Strč prst skrz krk

2011-04-29

Keyrður niður

Filed under: Bílar,Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:40

Já það gerðist í fyrsta skipti í dag að ég var bókstaflega ekinn niður á hjólinu. Þetta gerðist þannig að ég var á leiðinni í vinnuna. Var kominn að Holtagörðum og hjólaði eftir gangstéttinni meðfram Holtavegi, norðan megin, fram hjá nýju bílastæðunum. Þar var einn bíll á leið út af stæðinu. Hann stoppaði og ég lét gabbast og hélt áfram. En þá var bara gefið í og ég varð fyrir drekanum. Sem betur fer var ég á lítilli ferð og bíllinn tók af stað úr kyrrstöðu. Ég flaug samt á hausinn og hjólið lenti að hluta til undir bílnum. Ég slapp nú sem betur fer með skrámur en hjólið slapp ekki eins vel úr þessum allt of nánu kynnum við bíl. Afturgjörðin á hjólinu er snarbeygluð, hægt að nota hjólið en gjörðin er svo skökk að það verður að skipta henni út.

Bílstjórinn, kona með tvö lítil börn var alveg miður sín yfir þessu. Sagðist hafa ruglast á bremsum og bensíngjöf (ég tók eftir því). Þetta hefði samt allt getað farið verr og ég hef dottið miklu verr á hjóli án þess að bíll kæmi nokkuð þar við sögu.

2011-04-23

Seinna eggið

Filed under: Ýmislegt,Hátíð — Jón Lárus @ 23:03

sem við gerum í ár var svo gert í kvöld. Að þessu sinni gerðum við tvennt sem við höfum ekki prófað áður. Fyrra atriðið var að við tempruðum súkkulaðið. Eftir að hafa brætt súkkulaðið í vatnsbaði þá tókum við 2/3 af súkkulaðinu og kældum úr ca. 50°C niður í 28°C. Blönduðum því svo aftur saman við afgangs þriðjunginn sem var þá við u.þ.b. 37°C. Eftir blöndunina var súkkulaðið um 32°C sem er kjörhiti. Hin nýjungin var að við smurðum einni til einni og hálfri matskeið af súkkulaði í formin og hentum svo í frysti í 5 mínútur. Endurtókum svo þangað til súkkulaðið var búið. Með þessu móti gekk mun hraðar fyrir sig en venjulega að mynda skelina og þykktin á henni varð líka mun jafnari. Nú er bara spurning hvrot að súkkulaðið haldi glansinum eða hvort það mislitist eins og þau hafa gert þegar súkkulaðið er ekki temprað. Ef þetta gengur vel þá verður þessi aðferð notuð í framtíðinni.

2011-04-17

Við Freyja

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 21:38

vorum að leggja lokahönd á fyrra páskaeggið sem verður handgert hér á bæ í ár. Við Freyja búum okkur til egg en hin kaupa sér. Að þessu sinni er um algjör lúxusegg að ræða. Súkkulaðið er 70% frá Amedei, ítölskum framleiðenda. Innvolsið handtínt í Krambúðinni. Framleiðsluferillinn var myndaður rækilega af Freyju. Afraksturinn sést hér að neðan:

2011-04-5

Heimur versnandi fer…

Filed under: Ýmislegt,Bílar — Jón Lárus @ 21:35

Rakst á gott dæmi um það um helgina. Tók á mig rögg og ákvað að bóna bílinn. Byrjaði á því að skólpa af honum. Varð náttúrlega að kaupa tjöruleysi til að ná af honum tjörusulli síðustu vikna. Athugaði síðan hvort ég ætti eitthvað eftir af bóni. Jú það voru restar í tveimur dollum; varla þó nóg til að bóna eina umferð. Ég kíkti því inn í bensínsjoppuna hjá bílaþvottaplaninu. Nei, þeir áttu ekki Mjallarbón. Ákvað því að prófa Olís, hef venjulega keypt þetta bón hjá þeim. Þeir áttu þetta heldur ekki til og prófaði ég þó á tveimur mismunandi stöðum. Ákvað því að prófa til þrautavara að kíkja í Excel búðina. Ekki heldur til þar. Eftir að hafa skoðað bónúrval á fjórum bensínstöðvum þá lítur út fyrir að ekki sé lengur hægt að fá Mjallarbón, besta bón sem um getur.

Fór svo að hugsa betur um þetta. Ég veit alveg af hverju þetta bón selst ekki lengur. Það er rosalega gott; bónhúðin endist í marga mánuði en það er líka erfitt og tímafrekt að bóna með því. Lítur greinilega út fyrir að fólk vilji heldur kaupa hraðbón sem er hægt að sulla á bílinn á örskammri stundu en endist ekki nema nokkrar vikur í mesta lagi.

Þetta bónævintýri mitt endaði á því að ég keypti eitthvað Sonax bón sem er meint gott. Byrjaði samt á að nota Mjallarbónrestarnar sem ég átti og þær dugðu til að klára bílinn. Líklega samt í síðasta skipti sem ég nota það.

2011-04-3

Og fleiri vorboðar

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 21:35

Sá ánamaðka á hjólastígnum á leiðinni í vinnuna annaðhvort á miðvikudaginn eða fimmtudaginn. Líka nokkuð greinilegir vorboðar.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.