Strč prst skrz krk

2010-11-17

Meira landafræðinám

Filed under: Nám,Ruglið — Jón Lárus @ 22:32

Núna var drengurinn að læra um Vestfirði í landafræðinni. Hann átti að gera krossgátu með ýmsum staðaheitum og örnefnum. Meðal annars var spurt um vestasta odda Íslands og Evrópu. Ég sagði við Finn að það væru Bjargtangar. Skömmu síðar sagði Finnur að það passaði ekki inn í krossgátuna. Ég varð alveg hlessa og fór að skoða þetta með honum. Þá kom í ljós að í námsefninu var vestasti oddinn sagður vera Látrabjarg! Sem er náttúrlega alger þvæla.

2010-11-11

Landafræðinám

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 12:10

Finnur var að vinna heimaverkefni í landafræði í gærkvöldi. Efnið var landafræði vesturlands. Gekk nú frekar rólega hjá honum þannig að ég settist niður með honum svona til að halda honum við efnið. Eitt af verkefnunum var að nefna tvo jökla. Hann varð frekar fúll þegar ég sagði að hann yrði að finna annan jökul en Snæfellsjökul þar eð hann hefði nefnt hann sem eitt af fjöllum landshlutans. Ég benti honum á að finna landabréfabókina og athuga hvort hann sæi ekki einhverja jökla í henni. Hann fékkst nú til þess. Ég vissi síðan ekki hvert hann ætlaði þegar hann sá jökulinn Ok. Fannst þetta alveg gríðarlega fyndið. Síðan ruddi hann út úr sér nokkrum ok bröndurum. Tók langan tíma að koma honum á beinu brautina aftur.

2010-04-21

Ég var að átta mig á því

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 23:05

að núna í sumar eru 20 ár síðan ég útskrifaðist frá Háskóla Íslands! Hvernig er þetta hægt?

2008-12-17

Stelpurnar

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 21:29

fengu niðurstöður úr prófunum sínum í dag. Fífa í MH og Freyja úr samræmdu prófunum. Þær stóðu sig báðar ljómandi vel, eins og þeirra er von og vísa.

Freyja fékk 8,5 bæði í íslensku og stærðfræði. Bætti sig verulega í stærðfræðinni. Fífu gekk líka mjög vel. Held að meðaleinkunnin hafi verið 9. Ekki illa af sér vikið. Sérstaklega var íslensku einkunnin hennar flott. Fékk 9, þar sem 60% nemenda féllu!

Ekkert smá stoltur af þeim báðum.

2008-06-3

Ekki getur

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 19:20

maður nú skilið Freyju og Finn útundan. Stóðu sig bæði mjög vel. Hjá Hildigunni má sjá nánari lýsingu á einkunnunum. Læt ég nú þessum montfærslum lokið í bili.

2008-06-2

Meira mont

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 22:27

Vorum að koma heim úr útskrift úr Austurbæjarskóla. Glæsilegur árgangur. Fífa stóð sig eins og hetja. Fékk tvenn verðlaun, annars vegar fyrir að vera með meðaleinkunn yfir 9 og hins vegar fyrir góðan árangur í dönsku. Það voru held ég 10 nemendur, sem fengu verðlaun þar af 8 stelpur.

Hildigunnur á örugglega eftir að henda inn myndum af útskriftinni. Ég skutla inn tengli þegar það gerist.

2008-05-31

Fífa

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 20:24

stóð sig eins og hetja í samræmdu prófunum. Hún fékk 8,5 í dönsku og náttúrufræði, 9,0 í ensku og íslensku og svo 9,5 í stærðfræði. Ekki smá flott hjá henni.

2008-03-7

Lærdómsvika

Filed under: Nám,Vinnan — Jón Lárus @ 19:49

Er svona hratt og hratt að kúpla mig út úr gömlu forritunum í vinnunni. Í staðinn er komin .net vinna og svo var ákveðið að ég myndi líka fara að læra á WebMethods hugbúnaðinn (samþættingarhugbúnaður). Það bar nú dálítið brátt að og núna í vikunni byrjaði ég að setja mig inn í þann heim.

Nú í lok vikunnar er hausinn alveg að springa af upplýsingum. Líður örugglega ekki á löngu þangað til fara að leka tvíundakerfisbitastraumar út um eyrun ef heldur svona áfram…

2007-11-29

Gína

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 20:00

Fífa gargaði á okkur áðan: „Að gína, er það sterk eða veik sögn?“ Við Hildigunnur: Sterk, gína, gein, ginum ginið. Síðan bætti ég við: Þýðir það ekki annars að klæða gínur í eitthvað?

2007-11-7

Lítill brandarakarl

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 21:02

Við Finnur erum að gera aukastærðfræðina sem við gerum alltaf (eða næstum alltaf á miðvikudögum). Allavega, ég bjó til 80 dæmi fyrir hann. 3 sinnum, 4 sinnum og 5 sinnum taflan komu mikið við sögu. Hann var búinn að gera nokkur dæmi sem ég fór síðan yfir. Hann hafði ruglast á 4*6 og fengið út 22. Ég spurði hann hvort hann væri alveg viss um hvort það væri rétt. Eftir smá umhugsun breytti hann því í 24. Og sagði síðan: Pabbi, geturðu búið til annað svona 4*6 dæmi. Ég gerði það. Þegar hann var búinn með næsta skammt þá var búið að leysa 4*6 dæmið með 22+2. Þegar ég sá þetta þá sprakk hann úr hlátri, fannst þetta alveg ótrúlega fyndið.

2007-10-23

Slagsíðan

Filed under: Nám,Ruglið — Jón Lárus @ 21:14

Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa yfir fréttinni sem birtist í gær um fjölda þeirra sem útskrifuðust með háskólapróf.  Konur eru rúmlega 2/3 af þeim sem útskrifast en karlar innan við 1/3.
Hvernig getur staðið á þessu? Það getur hvorki verið eðlilegt né æskilegt að svona mikil slagsíða sé á kynjahlutföllum, bara á sama hátt og ef slagsíðan væri á hinn veginn.  Þetta er þeim mun einkennilegra þegar tölur þeirra sem útskrifast með framhaldsskólapróf er skoðað.  Þar eru kynjahlutföllin nánast jöfn (52% konur, 48% karlar).

Ég bara skil ekki hvað gerist þarna á milli. Er þetta vegna þess að fleiri strákar fari í iðnnám og taki ekki framhaldsnám eftir það? Fara fleiri karlar í framhaldsnám í útlöndum án þess að klára háskólanám hér fyrst (væntanlega ekki algengt)? Hvernig ætli sé með kynjahlutfallið við byrjun háskólanáms ætli það sé svipað og við lok þess? Og ef fleiri karlar hætta námi án þess að klára gráðu þá væri fróðlegt að vita hver ástæðan fyrir því væri.

Mér finnst þessar upplýsingar vekja fjöldann allan af spurningum og þess vegna er ég hissa á því hvað lítið hefur verið fjallað um þær í fjölmiðlum.

2006-12-19

Námskeiðið

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 23:41

Forritunarnámskeiðið sem ég er búinn að vera á í allt haust er að verða búið. Loksins. Síðasti tími á morgun. Get ekki sagt að einbeitingin sé búin að vera mikil núna í desember.

2006-11-7

Þessa dagana finnst mér alltaf eins og það sé komi…

Filed under: Nám,Vinnan — Jón Lárus @ 21:56

Þessa dagana finnst mér alltaf eins og það sé komin helgi þegar ég er búinn í skólanum á miðvikudögum. Á mánudögum og miðvikudögum er skólinn til hálfellefu og á þriðjudögum er fótboltinn. Alveg búinn þegar ég kem heim á þessum dögum.

2006-10-11

Þreyttur

Filed under: Nám,Ruglið,Vinnan — Jón Lárus @ 23:58

Ekki smá sem þetta er erfitt, þessi kvöld sem ég er á námskeiðinu. Ekki nóg með að þurfa að hugsa í vinnunni heldur líka eftir kvöldmat.

Sá svo eina snilldarfrétt í Fréttablaðinu, held ég frekar en blaðinu, í gær eða fyrradag. Hún fjallaði um skemmdarverk á bíl gott ef það var ekki á Selfossi. Í lokin var sagt að framrúða í bílnum hefði verið eyðilögð talsvert!

2006-09-13

Námskeið

Filed under: Nám,Vinnan — Jón Lárus @ 23:37

Ég fer hvorki á ítölsku né frönskunámskeið á þessari önn. Hins vegar bauðst mér að fara á .Net og C# forritunarnámskeið í boði vinnunnar (Hildigunnur kallar það Cís námskeið). Alvörunámskeið. Tvisvar í viku 3 tímar í senn. Byrjar á mánudaginn og stendur í 3 mánuði. Þetta var tækifæri sem ég gat ekki sleppt.

Veit hvað ég verð að gera í haust.

2006-09-11

Finnur

Filed under: Fjölskyldan,Nám — Jón Lárus @ 22:05

Skutlaði Finni í skólann á föstudaginn á bílnum. Þegar við vorum komnir í skólann þá ætlaði ég að fylgja honum inn í stofuna. Við vorum ekki komnir langt frá bílnum þegar Finnur sagði: „Þarft þú ekki að fara aftur í bílinn pabbi?“

Greinilega ekki það svalasta að vera fylgt að stofunni af pabba sínum…

2006-09-5

Ákvörðun

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 23:39

Er að bræða með mér hvort ég eigi að taka mér pásu í ítölsku og fara kannski að hressa upp á frönskuna í staðinn…

2006-01-31

Þá er fyrsti ítölskutíminn hjá mér á þessari önn. …

Filed under: Nám — Jón Lárus @ 23:58

Þá er fyrsti ítölskutíminn hjá mér á þessari önn. Námskeiðið byrjaði reyndar í síðustu viku en ég neyddist til að skrópa þá. Fínt að byrja aftur.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.