Strč prst skrz krk

2008-07-31

Vona

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 22:40

að það verði ekki skýjað í fyrramálið, þannig að við getum séð sólmyrkvann, sem á að verða þá. Finnur og Fífa hefðu örugglega gaman af því að sjá hann. Þetta er alveg þokkalegasti deildarmyrkvi, u.þ.b. 60% af sólskífunni verður hulin hér í Reykjavík þegar mest verður kl. 9:11.

Hm, það eru fleiri breytur, sem þarf að taka með í reikninginn. Eins og til dæmis: Verður maður vaknaður svona eldsnemma morguns?

2008-07-29

Föðurbróðir minn

Filed under: Fjölskyldan,Minning — Jón Lárus @ 23:45

Björn Stefán Lárusson, Bjössi frændi, dó í dag. Þó að hafi verið vitað í nokkra daga að stefndi í þetta þá er maður nú samt ansi niðurdreginn á þessari stundu. Við bjuggum saman í 6 ár þegar ég var í MH og svo síðar í Háskólanum. Það var fínt að deila íbúð með Bjössa. Man ekki eftir því að okkur hafi orðið sundurorða.

Hildigunnur skrifar fallega um hann hér.

Það fór þó aldrei svo

Filed under: Fjölskyldan,Frí — Jón Lárus @ 19:58

að það kæmi ekki sumar. Annar dagurinn á stuttum tíma þar sem hitinn fer upp í a.m.k. 22° hér í bænum. Ekki sem verstur tími til að vera að byrja í fríi. Ég var nefnilega að byrja í þriggja vikna sumarfríi í gær. Ætlum ekki að fara neitt, sem heitið getur. Bara að taka því rólega, fara í hjólatúra, sund, grilla, dytta að húsinu, spila og almennt hafa það gott.

2008-07-23

Kjötborðsraunir

Filed under: Matur,Ruglið — Jón Lárus @ 21:12

Lenti alveg í þvílíkri bið við kjötborðið í Hagkaupum í Holtagörðum áðan. Hildigunnur kom heim frá Danmörku í dag. Við ákváðum að hafa þokkalegan mat í kvöld, spaghetti bolognese. Það vantaði ýmislegt í það m.a. nautagúllas þannig að ég ákvað að skjótast í Holtagarða á leiðinni heim.

Ég fór fyrst í Bónus og svo í Hagkaup til að kaupa það, sem fékkst ekki í Bónus. Yfirleitt rýkur maður í gegnum búðina því það er næstum aldrei neinn þarna (draumabúð fyrir kaupandann en örugglega martröð fyrir keðjuna). Nema hvað á undan mér við kjötborðið voru tvær konur. Ég get svo svarið það að þær ætluðu bara að kaupa upp allt sem var í borðinu. Þegar ég kom að kjötborðinu þá var verið að handleika risastórt nautainnralærisstykki. þær létu skera það í tvennt. „Geturðu ekki pakkað því inn í lofttæmdar umbúðir?“ Jú, jú ekkert mál. Þegar afgreiðslumaðurinn (bara einn að afgreiða) kom til baka með stykkin í einum lofttæmdum poka þá: „Æi, ég vildi fá þetta í sitt hvorum pokanum!“ Afgreiðslumaðurinn, sem var nota bene mjög þolinmóður bjargaði því við (á meðan litu þær heilt parmaskinkulæri girndaraugum). Síðan ráku þær augun í nautafile, það var keypt líka og eitthvað annað nautastykki líka. Fjögur laxaflök fuku líka í kerruna.

Ég var farinn að hugsa um að ég hefði átt að fara frekar í Nóatún, þá loksins voru þær búnar að ljúka sér af í kjötborðinu. Þá var ég næstur og bað um 150 g af nautagúllasi. Það var ekki til! Ég fór næstum því að gráta. En kjötmeistarinn reddaði þessu í snatri. Tók eina nautastykkið, sem þær skildu eftir (höfðu örugglega ekki séð það), sneiddi smá flís af og saxaði niður í gúllas.

Núna erum við nýbúin að gæða okkur á bólunesu Ekki slæmt, frekar en endranær.

2008-07-21

Best að skella inn

Filed under: Brandarar,Nördismi — Jón Lárus @ 23:01

öðrum nördabrandara.  Fífa heyrir þetta í unglingavinnunni.  Flokksstjórinn, eðlisfræðinemi, er greinilega náma af svona nördabröndurum.  Allavega:

What did i say to pi?

A: Get rational!

But how did pi retort?

A: Get real!

Er Fífa ekki

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 00:03

bara svolítið flott í upphlut?

F�fa � upphlut

Okkur var boðið í grill til mömmu og pabba í kvöld. Fínasta grill eins og venjulega. Einhvern veginn komst Fífa að því að mamma ætti upphlut. Hún varð mjög spennt þegar hún heyrði þetta og fékk að máta. Kom svo í ljós að hún smellpassaði í búninginn eins og ætti að sjást á myndinni.

2008-07-19

E-x skammstafanirnar

Filed under: Íslenska — Jón Lárus @ 22:59

Mér finnst frekar dapurlegt þegar fólk notar þessar skammstafanir án þess, greinilega, að hafa hugmynd um hvernig þær eru myndaðar. Ég fæ t.d. oft tölvupósta þar sem fram kemur skammstöfunin e-h (því miður frá fleiri en einum sendanda). Veit ekki hvað það á að þýða, líklega einhver en er samt ekki viss.

Eins og mér finnst þetta flottar skammstafanir.

Grasekkill

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 20:39

í fjórða og síðasta skipti í sumar. Hildigunnur flogin til Kaupmannahafnar að þessu sinni. Hún verður nú ekki svo lengi í þetta skipti, kemur á miðvikudaginn. Verður ágætt þegar þetta flandur á henni verður búið.

2008-07-17

Ermarsundið

Filed under: Íþróttir — Jón Lárus @ 23:50

Ekki smá glæsilegur árangur hjá Benedikt Hjartarsyni að ná að klára að synda yfir Ermarsundið. Þrekvirki að vera á sundi í 16 tíma. Það sem ég furða mig mest á í sambandi við þetta er hversu mikill hraði hefur verið á honum á leiðinni. Samkvæmt því, sem fram kemur í fréttum synti hann um 60 km á þessum 16 tímum (eða um 3,75 km á klst.). Þetta er fáránlega mikill hraði. Væntanlega hafa nú straumar átt einhvern þátt í þessu en hefur samt greinilega verið mikil ferð á honum.

Bakkabræður

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:00

Ætli það þurfi nú ekki bara að hrinda af stað söfnun fyrir þá Bakkabræður, Lýð og Ágúst. Virði eigna þessara greyja hefur hrunið úr 80 milljörðum á haus í fyrra niður í 19 milljarða á haus núna. Svo gátu þeir ekki einu sinni borgað pylsurnar sínar sjálfir í Baulunni um daginn (ætli þeir hafi fengið lánað hjá flugmanninum). Hefðu bara átt að setja þyrluna upp í pant.

2008-07-13

Mynd

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 23:23

af hliðinu eftir lagfæringar komin hér:

Hlið eftir lagfæringar

Rá-ró

Filed under: Íslenska,Ruglið — Jón Lárus @ 22:35

Sá í Fréttablaðinu í gær var umfjöllun um ráð gegn felguþjófum. Besta mál, nema í greininni var talað um rá og rár í staðinn fyrir ró og rær! Ég hef nú bara sjaldan séð önnur eins ósköp. Veit ekki hvort þetta var blaðamaðurinn eða sölumaðurinn sem vita ekki hvað ró og rær eru!

Finnur sambandslausi

Filed under: Fjölskyldan — Jón Lárus @ 18:33

Í gær þegar við vorum að taka saman dótið til að fara í Skálholt þá átti ég eftir að finna til bækurnar, sem við ætluðum að taka með. Finnur ætlaði að taka með sér Harry Potter 6.

Ég kom upp, Finnur var í tölvunni. Ég: „Finnur hvar er Harry Potter bókin?“ „Já, alveg skemmtileg“ kom svarið. Ég aftur: „Hvar er Harry Potter bókin Finnur?“ „Númer 6.“ Kom frá honum. Ég: „FINNUR, HVAR ER HARRY POTTER BÓKIN?!“ „Já… Niðri á náttborði.“

Talandi um að hlusta á foreldra sína.

2008-07-11

Nýja hliðið

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 11:58

tilbúið og komið á sinn stað (það er að segja lagfært hlið). Ógó flott. Mynd þegar myndavélin mætir á svæðið.

2008-07-7

Tungumálagarpur

Filed under: Ýmislegt — Jón Lárus @ 23:45

eða ekki. Í Tékklandi um daginn þá skildi maður ekki bofs í tékkneskunni. Reyndi samt að læra einföldustu orð eins og halló og bless. Halló var auðvelt, ahoy (eða hvernig svo sem það er stafsett). Bless var hins vegar hrikalega erfitt, naskladano (ábyrgist ekki stafsetninguna). Ekki nokkur leið að muna þetta. Ég var allan tímann að reyna að leggja þetta á minnið. Svo í veislunni eftir tónleikana sagði ég hróðugur við Eydísi: „Nú er ég loksins búinn að læra þetta tékkneska bless, naskledano!“ Hún: „Ágætt hjá þér en Það er nú reyndar naskladano.“ Ég: „Ái.“

Erfið svona mál þar sem maður er ekki með neinar tengingar. Algerlega framandi hljóðheimur. Samt mjög spennandi.

2008-07-5

Íssaga

Filed under: Ýmislegt,Matur — Jón Lárus @ 21:30

Á leiðinni til Tékklands um daginn millilentum við á Kastrup. Meðan við biðum eftir fluginu til Prag þá rakst ég á ítalskan Gestgjafa, sem einhver hafði skilið eftir. Ég hirti blaðið og renndi síðan yfir það í vélinni. Kom í ljós að uppskriftirnar voru flestar frekar óspennandi því þetta var eitthvað megrunarblað.

Það voru samt stöku fróðleiksmolar, sem voru áhugaverðir. Meðal annars rakin saga ísgerðar í stuttu máli. Þar kom meðal annars fram hvernig ís í brauðformi varð til. Ef eitthvað er að marka frásögnina þá varð íssali í Saint Louis í Bandaríkjunum einhvern tíma uppiskroppa með form. Frekar heldur en að selja ekki neitt það sem eftir var dagsins þá fór hann í bakaríið, sem var við hliðina á ísbúðinni og fékk þar kramarhús undir ísinn. Eins og við vitum þá sló þetta umsvifalaust í gegn.

Eftir að

Filed under: Garðurinn,Húsið,Stúss — Jón Lárus @ 15:51

hafa útvegað efni til að gera við læsinguna á garðhliðinu þá fórum við með hliðið í viðgerð hjá járnsmiðnum okkar. Mér datt ekki í hug að hliðlæsingin myndi virka, það hefur ekki verið húnn á hliðinu síðan við fluttum hingað fyrir þrettán árum. Járnsmiðurinn prófaði að setja hún í hliðið og þá kengvirkaði lokan bara. Magnað.

Hliðið fyrir viðgerð.

Þannig að það var ákveðið að smíða nýjan hún á hliðið, laga lamirnar aðeins, hefur étist ansi mikið úr þeim eins og sést kannski á myndinni. Einnig þarf að smíða móttak til að festa á garðvegginn. Fáum hliðið kannski til baka í næstu viku. Verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út.

2008-07-3

Verð bara

Filed under: Garðurinn — Jón Lárus @ 22:39

að monta mig af sýrenunni okkar.

sýrenan � fullum blóma

Frá því við fluttum hingað (fyrir 13 árum) þá hefur hún aldrei verið neitt í líkingu við þetta. Fyrstu árin þá komu nokkur blóm á hana og við vorum við það að henda henni út; héldum að þetta væri lélegt kvæmi eða eitthvað. Ég ákvað samt að þrjóskast aðeins við. Fékk nokkur góð ráð hjá garðyrkjusnillingi, sem við þekkjum og árangurinn er þessi núna.

Meira viðutan

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 22:25

Nei, ekki ég heldur að þessu sinni.  Röðin hlýtur hins vegar að fara að koma að mér.

Þannig var að við buðum Óla, bróður Hildigunnar og Kristínu mágkonu í mat.  Ákváðum að hafa sikileyskt lasagna (grænmetislasagna með eggaldinum, sem uppistöðu, hrikalega gott.  Ef við erum ekki búin að henda því inn á brallið þá er spurning um að gera það).

Nema hvað, fyrir nokkrum árum þá buðum við fólki í mat í akkúrat þennan sama rétt.  Í miðri máltíðinni þá uppgötvuðum við að það hafði gleymst að setja lasagna plöturnar í réttinn.  Þetta var semsagt ekki lasagna heldur ofnréttur með eggaldinum.  Þetta olli talsverðri kátínu.  Síðan þá hefur þetta verið standandi brandari hjá okkur:  Muna eftir lasagnablöðunum í sikileyska lasagnað…

Áðan þegar við vorum að elda þá sá Hildigunnur um að setja lasagnað saman.  Búin samviskusamlega að taka lasagnapakkann niður úr hillunni og búin að minnast á að borgaði sig að muna eftir blöðunum.  Svo tók ég eftir því að það voru komin nokkur lög í fatið:  Tómatar, eggaldin, ostur, tómatar, eggaldin.  Og spurði Hildigunni hvernig væri með lasagnablöðin.  Úpps…

Málinu var bjargað snarlega og lasagnað smakkaðist vel eins og endranær.

2008-07-2

Tyson Homosexual

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 22:36

Það er ýmislegt að varast þegar maður notar svona sjálfvirkar þýðingarvélar. Samanber þetta. Get nú ekki sagt að ég vorkenni þessum hálfvitum.

Eftirfarandi síða »

Bloggaðu hjá WordPress.com.