Strč prst skrz krk

2012-11-17

Góður leikur

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 23:25

hjá mér í matseldinni í fyrradag.  Var að elda rósmarínpasta. Þegar kom að því að sjóða pastað þá greip ég 1 kg pakka af spaghettíi og fannst það vera 500 g pakki. Skellti öllu spaghettíinu í pottinn (fannst það reyndar vera óvenju mikið) og sneri mér síðan að öðrum verkefnum. Áttaði mig ekki á mistökunum fyrr en undir lok suðunnar þegar spaghettíið var bókstaflega farið að vella upp úr pottinum. Kennir manni að vera vakandi við eldamennskuna.

2012-11-11

Kielbasa

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 19:10

Er að elda núna pólskan rétt, bigos að nafni.  Þetta er pottréttur sem inniheldur meðal annars hvítkál, súrkál, svínakjöt, beikon, lauk og svo pólskar kielbasa pylsur.  Í gær þegar ég var að kaupa inn þá fór ég í Kjötpól og bað um kielbasa pylsur. Afgreiðslukonan fór að hlæja.  Ég skildi ekkert í því hvað gæti verið svona fyndið þangað til hún sagði mér að kielbasa væru pylsur á pólsku.

Þarna bættist því ein ný samsetning pylsupylsur (kielbasa pylsur) við safnið brauðbrauð (naan brauð), sósusósa (salsa sósa) og baunabaunir (haricot baunir).

2012-06-29

Grillaðar rófur

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 21:15

Mér datt í hug um daginn að prófa að grilla rófur.  Var ekki búinn að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd fyrr en í kvöld.  Við skiptum einni  meðalstórri rófu í tvennt, vöfðum henni inn í álpappír og skelltum á grillið.  Byrjaði á rófubitunum 10 mínútum á undan kartöflunum og laukum.  Hefði líklega þurft 5-10 mínútur í viðbót en var samt alveg ágætt.  Prófa að lengja tímann næst.

 

2011-04-17

Við Freyja

Filed under: Fjölskyldan,Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 21:38

vorum að leggja lokahönd á fyrra páskaeggið sem verður handgert hér á bæ í ár. Við Freyja búum okkur til egg en hin kaupa sér. Að þessu sinni er um algjör lúxusegg að ræða. Súkkulaðið er 70% frá Amedei, ítölskum framleiðenda. Innvolsið handtínt í Krambúðinni. Framleiðsluferillinn var myndaður rækilega af Freyju. Afraksturinn sést hér að neðan:

2011-02-11

Sykurlaust síróp

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:10

Ég rakst á innkaupaseðil í vinnunni í gær sem einhver hafði týnt og einhver annar hafði tínt og sett ofan á stimpilklukkuna. Í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema ég staðnæmdist við eitt atriði á listanum: Sykurlaust síróp! Þetta kom af stað hugsanaferli. Þetta er ekki til, ég meina síróp er ekkert annað en fljótandi sykur og það er ekki til sykurlaus sykur.

Ég talaði um þetta við vinnufélaga mína og þær umræður enduðu með því að við gúggluðum þetta og þá kom í ljós að sykurlaust síróp er sko aldeilis til.

Uppskriftin er væntanlega eitthvað í þessa áttina:

Vatn
Þykkiefni
Sætuefni
Bragðefni

Ef þetta er ekki ógeð þá veit ég ekki hvað!

2011-01-3

Hedónískur dekadens

Filed under: Hátíð,Matur — Jón Lárus @ 21:52

Það örlaði á þannig stíl á matseðlinum í hinu árlega áramótaboði okkar. Franskt þema að þessu sinni:

Fordrykkur: Montes chardonnay (af hverju var þetta ekki franskt?)
Forréttur: Foie gras með sauternes.
Milliréttur: Confit de canard með salati og vinaigrette.
Aðalréttur: Veau façon stroganoff à la truffe.
Eftirréttur: Charlotte au chocolat.

Náðum svo ekki að koma með kaffi og konfekt í lokin því það skall á með áramótaskaupi. Kampavínið eftir miðnætti var svo frá Louis Roederer.

2010-04-11

Eftirréttur dauðans

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 23:48

Við áttum enn eftir afgang af þeyttum rjóma frá fermingunni um daginn, sem við vissum ekkert hvað við ættum að gera við, þangað til Fífu datt í hug að gera bananasplitt.
Keyptum banana og smá ís og Fífa sá svo um að gera eftirréttinn. Í stuttu máli þá var þetta syndsamlega gott. Maður er bara afvelta eftir þetta.

2010-03-29

2007 matseðill

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 23:41

Að undanförnu hafa framandi réttir á borð við akurhænur, myrkilsveppi, andaegg og andabringur verið á boðstólum hjá okkur. Ástæðan fyrir þessu var að okkur áskotnaðist svolítið af þessum fáséðu hráefnum þar sem þau voru að renna út. Við ekki ósátt við þessa stöðu. Eina vandamálið að finna uppskriftir fyrir hráefnin.

2010-02-11

Peshawari raan

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 21:45

eða Mughlai style leg of lamb eins og það er kallað í Curry lovers cookbook er ekkert venjulega góður indverskur réttur. Prófuðum hann um síðustu helgi. Eins og með Osso buco þá er smá bauk að koma réttinum af stað en eftir það sér hann um sig sjálfur að mestu leyti. Mjög þægileg eldamennska. Og bragðið maður minn það er ekkert slor!

Við höfðum svo naan brauð frá Eldhrímni (sem ég bloggaði um nýlega) og raitu með lambinu. Þegar ég fór að sækja naan brauðin þá þekkti Persinn (ég veit ekki hvort hann á staðinn) mig og sagði: „Já, þú ert naan gaurinn“. Greinilegt að við höfum eldað of mikið indverskt uppá síðkastið.

2010-01-5

Nei

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:38

ég nenni ekki að blogga um það sem gerðist í morgun og afleiðingar þess.

Eftir allt átið um áramótin elduðum við einn fisléttan pastarétt úr bókinni hans Jamie Oliver’s . Þar sem ég var ennþá í fríi þá ákvað ég að vera flottur á því og búa til pasta frá grunni.

Uppskriftinni henti Hildigunnur inn á brallið. Við höfum nokkrum sinnum gert ferskt pasta áður en aldrei fyrr svona breiðar lengjur (lasagnette held ég að það geti verið kallað). Ég flatti pastað út í lasagnaplötubreidd og skar svo hverja lengju í þrennt og svo hvern þriðjung í fernt langsum.

Mynd svo af framleiðslunni:
pastameistarinn

2009-10-7

Mig langar

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 21:47

í svona borgara. Hildigunnur, er ekki frjáls dagskrá á matseðlinum á föstudaginn?

2009-10-3

Sláturgerð

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 22:58

Dagurinn í dag fór að mestu leyti í sláturgerð. Tókum 5imm slátur með mömmu og hjálpuðumst að við lifrarpylsu og blóðmörsgerð í dag. Vorum frá eitthvað um hálf 2vö til að verða 6ex að vesenast. Ekki kannski það skemmtilegasta sem maður gerir (svona svipað eins og að hreinsa sveppi) en vel þess virði. Að minnsta kosti er maður alltaf feginn þegar þetta er búið. Klikkt svo út með sviðaveislu í kvöldmat. Ekki slæmt.

2009-08-17

Svo geymdum við

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:14

smá slurk af sveppasendingunni til að gera sveppapastað, sem við gerum alltaf þegar fyrstu villisveppirnir koma í hús. Ekkert slor það!

2009-08-7

Grillaðir bjórkjúklingar

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 21:36

Þá uppskrift hefur mig lengi langað til að gera. Það hefur strandað fram að þessu á því að ekki er hægt að loka grillinu okkar en það er nauðsynlegt til að hægt sé að elda þennan rétt. Í fríinu fyrir vestan um daginn þá gafst tækifæri til þess því þar er grill með loki. Gæsin var því gripin og grillaðir tveir kjúklingar sitjandi á bjórdollum.

Beer butt chickens

Tóku sig ekki sem verst út, eða hvað? Uppskriftin var nú ekki flókin. Kjúklingarnir kryddaðir með kjúklingakryddi frá Pottagöldrum. Lítil bjórdós opnuð, drukkinn ca. 1/3 af henni og síðan kjúklingurinn látinn setjast virðulega á hana (má alveg örugglega nota pilsner í staðinn). Grillað í ca. klukkutíma. Niðurstaðan var merkilega góð. Bringurnar aðeins komnar yfir toppinn en með frekari æfingu ætti það að geta lagast. Mæli með þessari aðferð.

2009-07-13

Íslandsbeikon

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:52

hét það beikonið, sem ég slysaðist til að kaupa í Bónus áðan. Leit bara ansi vel út í pakkanum. Tók reyndar ekki eftir að sneiðarnar voru frekar þunnar. Þegar ég steikti það, þá skrapp það hins vegar saman, fór allt í tætlur og hvarf næstum því. Spurning hvort þetta tengist eitthvað nafninu?

2009-06-7

Það er nú ekki oft

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 21:24

sem maður verður fyrir því eða lendir í því að fá fullkomlega eldaðar rækjur á veitingastöðum. Allt of oft sem þær eru orðnar þurrar og leiðinlegar.

Ég varð eftir í Frankfurt þegar Hildigunnur og Graduale kórinn flugu heim í dag því mér tókst ekki að útvega mér miða með sama flugi (bættist við hópinn eftirá). Þurfti náttúrlega að fá mér eitthvað að borða og endaði inni á tælenskum veitingastað. Fékk mér Pad-tai núðlur þar. Sá ekki eftir því þar sem þær voru vægast samt hrikalega góðar. Stóðust alveg samanburð við Krua-tai heima eða jafnvel betri ef mögulegt er.

2009-05-11

Tilraun

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 19:16

Gerði tilraun í gær með að búa til jógúrt og nota gríska jógúrt sem startara. Tilraunin tókst nokkuð vel. Jógúrtin varð að vísu ekki eins hnausþykk og sú frá MS en þykk samt. Held líka að maður verði að sía hana til að fá hana svo þykka. Geri kannski tilraun með það síðar.

Væri fróðlegt að vita hvort þetta er sami gerillinn og er notaður við venjulega jógúrtgerð og munurinn sé bara að massinn sé síaður eftir jógúrtgerðina eða hvort þarna er um allt aðra tegund er að ræða.

2009-05-3

Í tilefni af

Filed under: Fjölskyldan,Matur,Tónlist,Vín — Jón Lárus @ 22:36

frumflutningi á verki hjá Hildigunni af Kvennakór Reykjavíkur þá ákváðum við að splæsa einni flottri hvítvínsflösku. Áttum eina Puligny-Montrachet 1er cru ’99 frá Etienne Sauzet. Alveg gríðarlega gott vín, sem passaði fullkomlega með kræklingunum, sem við nösluðum með.

Allavega, ég gaf Fífu að smakka á víninu og spurði hana hvað henni fyndist um það. Hún sagði að það væri betra en síðasta vín, sem ég hefði gefið henni að smakka á. Og hvaða vín var það aftur, spurði ég? Það var eitthvað með perubrjóstsykursbragði, mér fannst það ekki gott. En hvaða bragð myndirðu þá segja að væri af þessu víni? Svona hvítvínsbragð, hljómaði svarið.

2009-02-21

Level 2

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 19:12

Við vorum að búa til tortillur áðan (verðum með chimichangas í matinn). Finnur var mjög áhugasamur um þetta og vildi endilega fá að prófa að steikja tortillurnar. Við leyfðum honum að prófa og það gekk bara ágætlega hjá honum (nema þegar hann gleymdi sér við að slá niður loftbólurnar, sem mynduðust í deiginu). Eftir það passaði hann sig vel og tók hreinlega við steikingunni. Þegar voru bara ein eða tvær tortillur eftir þá sagði hann við mig: „Pabbi, ég verð örugglega kominn upp á level 2 þegar ég verð búinn að steikja þetta“. Fífa sprakk úr hlátri þegar hún heyrði þetta.

2009-01-23

Það voru svo ekki bara stelpurnar

Filed under: Afmæli,Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 22:48

sem áttu þátt í matargerðinni í dag. Með eftirréttinum (heimagerðum vanilluís) var hnausþykk, dökk súkkulaðisósa, sem Finnur gerði – næstum því hjálparlaust – upp úr nýju súkkulaðibókinni, sem kom út fyrir jólin.

Hann er búinn að stúdera bókina út í ystu æsar og gera tvær uppskriftir úr henni nú þegar. Fleiri, sem hann vill ólmur og uppvægur gera sem fyrst.

En aftur að ísnum og súkkulaðisósunni. Ísinn, snilld eins og endranær, súkkulaðisósan var svo bara til að kóróna réttinn. Ofboðslega góð.

Eftirfarandi síða »

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.