Strč prst skrz krk

2012-12-19

Lögleg færsla

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 22:44

Spurning um að bæta úr issu og skrifa eina færslu á prímtöludegi í desember.

Náði þeim árangri að hjóla 2.000 km í og úr vinnu núna um miðjan desember. Ekki alveg það mesta sem ég hef náð en samt alveg ágætis árangur. Nákvæmlega (eða svo langt sem það nær) þá verða þetta 2112 km á árinu. Það er að segja ef ég klúðra ekki neinu fram á föstudag.

2012-03-23

Bygma

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:27

Ég ætla að vona að þessi eignarhaldsbreyting (að danska keðjan Bygma sé orðinn eigandi) á Húsasmiðjunni hafi áhrif til góðs á verðlagið þar.  Smá dæmi um okrið, sem hefur viðgengist þar, kemur hér:

Ég þurfti að kaupa mér sandpappírsrenning vegna hurðaverkefnisins, sem ég hef áður bloggað um.  Kom við í Húsasmiðjunni og festi kaup á 2m löngum bút af sandpappír.  Fyrir þetta þurfti ég að borga rúmar 800 kr. (420 eða 430 kall á metrann). Ég reiddi þær af hendi en hugsaði með sjálfum mér: Var þetta ekki svolítið dýrt?

Ekkert mörgum dögum síðar var ég búinn að spæna upp öllum sandpappírnum og skaust út í Brynju á Laugaveginum.  Þar voru fáanlegir sandpappírsrenningar og kostuðu þeir á bilinu 190 til 270 kr. eftir grófleika.  Litla búðin gat semsagt boðið sandpappírinn á 140 til 260 kr. hagstæðara verði heldur en keðjan!  

Ef  þetta er ekki okur þá veit ég ekki hvað okur er.

2012-01-20

Arg hvað

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:12

það fer í taugarnar á mér þegar erlendum félagsliðum eru gefin ensk nöfn í fréttaflutningi á íslensku. Núna rétt áðan á Vísi í frétt sem má lesa hér:.

Algjör óþarfi að nota oe þar sem við eigum ö eins og Þjóðverjarnir.

2011-05-7

Garðpartí

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 17:04

Vorum með kaffi úti á palli í fyrsta skipti á þessu sumri núna áðan. Ekki slæmt það. Veðrið flott og nógu mikið skjól á pallinum til að væri ekkert kalt að sitja úti.

2011-04-3

Og fleiri vorboðar

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 21:35

Sá ánamaðka á hjólastígnum á leiðinni í vinnuna annaðhvort á miðvikudaginn eða fimmtudaginn. Líka nokkuð greinilegir vorboðar.

2011-03-17

Ég held

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 20:03

að dagurinn í dag sé eini dagur ársins sem er ekki helgaður einhverju málefni. Eins gott að njóta hans vel.

2010-10-29

Suðu og bökunartímar

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 22:36

Hvernig ætli standi á því að farið sé með suðutíma á alls kyns pasta og hrísgrjónum eins og væru þeir hernaðarleyndarmál? Oftar en ekki þarf maður að velta umbúðunum fram og til baka til að finna þessar upplýsingar. Heyrir til undantekninga að þær séu gefnar upp þannig að sjáist strax. Sama má segja um bökunartíma eins og á smábrauðum og hvítlauksbrauðum. Lenti í einu svona atviki fyrir nokkrum dögum. Þurfti að fara alveg í smáa letrið til að finna hversu lengi ég ætti að baka hvítlauksbrauð. Auðvitað getur maður fylgst með hvernig gengur en maður vill bara geta skellt þessu af stað og stillt ca. tíma.

2010-08-7

Séð í

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 12:51

bílaauglýsingu í Fréttablaðinu í morgun: …búið að skipta um tímareim, smjör og þjónustubók…

Já, einmitt smjörbókin!

2010-07-3

Grrr

Filed under: Hjólreiðar,Uncategorized — Jón Lárus @ 23:58

Ég er ekkert smá brjálaður núna. Við fjölskyldan skruppum í bústað í afmælisveislu hjá Guðrúnu systur í gær. Snilldar veisla. Komum svo heim upp úr hádeginu í dag. Einhvern tímann síðdegis varð mér svo litið út um glugga í átt að hjólastatífinu. Þá var hjólið mitt horfið! Ekkert smá glatað.

2010-06-17

Sá áðan fyrirsagnir

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:01

á netmiðlunum:

Neyðarfundir hjá eignaleigufyrirtækjum o.s.frv.

Hvernig ætli það sé með þessi fyrirtæki, ætli þau hafi ekkert verið búin að búa sig undir það að tapa máli í hæstarétti? Miðað við þessar fréttir þá lítur út fyrir að svo hafi ekki verið.

2010-03-17

Útrásarvíkingur, framhald

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 22:58

Ég rakst svo í vikunni á nágranna okkar á risinu og spjallaði aðeins við hann. Þá kom útskýring á núðluhaugnum fyrir framan útidyrnar hjá okkur um síðustu helgi og allri moldinni úr blómakerinu á dyrapallinum.
Hann spurði mig, kankvís, að því hvort ég hefði ekki vaknað við lætin á aðfararnótt laugardagsins. Ég kom af fjöllum og kannaðist ekki við nein læti. Þá sagðist hann hafa vaknað um þrjúleytið um nóttina við barsmíðar á aðaldyrnar hjá okkur. Þar hafði einhver dauðadrukkinn einstaklingur lamið húsið utan eins og enginn væri morgundagurinn. Þar sem svefnálman okkar er algerlega í hinum enda hússins og ekki á sömu hæð (og ég ekki þekktur fyrir lausan svefn) þá höfðu þessi læti gjörsamlega farið framhjá mér.
Gunnar, nágranni okkar, sagðist að lokum hafa neyðst til að hringja í lögregluna til að skakka leikinn. Þegar hana bar að garði þá hafði friðarspillirinn róast og lá á varinhellunni með fæturna upp í blómakerinu. Það kom víst ákaflega lítið af viti upp úr honum. Samkvæmt Gunnari þá hljómaði hann samt eins og Bandaríkjamaður og hann gat stamað upp úr sér „Backpacker“. Líklega haldið að hann væri kominn heim á farfuglaheimilið sitt. Þrumað síðan núðluskammtinum sínum á útidyrnar þegar honum var ekki hleypt inn.

2010-03-5

Samtal í gær

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:59

Finnur: „Pabbi það er eitthvað óvenjulegt við þig“
Ég: „?“
Finnur: „Já, ég veit hvað það er það stendur ekkert hár út í loftið“
Ég: „Grrrrr…“
Fífa: „Tíhíhí“
Ég: „Grrrr…“
Stuttu seinna var Finnur sendur að sofa.

2010-01-21

Bestu naan brauð

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 20:09

bæjarins held ég að fáist örugglega á Eldhrímni, tiltölulega nýlegum persneskum veitingastað. Við Hildigunnur rákumst þar inn í hádeginu fyrir nokkrum dögum. Fengum okkur rétt dagsins, sem var ágætur en heillaði mig samt ekki upp úr skónum því hann var með miklu kanilbragði (ég er ekki mesti kanilaðdáandi sem um getur). Með þessu pöntuðum við okkur naan brauð (brauðbrauð), sem reyndist þegar það kom á borðið stórt og afskaplega gott. Það sem meira er, hvert brauð kostar ekki nema 200 kall. Slær Austurlandahraðlestina og Shalimar, sem við höfum notað mest fram að þessu, algerlega út.

2009-12-17

Harpa

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:57

var það látið heita, nýja tónlistarhúsið. Í sjálfu sér ágætis nafn en uppfyllir ekki nema að hluta skilyrðin sem nafn hússins átti að gera. Eitt af því sem nafnið átti að uppfylla var að vera auðframberanlegt á erlendum tungumálum. Þarna vandast málið því Harpa er ekkert auðframberanleg á mörgum tungumálum. Rússar munu til dæmis líklega bera það fram Garpa, Frakkar ‘arpa og sama má segja um bæði Ítali og Spánverja. Líklega var átt við að nafnið væri auðframberanlegt á engilsaxnesku (og hugsanlega líka á norðurlandamálum).

Til að fyrirbyggja misskilning þá er þessi færsla ekki skrifuð í geðvonskukasti af því að mín tillaga var ekki valin. Ég sendi enga tillögu inn. Veit heldur ekki til þess að aðrir fjölskyldumeðlimir hafi gert það heldur. Mér fannst þetta bara svolítið spaugilegt.

2009-12-5

Þekktur í Vínbúðunum

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:58

Eftir að nýtt, mjög flott Ríki var sett á laggirnar í Skútuvoginum (sorrí Hildur Petersen þetta heitir bara Ríkið) þá hef ég beint mínum viðskiptum mjög ákveðið þangað. Kemur kannski ekki á óvart því þetta er ekki nema steinsnar frá vinnunni minni. Allar sérpantanir sem ég geri (og þær eru nokkrar) fara núna þarna í gegn.
Fyrir nokkrum dögum, þegar jólabjórinn kom inn í búðirnar þá kíkti ég aðeins inn á heimleið úr vinnunni. Þar sem ég stóð og var að skoða úrvalið þá kom einn starfsmaður búðarinnar að mér og sagði: Jón Lárus, sérpöntunin þín er komin. Ég veit ekki alveg hvort þetta er vont eða slæmt…

2009-11-29

Penslasápa

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:59

Lenti í því núna fyrir nokkrum dögum þegar ég var að mála niðri í þvottahúsi að ég gleymdi að skola úr penslum og rúllu, sem ég hafði verið að nota. Áttaði mig ekki á því fyrr en daginn eftir og þá voru bæði penslar og rúlla náttúrlega orðin grjóthörð. Ég mundi þá eftir því að ég hafði lesið grein einhvern tímann í haust um að það væri til penslasápa sem væri hægt að leggja hörð málningaráhöld í og þau yrðu eins og ný. Ég ákvað að reyna þetta. Keypti brúsa af sápu og skellti penslum og rúllu í meðferð. Það kemur síðan í ljós að þetta efni kengvirkar. Penslarnir búnir að liggja í sápunni í tvo daga og orðnir mjúkir og fínir aftur. Spillir svo ekki fyrir að þetta er íslensk framleiðsla.

2009-11-19

Hringekjan

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:55

Enn einu sinni er búið að taka einhver af eftirtöldum fyrirtækjum: SKÝRR, Kögun, Eskil, Landsteina-Streng og Teymi, setja í poka. Hrista svolítið. Hella úr pokanum og sjá hvað kemur út. Liggur við að eina fyrirtækið í bransanum, sem fái ekki að vera með sé Tölvuþjónusta Akraness (ok, ok HugurAx og TM software ekki heldur). Svona í lok kapalsins þá er Þórólfur Árnason alltaf látinn fjúka.

2009-11-8

Loppa

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:26

er komin með nýjan uppáhaldsstað. Hana er oftast nú að finna í litlum stól, sem Finnur á.

Loppa og uppáhaldsstaðurinn

Hún kann svo alveg þetta með að láta fara vel um sig…

Loppa letidýr

2009-10-21

Gráðostur

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 17:22

Mér fannst ég vera þannig myglaður áðan, áður en ég skellti mér í sturtu…

2009-10-17

Ég er ekki

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:58

með James Bond komplex. Það þurfti samt að stafa það ofan í mig eftir að hafa mætt á barinn á Samskipaárshátíðinni áðan í smóking og beðið um dry martini, kokteilinn…

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.