Strč prst skrz krk

2009-09-29

Jei!

Filed under: Boltinn — Jón Lárus @ 21:49

Fyrsti sigurinn hjá mínu liði í innanhússboltanum á tímabilinu. Mjög sætt því ég hafði verið í tapliðinu í fyrstu fjórum tímunum. Þess þá heldur þar sem tveir síðustu leikir höfðu tapast mjög naumlega.

2009-09-21

Brotin flaska

Filed under: Vín — Jón Lárus @ 19:39

Okkur var boðið í matarboð hjá Ester og Snorra, vinum okkar um helgina. Kipptum með einni rauðvínsflösku og settum hana í gjafapoka. Ég lagði pokann frá mér í hugsunarleysi fyrir aftan Hildigunni á meðan ég klæddi mig í skóna. Hún náttúrlega hreyfði sig aðeins, rakst í pokann, þannig að hann fór á hliðina. Það heyrðist smá brothljóð og svo byrjaði að blæða úr pokanum. Eftir nokkrar sekúndur var gangurinn einn stór vínpollur. Við þurftum náttúrlega að hreinsa upp sullið og sem betur fer áttum við aðra flösku og annan poka til að taka með okkur. Held svei mér þá að ég hafi ekki lent í því áður að brjóta vínflösku.

2009-09-17

Hot Cross Camp Yoga

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:20

Eða kannski Hot Boot Fit Yoga. Spurning hvort maður setur ekki saman eitt svona kerfi og mæti næsta haust og stórgræði?

2009-09-13

Eitt af því

Filed under: Veðrið — Jón Lárus @ 23:48

sem mér fannst leiðinlegt við skiptin úr vindstigum yfir í m/s kvarðann var að þá fækkaði þeim skiptum þar sem maður heyrði vindstyrk lýst með mismunandi heitum. Oftast nær núorðið bara þetta og þetta margir metrar á sekúndu. Nú fyrir nokkrum dögum rakst ég á að Einar Sveinbjörnsson er búinn að setja saman lista á Veðurvefnum sínum þar sem hvert stig fær sitt heiti. Nappaði þessu þar:

MÁSEK-kvarðinn
m/sek Heiti
0 logn
1 andvari
2 Blær
3 kul
4 gola
5 súgur
6 gjóla
7 stinningsgola
8 kaldakorn
9 kaldi
10 næðingur
11 strekkingur
12 stinningskaldi
13 gustur
14 blástur
15 þræsingur
16 allhvasst
17 fjúkandi
18 hvassviðri
19 belgingur
20 hryssingur
21 stormur
22 beljandi
23 garri
24 illviðri
25 stóristormur
26 rok
27 hávaðarok
28 öskurok
29 garður
30 ofviðri
31 ofsaveður
32 stórviðri
33 aftök
34 mannskaðaveður
35 fárviðri

Nú verða örugglega einhverjir til að fetta fingur út í þennan lista t.d. með að 19 m/s ætti að vera hryssingur en ekki belgingur en ekki öfugt. Mér finnst þetta hins vegar frábært framtak hjá Einari. Þarna eru mörg góð veðurheiti sem væri synd að færu í glatkistuna.

2009-09-11

Nú rétt í þessu

Filed under: Skilorðið,Stríðni — Jón Lárus @ 00:39

var lögregluvarðstjóri á Selfossi að taka mig í gegn á Flettismettinu. Gamall bekkjarbróðir, sem var ekki alveg sáttur við komment frá mér hjá bekkjarsystur okkar. Skil ekkert í þessu. Uppbyggilegt komment og allt það…

2009-09-7

Núna

Filed under: Fjölskyldan,Tónlistarnám — Jón Lárus @ 19:25

lítur út fyrir að við þurfum að fjárfesta í 13/17 víólu fyrir Finn. Gamla víólan (sem er ekki nein víóla, heldur 1/2 fiðla með víxluðum strengjum) er orðin of lítil fyrir hann. Til að byrja með látum við samt 3/4 fiðlu með víxluðum strengjum duga.

Kryptonít rúlar

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 00:05

Jæja. Kom því loksins í verk í gær að taka stóra hringinn minn á alvöru hjóli. Hann lítur svona út:

Stóri hringurinn

Var búinn að minnast á þetta í færslu um daginn.

Í gær voru aðstæður fullkomnar, hlýtt og nánast enginn vindur. Þannig að ég fékk hjólið lánað hjá bróður mínum og svo var ætt af stað. Í stuttu máli sagt þá gekk allt upp. Ég náði að bæta tímann á 25,5 km um næstum 3 mínútur, úr 56:39 í 53:54. Draumur að hjóla á þessu hjóli. Svo létt. Það sem munaði mestu var að hjóla upp brekkurnar. Þurfti ekki að skipta niður um gír nema í tveimur brekkum. Geðveikt.

Nú þarf ég bara að finna mér alvöru racer og athuga hvað ég tek hringinn á með honum.

2009-09-5

Djúpar pælingar

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:00

hérna. Verð nú að viðurkenna að ég hef aldrei lent í þessum vandræðum, sem lýst er í greininni.

2009-09-3

Harðsperrur dauðans

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:36

Er með svoleiðis núna eftir fyrsta innanhússboltann á þriðjudaginn. Erfitt að lyfta fótunum, vont að ganga. Ekki nóg með það, heldur er ég líka með harðsperrur í efri hluta líkamans. Svo á að heita að maður sé í sæmilegu formi. Virðist ekki vera samkvæmt þessu.

Hringvegurinn II

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 19:57

Skrifaði þessa færslu fyrir tæpu ári síðan. Núna í dag náði ég að klára samsvarandi vegalengd. Rúmlega tveimur mánuðum fyrr heldur en í fyrra. Ekki slæmt.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.