Strč prst skrz krk

2009-08-29

Spa

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 23:51

kappaksturinn á morgun gæti orðið sá mest spennandi í langan tíma. Fyrstu fjórir keppendurnir á ráslínu hafa ýmist ekki unnið kappakstur, ekki unnið kappakstur fyrir núverandi lið eða unnu fyrsta kappakstur fyrir núverandi lið í síðustu keppni. Allir þekktustu ökumennirnir eru svo dreifðir þar fyrir aftan. Uppskrift að spennandi keppni. Ég verð a.m.k. límdur við skjáinn. Svo bara spurning hvort að rigni?

Varðandi HHG

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 00:21

og mætingu á mótmæli. Þá er ég ekki stuðningsmaður ofbeldis og árása. Hins vegar verður maður að hafa í huga andrúmsloftið í þjóðfélaginu.
Bara til að taka dæmi þá gengur bleiknefji ekki í gegnum Bronx hverfið í NY án þess að vera í felulitum. Þetta ætti HHG, ef hann væri ekki skyni skroppinn, að vera sér vitandi um.

Póstsjokk

Filed under: Uncategorized — Jón Lárus @ 00:05

Mér finnst nú ábyrgðarhluti hjá póstinum að bera út bæði LÍN greiðsluseðlana og Vísa reikningana á sama deginum. Maður kemur heim og fær alveg áfall yfir „óvæntum“ reikningum.

2009-08-23

Varð fyrir miklum vonbrigðum

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:05

með eitt atriðið á menningarnótt í gær. Hafði skimað yfir alla dagskrána og rekið augun í nokkur spennandi atriði. Meðal annars fljótandi helíum innsetningu í Listasafni Reykjavíkur. Við þangað eftir tónleikana hennar Hallveigar kl. 9 um kvöldið. Svo þegar við vorum komin þangað þá reyndist innsetningin vera helíumblöðrur „fljótandi“ í loftinu. Ég sem hafði búist við einhverju hátækniatriði við -269°C.

2009-08-19

Alltaf jafn bjartsýnn

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 21:56

Prófaði áðan að slá inn kappafling.is til að komast inn í bankann. Gekk að sjálfsögðu ekki. Mér finnst að Da evil empire ætti nú að laga þetta. Svona á svipaðan hátt og maður kemst inn á símaskrána með því að slá inn nei.is.

2009-08-17

Svo geymdum við

Filed under: Matur — Jón Lárus @ 22:14

smá slurk af sveppasendingunni til að gera sveppapastað, sem við gerum alltaf þegar fyrstu villisveppirnir koma í hús. Ekkert slor það!

2009-08-13

Loftárás

Filed under: Húsið — Jón Lárus @ 22:29

Ég tók eftir því að einhverjir ólukkans fuglar höfðu dritað á húsið okkar í kvöld. Fjólubláir taumar höfðu lekið niður vesturhliðina á nokkrum stöðum. Frekar óspennandi. Sem betur fer hafði ég verið að mála og stigi því nærtækur. Gat þess vegna auðveldlega hreinsað burt ósómann.

2009-08-11

Rifin felga

Filed under: Hjólreiðar — Jón Lárus @ 22:56

Ég lenti í því áðan á leið heim úr vinnunni að byrjaði að koma ægilegur titringur í framdekkið á hjólinu. Ég stoppaði til að athuga hvað væri að gerast og gat ekki betur séð en það væri komin rifa í dekkið og það væri farið að ýtast yfir brúnina á gjörðinni. Hélt svo áfram og skrönglaðist löturhægt í heimátt. Þegar ég var kominn að Frakkastíg og átti bara eftir að fara þar upp þá fór ástandið hratt versnandi. Ég steig aftur að baki og skoðaði framdekkið nánar. Þá kom í ljós að það var ekki dekkið sem hafði rifnað heldur gjörðin! Greinilegt að það eru ekki bara bremsupúðarnir sem slitna heldur gjörðin líka.

Við Fífa drifum okkur svo í æfingaakstur í Örninn og þar fékk ég nýja gjörð. Lappaði svo upp á hjólið þ.a. ég ætti að komast á því í vinnuna á morgun.

2009-08-7

Grillaðir bjórkjúklingar

Filed under: Fjölskyldan,Matur — Jón Lárus @ 21:36

Þá uppskrift hefur mig lengi langað til að gera. Það hefur strandað fram að þessu á því að ekki er hægt að loka grillinu okkar en það er nauðsynlegt til að hægt sé að elda þennan rétt. Í fríinu fyrir vestan um daginn þá gafst tækifæri til þess því þar er grill með loki. Gæsin var því gripin og grillaðir tveir kjúklingar sitjandi á bjórdollum.

Beer butt chickens

Tóku sig ekki sem verst út, eða hvað? Uppskriftin var nú ekki flókin. Kjúklingarnir kryddaðir með kjúklingakryddi frá Pottagöldrum. Lítil bjórdós opnuð, drukkinn ca. 1/3 af henni og síðan kjúklingurinn látinn setjast virðulega á hana (má alveg örugglega nota pilsner í staðinn). Grillað í ca. klukkutíma. Niðurstaðan var merkilega góð. Bringurnar aðeins komnar yfir toppinn en með frekari æfingu ætti það að geta lagast. Mæli með þessari aðferð.

2009-08-5

Þessi kría

Filed under: Myndir — Jón Lárus @ 23:56

sat á stefninu á bátnum sem sótti okkur í Grunnavík. Tyllti sér þarna á meðan seinna hollið var sótt í land á gúmmíbátnum.

Kría í návígi

Kría í návígi

Ég er ekki viss um að ég hafi áður séð kríu svona nálægt án þess að þurfa að forða mér.

2009-08-3

Dumpster diving

Filed under: Ruglið — Jón Lárus @ 23:59

Það gerðist ýmislegt í fríinu okkar fyrir vestan á dögunum. Fyrstu dagana vorum við á ættaróðalinu með mömmu, pabba og systkinum mínum. Fjölskyldan fór í ferð í Grunnavík í Jökulfjörðum og að henni lokinni fóru þau aftur suður. Við urðum eftir.

Morguninn eftir hringdi mamma í mig. Þá hafði hún lent í því að henda óvart poka með sænginni hans Stebba bróður. Það hafði orðið einhver misskilningur með hvar ruslapokinn lenti. Hann hafði endað í bílnum hjá Bjössa bróður en mamma stóð í þeirri trú að hann væri í bílnum hennar. Hún sá svo einn svartan ruslapoka aftur í bílnum og henti honum án þess að skoða innihaldið neitt nánar. Hún bað mig því um að fara og athuga hvort ég fyndi sængina í ruslagámnum fyrir svæðið. Þetta var lítið mál. Ég skaust þessa nokkra kílómetra að gámnum. Hann hafði ekki verið tæmdur en ég fann engan svartan ruslapoka með sæng. Ég hringdi svo í mömmu og sagði henni þetta.

Seinna um daginn fórum við svo til Ísafjarðar á leiðinni til baka þá ákvað ég að gera þrautaleit í gámnum ef ég hefði ekki verið nógu vandvirkur í fyrra skiptið. Þá fundum við pokann (hann var auðþekkjanlegur vegna límbanda) sem sængin hafði verið í, tóman. Það er semsagt greinilegt að einhver fer yfir ruslið sem hent er og hirðir allt nýtilegt úr því á þessum stað.

Stofnaðu ókeypis vef eða blogg á WordPress.com.