Strč prst skrz krk

2008-09-30

Hjörvi

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:08

Ég var alveg þokkalega utan við mig áðan. Ákvað að skella mér út að mála smávegis á hússökklinum, sem ég hafði ekki náð að klára áður en við fórum út. Tíndi til málningu, pensil og rúllu. Hellti málningunni í bakka og renndi yfir þessa 3-4 staði. Þegar ég var að pakka saman þá rak ég augun í málningardolluna. Hjörvi?! HJÖRVI?! En það er ekki notaður Hjörvi á sökkulinn! Þá hafði ég óvart gripið þaklitinn og notað hann á sökkulinn og ekki tekið eftir því þar eð litirnir eru mjög svipaðir. Maður hristir nú bara hausinn yfir þessu.

Bugatti

Filed under: Bílar,Myndir — Jón Lárus @ 22:57

Veyron er bara flottasti bíll, sem til er.

Bugatti Veyron

Rákumst á búð úti í Berlín þar sem er hægt að kaupa þennan bíl. V16 vél, 1001 hestafl, hámarkshraði 407 km/klst. Eyðsla 40 l á hundraðið í innanbæjarakstri. Ætli verðið sé ekki komið yfir 300 milljónir eins og gengið er núna. Fyrir þá, sem hafa ekki efni á Bugatti voru líka til sölu Bentleyar í sömu búð. 20-30 milljón kr. stykkið. Ekkert ósnotrir heldur svosem.

2008-09-23

Er ekki að

Filed under: Hm? — Jón Lárus @ 22:06

fatta í Singing bee hvað er verið að gera með kynni, sem bablar á íslensku. Kúl nafn á þættinum og svo er þetta eyðilagt með lummulegum kynni. Reyndar líka spurning hvað allt þetta íslenska muzak er að gera þarna. Væri ólíkt svalara að spila bara engilsaxneskt popp.

2008-09-21

Sorpu

Filed under: Nördismi — Jón Lárus @ 23:42

tékk.

Ákvað að tékka á því hvað við framleiðum mikið af sorpi, sem er urðað, hér á heimilinu. Er búinn að vigta allt, sem fer út í tunnu núna í hálfan mánuð og er bara nokkuð sáttur við niðurstöðurnar. Mér sýnist að á þessum hálfa mánuði þá sé hent út í tunnu rétt tæplega 1 kg af sorpi á dag. Gerði sams konar könnun fyrir svona 4-5 árum og þá var niðurstaðan 1,25 kg á dag.

Held að meðaltalið hér á Reykjavíkursvæðinu sé u.þ.b. 1 kg af sorpi á haus á dag. Ef það er rétt munað hjá mér þá framleiðum við ekki nema 1/5 af meðaltalinu enda flokkum við til endurvinnslu bókstaflega allt, sem hægt er að flokka. Eina sem við gerum ekki er að vera með jarðgerð úr matarafgöngum. Þegar við stígum það skref verður ekki mikið eftir fyrir tunnuna.

2008-09-19

U turn

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:23

þokkalega flott dómínó eftir einhvern, sem kallar sig Flippy cat.

Magnað.

2008-09-17

Lúxuslíf

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:20

hjá mér þessa dagana. Búinn að vera á bíl tvo daga í röð! Eitthvað, sem hefur ekki komið fyrir síðan í apríl held ég. Fór ekki einu sinni á hjóli í boltann í gær. Þetta er nú annars svolítið þægilegt. Liggur við að maður gæti vanist þessu.

Loppa

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:11

lenti í smá hremmingum í gær. Ég var að pakka saman svefnsófanum niðri í sjónvarpsherbergi. Búinn að brjóta hann saman og ýtti síðan skúffunni undir honum inn. Eitthvað gekk það treglega, hún vildi ekki alla leið. Ég prófaði að ýta aðeins fastar en ekkert gekk. Togaði skúffuna út aftur og þá kom köttur stökkvandi út undan henni. Trúi samt ekki að ég hafi klemmt hana því það heyrðist ekkert hljóð. Hún var samt greinilega skelkuð eftir þessa lífsreynslu.

2008-09-13

Náði annars Fífu

Filed under: Stríðni — Jón Lárus @ 23:14

ansi vel í morgun.

Hún sagðist vera að fara eitthvað að fara niður í bæ. Hitta vinkonur eða eitthvað. Ég spurði hana þá hvort hún yrði komin fyrir miðnætti. Fífa, hreytti þá út úr sér: „PABBI!“.

Hellidemba

Filed under: Veðrið — Jón Lárus @ 16:12

Það er ekki oft, sem maður sér eins rosalega dembu eins og var að ganga yfir rétt í þessu. Við Hildigunnur fórum út í dyr til að horfa á úrhellið. Feginn að hafa ekki verið úti að hlaupa akkúrat á meðan þetta gekk yfir.

2008-09-11

Annars

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:31

er mesta furða hvað gengur hægt með þennan heimsendi þarna í gær. Kannski þurfa þessi litlu svarthol, sem mynduðust samt smá tíma.

Sóley

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:21

hvar ertu? Karlrembusvín hvað?

2008-09-7

Dómaraskandall

Filed under: Formúla 1 — Jón Lárus @ 20:00

Á ekki orð til að lýsa úrslitum Spa kappakstursins, sem fram fór í dag. Hamilton vann eftir frábæran akstur. Því miður féll Raikkönen út á næstsíðasta hring, hefði svo sem alveg átt skilið að vinna því hann hafði forystuna nánast alla keppnina.

Þegar 3 hringir voru eftir fór að rigna. Hamilton, sem hafði fylgt Kimi eins og skugginn var miklu fljótari en hann í bleytunni og reyndi framúrakstur, sem gekk ekki upp. Kimi gaf ekkert pláss þótt Hamilton væri kominn með framhjólin framúr. Hamilton neyddist þá til að gefa eftir og skera næstu beygju og var þá kominn fram úr Kimi. Þar sem Hamilton græddi á því varð hann að gefa sætið aftur til baka, sem hann gerði. Hélt sig svo rétt á eftir Kimi og tók framúrakstur í næstu beygju. Þar ók Kimi svo aftan á Hamilton og skemmdi framvæng við það. Næsta hring var Kimi svo á hælunum á Hamilton þar til þeir komu að stað þar sem bíll hafði farið útaf og gulum flöggum var veifað. Hamilton hægði á sér en Kimi ekki og náði forystunni aftur (framúrakstur er bannaður undir gulum flöggum en því misstu þessir amatördómarar af). Nokkrum beygjum síðar missti Kimi stjórn á bílnum, ók á vegg og féll úr leik. Hamilton náði síðan að klára síðasta hringinn án vandræða.

Eftir keppnina tilkynntu dómarar keppninnar að atvik milli Kimi og Hamilton yrði skoðað. Niðurstaðan varð síðan sú að Hamilton var refsað með því að bæta 25 sek. við tímann, sem þýddi að hann féll úr fyrsta sæti niður í það þriðja. Afleiðingin er sú að Massa (annar í heildarkeppninni) erfir fyrsta sætið án þess að hafa sýnt nokkurn skapaðan hlut í kappakstrinum.

Nú kynnu einhverjir að segja að hafi Hamilton gert eitthvað af sér þá eigi að refsa honum. Að sjálfsögðu er það þannig. Hins vegar gerði hann allt rétt, gaf eftir sæti þegar hann vann það á ólögmætan hátt. Hins vegar er ekkert, sem segir að hann megi ekki taka fram úr aftur. Svona atvik hafa komið margoft upp og ég hef aldrei á þeim 11 árum, sem ég hef fylgst með formúlu 1 séð refsað fyrir svona lagað. Til dæmis í Kanadakappakstrinum þá notaði Vettel sér þetta þrisvar a.m.k. til að halda Kovalainen á eftir sér. Engin refsing þar. Þar hefði þó einmitt átt að beita refsingu því keppandi græddi á að skera beygju en gaf sætið ekki eftir. Man samt eftir einu eða tveimur tilvikum þar sem var beitt refsingu en þá hafði ökumaðurinn, sem vann sæti með því að skera beygju ekki gefið sætið eftir aftur.
Annað furðulegt atvik átti sér líka stað. Þar var hinn McLaren ökumaðurinn, Kovalainen í aðalhlutverki. Hann var að reyna framúrakstur, sem misheppnaðist og endaði á því að bíllinn hjá þeim sem hann reyndi að taka framúr snerist. Kovalainen fékk refsingu fyrir þetta. Sanngjarnt að öllu öðru leyti en að svona lagað hefur komið fyrir í nánast öllum keppnum á þessu tímabili. Þarna var samt ökumanni refsað í fyrsta skipti fyrir svona atvik. Samkvæmni í dómum afskaplega lítil.

Hér að neðan má sjá þetta atvik á myndbandi:

Í lokin er hér svo vísun í grein, sem lýsir þessu afar vel. Skoðaði svo ítölsku pressuna og meira að segja þar er talað um durissimo (afar strangt) í sambandi við þessa dómgæslu.

Maður fer að hallast að því að formúla 1 sé keppni þar sem 20 bílar keppa og að lokum vinni Ferrari.

Fornbílarall

Filed under: Bílar,Myndir — Jón Lárus @ 14:29

Skaust niður að ráðhúsi í morgun þegar verið var að ræsa af stað í fornbílarallið, sem haldið er þessa vikuna. Eitthvað um 70 áhafnir, af ýmsum þjóðernum, sem taka þátt. Smellti af nokkrum myndum af herlegheitunum. Margir mjög flottir.

Þessi fannst mér flottastur, u.þ.b. 50 ára gamall Citroën DS.

Flestir virtust nú vera að þessu fyrir gamanið. Þessir voru þeir einu, sem ég sá þar sem nafn og blóðflokkur kom fram á bílnum. Virtust vera í þessu fyrir alvöru.
Jaguar Mark II

Og svo þrír flottir hérna. Silfurlitaði Jagúarinn ekkert smá glæsilegur.
Nokkrir flottir

Verst að mynd af einni áhöfninni, sem var útbúin með leðurhúfur og gamaldags hlífðargleraugu virðist hafa misheppnast.

2008-09-5

FLU

Filed under: Nördismi,Ruglið,Vinnan — Jón Lárus @ 22:00

Það kom eitt ansi gott símtal inn á þjónustuborðið okkar í dag. Við frammi í sal heyrðum allt í einu að strákarnir á þjónustuborðinu gjörsamlega sprungu úr hlátri. Skömmu síðar kom einn þeirra og útskýrði hvað hafði gerst. Þá hafði hann fengið símtal, sem hljóðaði einhvern veginn á þessa leið:

Starfsmaður: „Er þetta þjónustuborðið?“
Þjónustuborð: „Já, hvað er málið?“
S: „Internetið er ónýtt hjá mér!“
Þ: „?!“
Þ: „Hvað áttu við?“
S: „Ég get ekkert gert.“
Þ: „Bíddu, leyfðu mér að yfirtaka vélina þína.“
Þjónustuborð yfirtekur vélina og sér að vafrinn hefur verið stilltur á að þekja allan skjáinn og síðan ýtt á F11 þannig að stikurnar voru faldar.
Þ: „Þetta er ekkert mál, smelltu bara með músinni á gluggann og ýttu svo á F11.“
S: „Það virkar ekki!“
Þ: „Smelltu með músinni á gluggann og ýttu svo á F11.“
S: „Ég reyndi aftur og það gerist ekkert!“
Þjónustuborðið endurtekur fyrirmælin enn einu sinni og nú einstaklega hægt og skýrt.
S: „Ó, ég hélt þú ættir við að slá inn FLU“

Óborganlegt!

2008-09-3

Vasapeningar

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:22

Finnur fékk vasapening í fyrsta skipti á ævinni í dag. Hann var mjög stoltur yfir þessu. Ekki kominn samt enn með nein plön um fyrir hverju hann ætli að safna. Ætli það verði nú ekki fljótt að breytast.

Það er skammt

Filed under: Fjallganga,Fjölskyldan — Jón Lárus @ 23:20

stórra högga á milli. Hafði ekki gengið á Esju í örugglega a.m.k. 10 ár þangað til á síðasta sunnudag. Í dag skelltum við okkur (ég, Hildigunnur og Finnur) í berjamó í Esjunni. Hildigunnur útlistar þetta nánar hér. Fífa er þá sú eina úr fjölskyldunni, sem hefur ekki komist í Esjugöngu í þessari lotu. Spurning um að reyna að bæta úr því á næstu dögum.

2008-09-2

Fyrsti

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:57

innanhússboltatími haustsins var í kvöld. Ég er gjörsamlega búinn eftir hann. Ekki það að ég á að vera í fínu formi, búinn að hjóla í allt sumar. Þetta er bara svo allt önnur hreyfing. Sprettir, sem slátra manni alveg. Þarf að taka nokkrar sprettæfingar, það er á hreinu.

Ánægjulegt að mitt lið náði að landa sigri, 34-30. Samt óþarflega naumur sigur því við náðum að komast 10 mörkum yfir, 30-20. Slökuðum einum of mikið á í lokin og andstæðingarnir gengu á lagið.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.