hvort við vissum hvað kamikaze þýddi.

Já, sjálfsmorðsflugmaður svaraði ég. Fífa: Nei, úr hvaða orðum er kamikaze samsett og hvað þýða þau? Ég, það er mikill vindur eða eitthvað í þá áttina. Fífa: Kami er guð og kaze er vindur, þú varst ekki langt frá því. Ég, en Fífa veistu hvað karaoke þýðir? Fífa, nei ég er ekki alveg viss. Ég: Kara = ömurleg og oke = tónlist. Fífa: Já er það? Ég, tíhíhí.

2010-04-13

Verkfæratap

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:56

Fyrir nokkrum árum áskotnaðist mér ævisaga manns, Páls Kristjánssonar að nafni, sem bjó hér að Njálsgötu 6 í hátt í 40 ár. Páll var smiður og var um tíma með verkstæði í húsinu. Bókin er árituð af höfundi. Ég þrælaðist nú í gegnum hana á sínum tíma en óhætt er að segja að hún er talsvert torf.
Páll þessi hafði skráð ævisöguna sjálfur og gefið hana líka út sjálfur sýnist mér. Hefði ekki veitt af að hafa ritstjóra að verkinu en hvað um það.
Í henni er að finna skemmtilega vísu, sem er ort um gleyminn smið í Arnarfirði (Páll var þaðan). Ef eitthvað er að marka vísuna þá skildi hann eftir sig verkfæraslóð út um allan hreppinn. Í henni koma fyrir öll býli í Auðkúluhreppi í réttri röð eins og þau voru á fyrstu árum tuttugustu aldar. Vísan er eignuð Óskari Bjarnasyni frá Stapadal og fer hún hér á eftir:

Verkfæratap

Hefil í Hokinsdal,
ljá á Laugabóli,
hamar á Horni,
skóflu í Skógum,
öxi í Ósi,
kúbein á Kirkjubóli,
boltaklippur á Borg,
dixil á Dynjanda,
rissmát á Rauðsstöðum,
hallamál á Hjallkárseyri,
gatasög á Gljúfurá,
kíttisskröpu á Karlsstöðum,
rasp á Rafnseyri,
hófjárn á Húsum,
meitil í Mýrarhúsum,
klaufhamar á Kúlu (Auðkúlu),
flettisög á Fögrubrekku,
axarhaus í Árbæ,
lóðhamar á Lónseyri,
torfljá í Tungu,
tréblýant á Tjaldanesi,
svæisög á Svalbarða,
bjúghníf á Baulhúsum,
hlaðstokk í Hlaðsbót,
beygistöng á Brekku,
alinmál á Álftamýri,
steinbrýni í Stapadal,
hálfan hníf heima í Bænum,
hefilstönn á Hrafnabjörgum,
nafar á Neðri Björgum,
langhefil í Lokinhömrum,
gluggahefil á Garðsstöðum,
al á Aðalbóli.

2010-02-17

Stungið á kýlum

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 21:58

Sigrún Davíðsdóttir er óþreytandi við að fletta ofan af slúbbertum með pistlum sínum í Speglinum (Spegillinn er algjör toppþáttur). Hún leggur greinilega mikla vinnu í þetta og útkoman er líka ótrúlega flott. Ég missi alltof oft af þættinum en sem betur fer getur maður lesið pistlana á ruv.is.

2010-02-7

Búðarferð sem fór úr böndunum

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 11:12

Í gærmorgun þegar ég ætlaði að fara að byrja á mughlai lambalæri fyrir kvöldið þá komst ég að því að það vantaði lauk. Ég ætlaði fyrst að hlaupa út í Krambúð en mundi svo eftir því að það vantaði líka jógúrtstartara og bláa mjólk. Þannig að ég ákvað að fara frekar í Bónus við Hallveigarstíg. Á leiðinni út þá kom Fífa heim úr vinnunni. Hún var glorsoltin og langaði til að búa til túnfisksalat. En til að geta gert það vantaði sýrðan rjóma og egg. Ég sagði henni að koma með mér því ég gæti ekki munað svona mörg atriði í einu. Þegar út í búðina var komið þá datt eitt og annað ofan í körfuna. Þegar á kassann var komið þá fylltu innkaupin orðið tvo plastpoka. Talandi um fjöður og fimm hænur.

2010-01-17

Ömurlegasti dagur ársins

Filed under: Ýmislegt,Ruglið — Jón Lárus @ 23:01

er að þessu sinni á morgun. Þetta þóttist Cliff Arnall, sem á sínum tíma kenndi við Cardiff háskóla hafa fundið út (sjá m.a. hér).

Ástæðan er að jólin og áramótin eru löngu búinn. Vísareikningur yfirvofandi. Næsta útborgun dekkar engan veginn eyðsluna. Það er ennþá dimmt og kalt og það er mánudagur.

2010-01-7

Fyrsta skóladaginn,

Filed under: Ýmislegt,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 22:49

á þriðjudaginn, þá fannst úlpan hans Finns hvergi. Það var leitað í dyrum og dyngjum. Endaði á að drengurinn fór í snjógallanum í skólann. Seinna um daginn þá var svipast frekar um eftir henni en engin fannst úlpan. Við vorum frekar pirruð yfir þessu en skildum þetta samt ekki alveg því við vissum ekki til að hann hefði farið neitt í úlpunni um jólin, hvað þá að hann hefði komið úlpulaus til baka.

Í gær kom svo Tómas frændi Finns í heimsókn. Stefanía mamma hans kom síðan að sækja hann. Á meðan guttinn var að tína saman pjönkur sínar (og klára staðinn í leiknum) spjölluðum við Stefanía aðeins saman. Meðal annars barst í tal að úlpan hans Finns hefði týnst á einn eða annan hátt. Þegar ég er rétt búinn að sleppa síðasta orðinu í þeirri lýsingu verður mér litið upp á fatahengi. Blasir þá ekki úlpan við mér. Frekar fyndið.

Manni dettur náttúrlega ekki í hug að leita svona hátt uppi. Yfirleitt liggja svona hlutir á gólfinu…

2009-12-11

Meira af penslasápu

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 20:50

Fyrir nokkrum dögum átti ég erindi í Húsasmiðjuna. Rak þar augun í penslasápubrúsa eins og ég keypti um daginn og frægt er orðið. Nema hvað, af rælni ákvað ég að athugaði hvað sápan kostaði í Húsó. 1370 kall (held ég frekar en 1270) takk fyrir! Þokkalegt okur. Ég keypti minn brúsa í Brynju á 950 kr. þannig að mér er nokk sama hvort brúsinn kostaði 1270 eða 1370.
Þetta er nú allt sem við vesalings neytendurnir berum úr býtum við hagræðinguna af keðjumyndun á borð við Húsó/Byko. Pínulítil smáverslun á Laugavegi býður upp á miklu betri kjör í mörgum tilvikum.

2009-12-7

Lottó

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:07

Það hljóp heldur betur á snærið hjá mér áðan. Fór út í sjoppu og lét renna miðanum frá síðustu helgi. Kassinn kom með fagnaðarlæti en birti enga tölu. Guttinn sem var að afgreiða vandræðaðist eitthvað smá yfir þessu en svo kom í ljós að ég hafði unnið 25.000 kall. Ekki slæmt! Ég hafði fram að þessu aldrei fengið meira en 3 rétta í lottóinu.

2009-11-21

Bruðl

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:59

Mættum á Laugarnesveginum í morgun einum risapallbíl. Með einkanúmerinu: BRUÐL. Greinilegt að þessi var með smá húmor fyrir sjálfum sér.

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.